17.04.1937
Sameinað þing: 11. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í D-deild Alþingistíðinda. (2640)

153. mál, virkjun Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

*Flm. (Guðbrandur Ísberg):

Ég vil lýsa ánægju minni yfir þeirri yfirýsingu hæstv. fjmrh., að hann teldi till. þá, sem hér liggur fyrir, fjalla um nauðsynjamál fyrir Akureyrarkaupstað. Ég er honum líka sammála um, að það væri æskilegt, ef hægt væri að fá lán til rafveitunnar án ríkisábyrgðar. En mér finnst það æðiólíkt og varla til þess að ætlast, að akureyri takist að útvega slíkt lán án ríkisábyrgðar, þegar Reykjavík tókst það ekki að því er snertir lán til Sogsvirkjunarinnar. Og þótt slíkt lán væri e. t. v. fáanlegt, þá er nokkurnveginn víst, að það myndi verða með verri kjörum, ef ekki væri ríkisábyrgð fyrir því. En það er ekki svo að skilja, að þótt þessi till. verði samþ., þá sé allt búið þar með. Fyrst þarf að útvega lánið, og í annan stað þarf ráðh. að fást til að nota þá heimild, sem honum er gefin. Ef hann af einhverjum ástæðum telur ekki forsvaranlegt að nota þessa heimild, þá getur hann frestað því þrátt fyrir það, þótt till. liggi fyrir. Ég sé þess vegna ekkert því til fyrirstöðu, að till. verði samþ.

Viðvíkjandi brtt. hv. þm. Ísaf. vil ég taka það fram, að mér finnst dálítið óeðlilegt, að gerðar séu aðrar og strangari kröfur, þegar farið er fram á ábyrgð fyrir lánum til virkjunar á Akureyri en til Sogsvirkjunarinnar. Ríkið mun hafa tekið ábyrgð á öllu því láni, og þar sem eins stendur á með þessa virkjun á Norðurlandi, þá vil ég gera kröfu til þess, að ekki verði farið að klípa af þessari ábyrgð. Og mér finnst það vera fremur óvingjarnlegt af hv. þm. Ísaf., að blanda hér inn í ábyrgðarheimild fyrir Ísafjarðarkaupstað, sem verður að telja óskylt mál þessu, og ég sé ekki betur en að þetta sé gert til þess að spilla fyrir framgangi þessarar till., a. m. k. þykist ég þess fullvíss, að ef ég hefði borið fram brtt. við svipaða þáltill., sem hann hefði verið með hér í þinginu, þá hefði hann ekki talið það neitt vináttumerki við málið. Ég er ekki með þessu að reyna að gera málið að flokksmáli. Ég vil halda því fyrir utan það, og ég vil vona, að þó að þessi hv. þm. hafi borið fram þessa till., þá sé Alþfl. hér í þinginu alls ekki þannig sinnaður, að hann vilji spilla fyrir framgangi málsins. Ég mun þess vegna greiða atkv. á móti till. hv. þm. Ísaf., þ. e. sem brtt. við mína till., en ef hann ber hana fram sem sjálfstæða till., mun ég athuga, hvort ég get ekki fylgt henni, en ég mun greiða atkv. á móti henni eins og hún liggur fyrir, og vænti ég þess, að sama geri einnig þeir, sem eru fylgjandi till. á þskj. 297, sem ég vil vona, að verði samþykkt.