17.04.1937
Sameinað þing: 11. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í D-deild Alþingistíðinda. (2643)

153. mál, virkjun Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. þm. Ak. sagði, að það væri ólíklegt, að Akureyri tækist að útvega lán án ríkisábyrgðar, þar sem Reykjavík hefði ekki tekizt það. Ég veit ekki, hversu mikið hefir verið reynt að útvega lánsfé fyrir Sogsvirkjunina án ríkisábyrgðar, og get þess vegna ekki um það dæmt, hvort nokkrir möguleikar hafa verið fyrir hendi til þess, en við vitum, að á þeim tímum var yfirleift ekki stungið mikið fótum við því að leita ríkisábyrgða, og það var orðin föst venja, að engin veruleg lán fengust án þess að á þeim væri ríkisábyrgð. Nú er það allmerkileg tilraun, að reyna að útvega lán til þessarar rafveitu á Akureyri án ríkisábyrgðar, og prófa með því, hvort ekki er hægt að komast út af þessari braut, sem gengið hefir verið á hingað til, að veita ríkisábyrgð til allra þessara fyrirtækja, en er hygg, að ef þær umleitanir, sem undanfarið hafa farið fram og ekki er séð fyrir endann á ennþá, reynast árangurslausar, megi telja, að það sé vonlaust, eins og nú standa sakir a. m. k., að fá fjármagn til rafveitunnar án ríkisábyrgðar. Mín skoðun er sú, að það eigi að reyna til þrautar að komast út af þeirri leið, að veita ríkisábyrgð til slíkra fyrirtækja, en ef það reynist ekki hægt, verður vitanlega að meta það í hverju tilfelli, hvort fyrirtækið er svo mikilsvarðandi, að fyrir því skuli veita ríkisábyrgð, og ég fyrir mitt leyti lít þannig á, að ef ekki tekst að útvega lán til virkjunarinnar án ríkisábyrgðar, verði erfitt fyrir þingflokkana að neita Akureyri um slíka ábyrgð, eftir að slíkar ábyrgðir hafa verið veittar til annara kaupstaða landsins, og það er aðeins vegna þess, að ég lít á þetta sem tilraun til þess að komast út af þessari braut, að ég tel rangt að samþ. ríkisábyrgð fyrir þessu, fyrr en hin leiðin er þrautreynd, og svo er hitt, að það er mjög liðið á þingtímann að þessu sinni og kosningar standa fyrir dyrum, svo að mér finnst, að það ætti að gera sem allra minnst að því að afgreiða stórkostleg fjárhagsmál, þegar þannig standa sakir. — Það er sama hægt að segja að verulegu leyti um þá brtt., sem hv. þm. Ísaf. hefir flutt hér, og mér finnst vera vafasamt, hvort rétt sé að afgr. hana, eins og sakir standa. Hv. þm. Ak. drap á það, sem mun vera alveg rétt, að þó að þessi heimild yrði veitt, þá væri eftir að útvega lánið með ríkisábyrgð, og eftir því, sem reynslan hefir sýnt í þessu efni, hygg ég, að það þyrfti ekki að valda bagalegri töf, þótt þetta mál yrði ekki afgr. fyrr en eftir þær kosningar, sem í hönd fara.

Ég mun svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en ég er því fylgjandi, að málinu verði vísað til hv. fjvn.