16.04.1937
Efri deild: 42. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Bernharð Stefánsson:

Eftir að hafa heyrt svar hæstv. ráðh., mun ég greiða atkv. með því, að þessu máli verði vísað til 2. umr., og síðan mun ég sýna það, eftir því sem við á á hverjum tíma, hvernig ég lít á málið.

Hv. 1. þm. Skagf. talaði um sjónleik í þessu máli. Ég hefi yfirleitt ekki lagt það í vana minn að leika sjónleiki, og frá minni hendi er hér ekki um neinn sjónleik að ræða. En það er von, að honum detti sjónleikur í hug, því að þetta svokallaða fylgi Sjálfstfl. við það frv., sem við þm. Eyf. bárum fram, til þess m. a. að rétta hlut þess flokks, sem hv. 1. þm. Skagf. fylgir, er og var ekki nema sjónleikur. Ég skal taka það fram, að ég undanskil hv. þm. N.-Ísf., sem átti sæti í n., sem fjallaði um málið, og studdi það af einlægni.

Þetta rann upp fyrir mér, þegar til atkvgr. kom við 3. umr. Hv. 1. þm. Reykv. sagði blátt áfram við atkvgr. um málið, þegar það var sent úr d., að það væri í alla staði vitlaust, eða eitthvað á þá leið, en greiddi samt atkv. með því. Hann sagðist gera það vegna þess, að í því fælist vantraust á atvmrh., sem ég sem flm. er þó margbúinn að lýsa yfir, að vekti ekki fyrir mér, og eitthvað þessu líkt hraut út úr hv. 1. þm. Skagf., og get ég fullyrt, að hann var ekkert hrifinn af frv., þótt hann samþ. það. — Annars hefir sá þm. stundum leikið sjónleiki á þingi hér áður, eins og t. d. þegar flokksbræður hans voru að afnema tóbakseinkasöluna um árið.

Ég vildi spyrja hv. þm. að því, í hverju ég hefði breytt minni afstöðu, síðan málið kom hér fyrst til umr., og í hverju leikaraskapurinn væri fólginn. Ég skal taka það fram, að ég hefi ekki leiðrétt neina þingræðu. Það, sem skrifararnir hafa skrifað, stendur óbreytt, og má leita þar í þeim ræðum, sem ég hefi flutt um þetta efni. Ég tók það fram, að ég vildi ekki á neinn hátt deila á hæstv. ráðh. fyrir að hafa gefið út þessi bráðabirgðal. og að ég fyrir mitt leyti væri samþ. þeirri ráðstöfun, það sem hún næði, þó að ég vildi svo á eftir breyta skipulaginu.

Hv. 1. þm. Skagf. gerði lítið úr því samráði, sem atvmrh. ætlaði að hafa við aðra flokka um þetta mál; það væri ekki víst, að hann mundi fara eftir tillögum þeirra. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. ráðh. muni bera fram sem stjfrv. það eitt, sem hann gæti fallizt á. Og ég skildi orð hans svo og treysti því, í samræmi við það, sem ég hefi áður sagt, að till. annara flokka eða þeirra manna, sem flokkarnir velja til þess að semja nýja löggjöf um þetta mál, fái að koma fram. Það er venja t. d. með mþn., að þó að þær klofni, þá kemur fram álit beggja eða allra hlutanna. Og þingið stendur allt öðruvísi að vígi, jafnvel þó að ráðh. leggi fram frv. frá sínu sjónarmiði, ef fulltrúar frá Sjálfstæðis- og Framsóknarflokknum hafa lagt fram vel undirbúin frv. um þessi mál. Það er vonandi, ef svo færi, að menn gætu orðið ánægðari með það en sjálfstæðismenn hér í d. voru með frv. okkar þm. Eyf., þó að þeir dröttuðust við að greiða atkv. með því. (PM: Er það af því að þm. er að hlaupa frá því nú?) Ég er ekki að hlaupa frá því. Ég vil benda á, að frv. okkar þm. Eyf. liggur fyrir þinginu, og það er ekki öll nótt úti um að það geti orðið að lögum. Ef þessi bráðabirgðal. verða að l. frá þinginu, þá hlýtur að vísu að koma sú breyt. á frv. okkar, að það öðlist ekki gildi fyrr heldur en 1. janúar.

Hvað snertir þessar hugleiðingar hv. 1. þm. Skagf. um það, hvernig þessi framtíðarlöggjöf yrði, þá get ég ekki um það sagt. En ég get sagt, hver er stefna Framsfl. í þessum málum. Og hver sem fulltrúi Framsfl. verður í n. þeirri, sem sennilega verður skipuð til að undirbúa nýja löggjöf um þetta efni, þá mun hann fylgja stefnu flokksins í því, að í stj. síldarverksmiðjanna verði hins fyllsta jafnréttis gætt. Til þess hefir flokkurinn ætlazt frá upphafi, og mun hann ekki hvika frá þeirri stefnu.

Hv. 1. þm. Skagf. var að tala um það, að með þessu væri slegið föstu, að ráðh. réði til áramóta yfir þessum málum, eða sú stj., sem hann skipaði. Mér finnst það ekki sagt með því, þótt svo sé fyrirmælt, að l. falli úr gildi 31. des. þ. á. Það þýðir, að þessi l. gilda ekki lengur, en ef ný l. yrðu sett, sem öðluðust þegar gildi, þá væri vitanl. þau eldri þar með úr gildi numin. (MG: Hvenær ætti að gera það?) T. d. ef þetta þing gerði það.

Hvað það snertir, að lítil líkindi séu til samkomulags milli flokkanna um þetta mál, sem hv. þm. vildi halda fram, skal ég ekkert um segja. En ég álít, að það sé svo mikið í húfi með rekstur verksmiðjanna, ekki einasta fyrir flokkana, heldur þjóðina og atvinnuvegina í heild sinni, að vænta megi, að flokkarnir hafi þá ábyrgðartilfinningu, að málið geti orðið leyst með samkomulagi þeirra, ekki einasta stjórnarflokkanna, heldur allra flokka. Það er vitanlega rétt, að Sjálfstfl. hefir sýnt það, að hann vildi skjóta sér undan allri ábyrgð í þessum málum, og þrátt fyrir það, að honum mislíkaði, að gefin væru út bráðabirgðal., þá finnst mér, að hann hefði ekki átt að hindra það, að góður maður úr hans hópi tæki sæti í stj. verksmiðjanna.

Hv. þm. Skagf. hafði það eftir mér, frá umr. um frv. okkar þm. Eyf., að aðalástæðan til þess, að það hefði verið borið fram, væri sú, að það væri beitt hinni megnustu hlutdrægni um mannaráðningar á Siglufirði. Ég vil aftur vísa til handrita skrifaranna. Þetta mun hvergi standa þar. Ég sagði, að vegna þess, hvernig stj. væri skipuð flokkslega, þá væri grunur um þetta. En ég tók það fram, að ég vissi ekki, hvort sá grunur væri á rökum byggður; en að það væri óheppilegt, að slíkur grunur ætti sér stað. Hvað það snertir að bæta úr þessu, ef þetta væri tilfellið, þá hefi ég ekki mikla von um, að úr því verði hægt að bæta á þessu ári, jafnvel þó að frv. okkar þm. Eyf. yrði samþ. og öðlaðist gildi þegar í stað, af þeirri ástæðu, að ég hygg, að það muni rétt vera, að mannaráðningar séu nú búnar, og að því leyti hefir það enga þýðingu, að um verði skipt fyrr en um næstu áramót. Hv. þm. spurði, hvort ekki ætti líka að tryggja sjálfstæðismenn fyrir ranglæti í mannaráðningu og öðru. Jú, það er minn vilji, að allir séu tryggðir fyrir því. Og eins og áður er tekið fram, þá gátu sjálfstæðismenn vel séð um, að þeir hefðu sinn fulltrúa í verksmiðjustj. En hvað sem öðru líður, þá býst ég við, að bæði sjálfstæðis- og framsóknarmenn verði að sætta sig við orðinn hlut, því að mannaráðningunum fyrir næsta sumar verður ekki riftað, býst ég við.

Hv. þm. var að tala um það, að aðalflokkar þingsins hefðu ekki séð annað ráð en setja upp 20 manna stj. yfir verksmiðjurnar til þess að fyrirbyggja hlutdrægni. Ég kannast ekki við það. Í okkar frv. var ekki gert ráð fyrir nema þriggja manna stj., þótt svo væri líka ákveðið í frv., að skipað yrði 12 manna ráð, sem kæmi saman einu sinni eða tvisvar á ári og ynni kauplaust.

Þá vildi hann bera það upp á mig, að ég væri ekki hreinskilinn hér í d., og rökstuddi það með því, að ég hefði sagt, að ég vissi ekkert um það, hvort rjúfa ætti þingið. Ég skal ekkert ræða um það, hvort ég er hreinskilinn eða ekki. En ég hygg, að hv. þm., sem verið hefir ráðh., viti, að hvorki ég né nokkur annar einstakur þm. getur vitað, hvort rjúfa á þingið. Það er ekki hægt fyrir neinn einstakan þm. að vita fyrr en það skeður, eða fyrr en konungur er búinn að undirskrifa fyrirskipun um það. Og þó að konungsvaldið sé nú orðið lítið, þá er það þó svo mikið, að samþykki konungs þarf til þess að rjúfa þingið.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða þetta frekar við þessa umr. Flokksbræður hv. þm. hafa, áður en ég hefi sagt nokkurt orð um það frv., sem hér liggur fyrir, byrjað með svívirðingar út af þessu máli. Ég býst við þeim úr þessari átt og mun láta mér þær í léttu rúmi liggja. En með rökum getur hv. 1. þm. Skagf., eða aðrir úr hans herbúðum, alls ekki haldið því fram, að mín afstaða í þessum efnum hafi breytzt. Hún er sú sama nú og þegar mitt frv. var hér til umr.