19.04.1937
Efri deild: 45. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

11. mál, alþýðutryggingar

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Mér skilst, að hv. þm. Dal. eigi við það, hvort ríkisstj. telji sér heimilt að greiða út vaxtaframlag ellistyrktarsjóðanna gömlu, án þess að framlag komi á móti frá hlutaðeigandi bæjar- og sveitarsjóðum. Ég skal að sjálfsögðu taka þetta til athugunar. Það er rétt hjá hv. þm., að í frv., sem frammi liggur um breyt. á alþýðutryggingarlögunum, er gert ráð fyrir þessari breyt., að ekki skuli krafizt mótframlags, en hinsvegar hygg ég, að samkv. gildandi l. sé það ekki heimilt. En ég skal láta athuga þetta áður en útbýting fer fram í haust, þ. e. a. s. ef það kemur á mig. Úthlutuninni á nú að vera lokið í október, svo það er ekki sennilegt, að hægt sé að fá l. breytt fyrir þann tíma. Hinsvegar er hugsanlegt, að fyrir þann tíma sé hægt að fá yfirlýstan þingvilja, og mætti þá kannske taka tillit til þess, þó að l. heimili þetta ekki. En sem sagt, ég skal taka þetta til athugunar.