09.04.1937
Efri deild: 35. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í B-deild Alþingistíðinda. (419)

18. mál, leiga á mjólkurvinnslustöð

*Pétur Magnússon:

Þetta mál fór umræðulaust til 2. umr. af þeim ástæðum, að hæstv. forseti var ekki viðstaddur, og þótti því ekki viðkunnanlegt að ræða málið að honum fjarstöddum; en ég mættist þá til þess við hæstv. forseta, að hann leyfði almennar umr. um málið við 2. umr., og lét hann í ljós, að hann myndi gera það. — Ég mun því til að byrja með tala um málið nokkuð almennt, þó að um 2. umr. sé að ræða.

Frv. á þskj. 18 er staðfesting á bráðabirgðalögum, sem sett voru 8. júlí s. l. sumar.

Hv. frsm. gerði nokkra grein fyrir því í gær, hvaða ástæður hefðu verið til þessara bráðabirgðalagasetningar, en ekki verður hjá því komizt að rekja það mál allmiklu meira en hann gerði í framsöguræðu sinni og láta koma fram hér við umr. aðdragandann að því, að svo er komið með þessa mjólkurvinnslustöð, að afnotaréttur hennar hefir verið tekinn af eigendunum með bráðabirgðalögum, og stöðin rekin af mjólkursamsölunni, að ég ætla frekar heldur en af ríkisstj. sjálfri.

Þessi mjólkurvinnslustöð var reist af Mjólkurfélagi Reykjavíkur árið 1930. Hún var upphaflega byggð þannig, að hún átti að geta tekið á móti 12 þús. lítrum á dag, en hinsvegar var hún þannig úr garði gerð, að ekki væri neinn teljandi aukakostnaður við það að auka hana upp í 16 þús. lítra vinnslu á dag.

Allar vélar voru teknar af nýjustu og fullkomnustu gerð, sem þá þekktist, þó að síðan hafi nokkrar nýungar orðið í þeim efnum; og það er óhætt að fullyrða, að stöðin fullnægði að öllu leyti kröfum tímans, þegar hún var upphaflega byggð. Síðan hefir verið bætt við ýmsum vélum, eftir því sem breytt hefir verið til í þeim efnum í fullkomnustu mjólkurstöðvum erlendis; árið 1932 voru keyptar Stassanovélar, árið eftir voru keyptar gerilsneyðingarvélar og árið 1935, eftir að samsalan kom til sögunnar, voru keyptar fullkomnar flöskuþvottavélar fyrir yfir 100 þús. kr. Þessar síðastnefndu vélar voru keyptar beinlínis vegna ákvæða mjólkurlaganna, sem bönnuðu að selja aðra mjólk en gerilsneydda í bænum, og leiddi til þess, að mjólkurmagnið hjá stöðinni óx að miklum mun.

Mjólkurlögin voru sett með bráðabirgðalögum haustið 1934 og staðfest á haustþinginu 1934 og gefin út sem l. nr. 1 frá 1935.

Í 7. gr. þeirra l. er ákvæði, sem heimilar landbúnaðarráðh. að gera það að skilyrði fyrir löggildingu og starfsemi mjólkurbúa, að þau taki til gerilsneyðingar mjólk fyrir utanfélagsmenn gegn sanngjörnu gjaldi, og getur ráðh. ákveðið hámark þess.

Nú stóð þannig á, þegar mjólkurlögin komu í gildi, að langflestir mjólkurframleiðendur í Reykjavík og nærsveitum hennar voru í Mjólkurfélagi Reykjavíkur; m. ö. o. flestir þeir menn, sem fluttu mjólk á Reykjavíkurmarkaðinn. En allstór hópur manna, sem framleiddu mjólk, einkum í Reykjavík sjálfri, stóð þó utan við Mjólkurfélag Reykjavíkur, og voru það aðallega þeir, sem seldu mjólk beint til neytenda. Við setningu mjólkurlaganna misstu þessir menn rétt til að selja mjólkina beint til neytenda, nema hún væri gerilsneydd fyrst. Þá reis upp sú spurning með þá, hvernig þeir ættu að skipa málum sínum. Mjólkurfélag Reykjavíkur lýsti sig strax reiðubúið til þess að gerilsneyða mjólkina fyrir þessa menn, gegn því að fá endurgreiddan þann beina kostnað, sem það hefði af þessari starfsemi. En mjólkursölunefndin, sem hafði yfirstjórn þessara mála, neitaði þessu tilboði Mjólkurfélags Reykjavíkur og kaus heldur að semja við það um ákveðið verð fyrir gerilsneyðinguna. Samningar komust á og var þannig samið vegna þessara utanfélagsmanna, að greitt skyldi 3 aura gjald fyrir hreinsun á mjólkinni, og auk þess átti hið svokallaða flöskugjald að renna beint til M. R., og var það reiknað 2 aurar á lítra. Þetta gjald er fyrir vanhöldum á flöskum og fyrir að koma mjólkinni á flöskur, svo að það, sem M. R. í raun og veru fékk fyrir hreinsun mjólkurinnar, voru 5 aurar á hvern lítra. Það kom í ljós, að þessir samningar voru mjög hagstæðir fyrir M. R., þannig, að kostnaðurinn varð miklu minni en um hafði verið samið.

Úr því að kosið hafði verið að fara þessa leið, er ekki hægt að sjá, að út af fyrir sig hafi neitt verið við það að athuga af hálfu M. R., þó að nokkur tekjuafgangur yrði af þessari starfsemi.

Þessi tilhögun stóð út árið 1935, en sjálfsagt meðfram vegna þess, að þessi tekjuafgangur hafði orðið hjá M. R., skipaði hæstv. ráðh. svo fyrir í janúarmánuði 1936, að M. R. skyldi hreinsa mjólk fyrir utanfélagsmenn gegn gjaldi, sem átti að nema 2 2/10 aur. á hvern mjólkurlítra, og skyldi flöskugjaldið jafnframt falla niður, þó þannig, að M. R. skyldi fá endurgreitt eftir ársuppgerð það tap á flöskum, sem það hefði orðið fyrir á árinu, en það mun hafa reynzt 1 — einn — eyrir á lítra, svo að hið raunverulega gjald, sem M. R. átti að fá eftir þessari fyrirskipun ráðh., lækkaði úr 5 aur. niður í 3,2 aura á lítra.

Vegna stöðugs ágreinings út af þessum utanfélagsmönnum, sem þurftu að fá mjólk sína hreinsaða hjá M. R., varð það úr, að M. R. var skipt í tvö félög, þannig að mjólkurstarfrækslan öll var skilin við verzlunarstarfsemina, og til þess að hafa hana á hendi var stofnað nýtt félag, Mjólkursamlag Kjalarnesþings. Það var stofnað snemma á árinu 1936, en ég man ekki, í hvaða mánuði ársins.

Eftir að þessi skipting var gerð, þannig að mjólkurstarfrækslan var laus við alla áhættu, sem verzlunarstarfsemi jafnan fylgir, virðist eðlilegt, að mjólkurframleiðendur gengju inn í þennan félagsskap bænda, enda reyndist það svo, að allur þorri mjólkurframleiðenda í grennd við Reykjavík gekk inn í þetta nýja félag, Mjólkursamlag Kjalarnesþings.

En þrátt fyrir það, þó að öllum þorra mjólkurframleiðenda þætti eðlilegt og sæi sér hag í því að ganga inn í þennan allsherjarfélagsskap mjólkurframleiðenda í nágrenni og nærsveitum Reykjavíkur, þá voru samt nokkrir menn, sem af einhverjum ástæðum kusu að standa utan við þennan félagsskap. — Ég ætla, að þessir mjólkurframleiðendur hafi verið í kringum 20, en nákvæma tölu þeirra veit ég ekki, — það skal ég taka fram.

Eftir að Mjólkursamlag Kjalarnesþings var stofnað, tók það þegar þá stefnu gagnvart utanfélagsmönnum, að krefjast þess, að þeir greiddu raunverulegt kostnaðarverð fyrir hreinsun á mjólkinni, og mun hafa gert kröfu til þess, að haldið yrði eftir 3 aur. á lítra í hreinsunargjald, en vildi hinsvegar skuldbinda sig til þess að endurgreiða það, sem afgangs kynni að verða, um áramót, eftir að reikningar hefðu verið gerðir upp fyrir árið. Með þessu fyrirkomulagi var hreinsunargjaldið lækkað um einn eyri frá því, sem áður hafði verið, og má ætla, eftir því, sem tekjuafgangur hafði verið 1935, að þetta gjald hafi látið mjög nærri því að vera kostnaðarverð. En hvað sem því líður, átti það ekki að geta skipt verulegu máli af þeim ástæðum, að mjólkursamlagið tjáði sig jafnan reiðubúið að endurgreiða, ef þetta gjald reyndist að vera óþarflega hátt, og er óhætt að fullyrða, að flestum mjólkurframleiðendum utan samtakanna fannst þetta réttlát lausn á málinu, eða gátu a. m. k. sætt sig við hana. Samt fór það svo, að einhverjir voru óánægðir og kvörtuðu yfir þessu við ráðuneytið eða mjólkursölunefndina.

Ráðh. gerði þá kröfu til stj. mjólkursamlagsins, að það annaðist hreinsun mjólkurinnar fyrir 2,2 aura gjald á lítra, en stj. mjólkursamlagsins neitaði þessari kröfu ráðh., en ítrekaði loforð sitt, að endurgreitt skyldi verða af 3 aura gjaldinu, ef það reyndist óþarflega hátt.

Stjórn mjólkursamlagsins mun hafa byggt þessa synjun sína á þeirri skoðun, að ráðh. hefði farið út fyrir valdsvið sitt með því að vilja knýja mjólkursamlagið til þess að hreinsa mjólkina fyrir verð, sem sannað var eftir reikningum félagsins, að væri fyrir neðan kostnaðarverð. Mjólkurlögin gáfu hæstv. ráðh. ekki meiri heimild en að setja það sem skilyrði fyrir löggildingu mjólkurbúa, að þau tækju mjólk til gerilsneyðingar frá utanfélagsmönnum gegn sanngjörnu gjaldi, og stj. mjólkursamlagsins mun hafa lagt þann skilning í þetta ákvæði, að sanngjarnt gjald gæti ekki verið fyrir neðan hið raunverulega kostnaðarverð, þegar með væru taldir vextir af því fé, sem í fyrirtækinu stendur, og annað slíkt.

Það má geta þess í sambandi við hreinsunarkostnaðinn, að það var upplýst, að ég ætla fyrir hæstv. ráðh., a. m. k. var það upplýst fyrir mjólkursölunefnd, — að hreinsunarkostnaður hjá stærri samvinnubúum í nágrannalöndunum, Danmörku, Svíþjóð og Noregi, væri hærri heldur en það gjald, sem Mjólkursamlag Kjalarnesþings krafðist að fá fyrir hreinsun á mjólkinni. Þó að það sé ekki sönnun fyrir því, hver sá raunverulegi kostnaður hafi verið hér, bendir það eindregið í þá átt, að hér hafi ekki verið um óeðlilega hátt gjald að ræða fyrir hreinsunina.

Það stóð svo í allmiklu þjarki milli hæstv. ráðh. og mjólkursölunefndar annarsvegar og stj. mjólkursamlagsins hinsvegar þangað til svo var komið að síðustu, að stj. mjólkursamlagsins með bréfi dags. 4. júlí 1936 tilkynnti þeim mjólkurframleiðendum, sem stóðu utan samtakanna, að frá þeim myndi ekki verða tekið lengur við mjólk til vinnslu frá og með deginum í dag að telja.

Þessu bréfi mjólkursamlagsins svaraði hæstv. ráðh. með því að setja bráðabirgðalög frá 8. júlí 1936, sem mæltu svo fyrir, að ríkisstj. væri heimilt að taka á leigu um ótiltekinn tíma, með eða án samþykkis eigenda, mjólkurvinnslustöð Mjólkursamlags Kjalarnesþings við Hringbraut í Reykjavík, ásamt lóðarréttindum og öllum mannvirkjum á lóðinni.

Ég hygg, að það sé óhætt að fullyrða, að þessi setning bráðabirgðalaganna frá 8. júlí sé algert einsdæmi í íslenzkri löggjöf. Ég er sannfærður um, að þó að leitað væri í gegnum alla íslenzka lagasetningu, þá fyndist aldrei hliðstætt dæmi við þessi bráðabirgðalög.

Hæstv. ráðh. er bæði það vel að sér og svo greindur maður, að honum hlýtur að vera það ljóst, a. m. k. eftir á, að hér er um ótvírætt brot á stjskr. að ræða. Eitt af skilyrðunum fyrir setningu bráðabirgðalaga er það, að almenningsheill krefjist þess, að slík l. séu sett. Getur nú nokkur skyni borinn maður látið sér detta í hug að halda því fram, að almenningsheill hefði krafizt þess, að þessi stöð yrði tekin leigunámi, þó að þessir um 20 mjólkurframleiðendur, sem stóðu utan samtakanna, hefðu þurft að greiða þann part úr eyri á hvern mjólkurlítra, sem ágreiningur var um? — Ég verð að segja, að mér finnst það undarlegt að sjá hæstv. ráðh. leggja slíkt kapp á mál eins og þetta, að hann skuli rjúfa þann eið, er hann hefir unnið að stjskr. sem embættismaður. Hitt er annað mál, að stjskr. er ekki virt mikils af ráðandi meiri hl. í þinginu. Það líður ekkert þing svo, að stjskr. sé ekki að meira eða minna leyti brotin. Ég held, að það væri sæmilegra fyrir þessa menn að afnema þessi margbrotnu ákvæði stjskr. heldur en að láta þau vera á pappírnum, en meta þau einskis í framkvæmdinni.

Áður en ég fer að ræða um frvgr. sjálfa, býst ég við að nauðsynlegt sé, að forsaga málsins komi fram, þannig að hv. þdm. geti gert sér grein fyrir, hverjar orsakir lágu til þess, að árekstur varð milli hæstv. ríkisstj. og Mjólkursamlags Kjalarnesþings, og ég held satt að segja, að flestir sanngjarnir menn hljóti að játa, að orsakirnar til þessa árekstrar hafi legið annarsstaðar en hjá stj. mjólkursamlagsins. Ég get ekki betur séð en að það hafi verið komið að öllu leyti sem sanngjarnast fram gagnvart þessum mönnum, sem utan við samtökin stóðu, en hitt verður ekki heimtað með nokkru réttlæti, að þessum utanfélagsmönnum væru veitt betri kjör en félagsmönnum sjálfum. Ástæðurnar, sem teknar eru fram í bráðabirgðal. fyrir töku mjólkurstöðvarinnar, eru tvær: annarsvegar er sú ástæða, sem ég hefi þegar greint frá, að mjólkursamlagið hafi neitað utanfélagsmönnum um hreinsun á mjólk þeirra; hin ástæðan er aftur sú, að mjólkurstöðin hafi ekki verið í því ástandi, að unnt væri að fullnægja ákvæðum mjólkursölulaganna um það, að senda góða og hreina mjólk á markaðinn. Um fyrra atriðið er það að segja, að synjun Mjólkursamlags Kjalarnesþings á því að taka mjólk til vinnslu í mjólkurstöð sinni var ekki skilyrðislaus. Mjólkurfélagið hafði hvað eftir annað tjáð sig fúst til að taka mjólk til hreinsunar gegn hreinsunargjaldi, og réttur hæstv. ráðh. til þess að leggja þessar kvaðir á mjólkursamlagið náði ekki lengra samkv. 7. gr. mjólkursölulaganna, því að það er ómögulegt að leggja annan skilning í þetta en þann, að endurgjaldið nemi a. m. k. kostnaðarverði, og náttúrlega má segja, að það væri sanngjarnt, að þeir, sem taka þetta verk að sér, hafi einhvern hagnað af því; það er ekki nema það, sem almennt er krafizt í slíkum viðskiptum. En hvað sem því líður, þá er hitt vafalaust, að heimild hæstv. ráðh. náði ekki lengra en að krefjast, að þetta yrði gert með kostnaðarverði, en það hafði mjólkursamlagið talið sig fúst til að gera. Það er því ómögulegt fyrir hæstv. ráðh. að verja þetta rán á mjólkurstöðinni, eins og það hefir verið kallað manna á milli, með því að halda því fram, að utanfélagsmönnum hafi verið gert ókleift að standa utan við samtökin, enda má á það minna, að hæstv. ráðh. hefir litið öðrum augum á þetta annarstaðar, þar sem mjólkurhreinsunarstöðvar hafa synjað utanfélagsmönnum um að taka á móti mjólk til vinnslu; það hefir átt sér stað víða, t. d. í Borgarnesi, og hæstv. ráðh. hefir litið þannig á, að ekki væri ástæða til að þvinga þau mjólkurbú til þess að taka á móti mjólk utanfélagsmanna, þó að þeir væru fúsir til að greiða fullt kostnaðarverð. Hér er því um mjög áberandi misrétti að ræða. Það er þess vegna augljóst, að þessi ástæða, sem minnzt er á í bráðabirgðal., er ekkert annað en tylliástæða.

Sem sönnunargagn fyrir réttmæti hinnar ástæðunnar, að hreinsunarstöðin hafi ekki uppfyllt þau skilyrði, sem sett eru til þess að flytja heilnæma neyzlumjólk á markaðinn, hefir verið bent á bréf frá manni, sem heitir Sigurður H. Pétursson, sem ég þekki ekki, en hefir, væntanlega eftir tilnefningu mjólkursölunefndar eða hæstv. ráðh., framkvæmt einhverskonar skoðun á mjólkurstöð Mjólkursamlags Kjalarnesþings. Það er tvennt, sem hann finnur að; annað er það, að kælitækin, sem áttu að koma í stöðina, hafi ekki fengizt, svo að kæling mjólkurinnar sé ófullnægjandi. Það hefir verið upplýst og stendur enn óhrakið, að mjólkursamlagið — og ég held Mjólkurfélag Reykjavíkur — hafði gert ráðstafanir til þess að fá aukin kælitæki í mjólkurstöðina, af því að hin gömlu kælitæki mjólkurfélagsins reyndust ófullnægjandi eftir að mjólkursölulögin voru sett, en af hálfu hæstv. ríkisstj. var ekki talin meiri þörf á því, að þessu skilyrði væri fullnægt, en það, að það gekk í mesta stímabraki með að fá gjaldeyrisleyfi til þess að tækin fengjust flutt inn. Hinsvegar var þetta leyfi fengið áður en bráðabirgðal. voru sett, og ég ætla, að kælitækin hafi verið komin hingað eða á leiðinni til landsins, þegar bráðabirgðal. voru sett, svo að þetta út af fyrir sig gat því ekki verið nein ástæða til þess að svipta eigendurna umráðarétti yfir stöðinni. Hæstv. ráðh. var kunnugt um, að búið var að gera ráðstafanir til þess að bæta úr þessum galla, og honum var kunnugt um, að það var ekki eigendanna sök, að ekki var búið að bæta úr þessu fyrir löngu, heldur var það sök hans sjálfs, má segja, eða flokksbróður hans, hæstv. fjmrh., að gjaldeyrisleyfi var ekki veitt löngu fyrr. Þessi ástæða getur ekki heldur verið annað en tylliástæða ein. Í sambandi við það, sem hv. frsm. sagði í gær og lagði töluvert mikið upp úr, að óforsvaranlegt væri að láta slíka stofnun annast mjólkursölu í bænum, sem vanrækti að hafa tæki sín í góðu lagi, má geta þess, að eftir að kælitækin komu til Reykjavíkur, liðu margir mánuðir þangað til þau voru sett upp; þau lágu 3–4 mánuði áður en farið var að nota þau, svo að það lítur ekki út fyrir, að hæstv. ráðh. hafi fundizt þetta svo aðkallandi.

Önnur aðfinnsla Sigurðar H. Péturssonar er sú, að síðustu 4–5 vikurnar hafi sér vitanlega ekki verið framkvæmd nein „reduktase“-prófun á mjólk, sem stöðin hafi tekið við.

Eftir því sem mér er sagt, er það orðum aukið hjá honum, að 4–5 vikur hafi liðið þannig, að þessi prófun hafi ekki farið fram, en það er satt, að hún féll niður að miklu eða öllu leyti nokkurn tíma, og ástæðan var sú, að áhöldin, sem notuð eru við þessa prófun á mjólkinni, höfðu gengið úr sér, og önnur ný voru pöntuð og komu hingað, en reyndust af annari tegund en hægt var að nota hér, svo að það varð að endursenda þau og fá ný í staðinn. Þetta tók tíma, og á meðan varð eitthvert hlé á þessari prófun. En kælitækin voru komin, þegar eignarnámið átti sér stað, og ég geri ráð fyrir, að hæstv. ráðh. hafi verið kunnugt um það, hann gat a. m. k. fengið upplýsingar um það, ef hann hefði kært sig um, en annars liggur það í augum uppi, að jafnvel þótt hér sé um einhverja vanrækslu að ræða af hálfu stj. mjólkursamlagsins, þá gat það ekki heimilað að svipta mjólkursamlagið umráðaréttinum yfir stöðinni. Hæstv. ráðh. hafði nóg tök á því með milligöngu mjólkursölunefndar að knýja mjólkursamlagið til þess að bæta úr ágöllum, sem kunna að hafa verið í þessu efni. Annars er ekki hægt að sjá, að um annað vítavert hafi verið að ræða hjá stjórn samlagsins en ef vera kynni, að það hafi ekki verið nógu fljótt brugðizt við því að fá endurnýjuð þessi tæki, sem þarf til prófunarinnar. Ég get ekki betur séð en að það sé augljóst mál, að þessar ástæður, sem upp eru gefnar bæði viðvíkjandi synjun mjólkursamlagsins um hreinsun á mjólk fyrir utanfélagsmenn og viðvíkjandi ólagi á tækjum samlagsins, séu hreinar tylliástæður, og ég held, að naumast nokkur maður láti sér detta í hug að trúa því, að þetta sé í raun og veru ástæðan fyrir því, að hæstv. ráðh. grípur til slíks úrræðis, sem hann hefir gert í þessu máli. Ég skal ekki fara að leiða getum að því, hverjar hinar raunverulegu ástæður hafa verið. Það er kunnugt, að í þessu efni hefir verið rekin einhverskonar hefndarpólitík á hendur Mjólkurfélagi Reykjavíkur og Mjólkursamlagi Kjalarnesþings, sem var arftaki þess, og ég hygg, að það liggi aðrar ástæður þar á bak við en umhyggja fyrir hagsmunum mjólkurframleiðenda í landinu, hvar sem þeir eru búsettir.

Hv. frsm. var að tala um það í gær, að ein ástæðan fyrir setningu bráðabirgðal., sem ekki er getið um í grg. og hann hlýtur því að hafa fengið einhverstaðar annarsstaðar, en ef ég hefi skilið hann rétt, þá var hún sú, að það hefði í raun og veru verið samningur milli stj. Mjólkursamlags Kjalarnesþings og hæstv. ríkisstj. um það, að mjólkursamlagið skyldi taka að sér að hreinsa mjólk fyrir utanfélagsmenn gegn því að fá greiddan mjólkurbúastyrk að fjárhæð 85000 kr. Ég hefi spurzt fyrir um þetta hjá stjórn mjólkursamlagsins og fengið afdráttarlaus svör um, að þetta sé með öllu tilhæfulaust. Ég fékk þau svör, að mjólkursamlagið hefði aldrei látið neinn bilbug á sér finna með það að krefjast þess að fá kostnaðarverð fyrir hreinsun á mjólkinni. Styrkurinn, sem útborgaður var, stóð ekki í neinu sambandi við þetta. Mjólkursamlag Kjalarnesþings hefir ekki enn fengið eins háan styrk til byggingar mjólkurstöðvar sinnar eins og öll önnur mjólkurbú á landinu hafa fengið. Það mun enn vanta einar 45000 kr. til þess að það hafi fengið sama styrk og hin mjólkurbúin hafa fengið, og þess vegna var greiðsla á þessum 85000 kr. ekki annað en greiðsla á gamalli innstæðu mjólkursamlagsins hjá ríkissjóði, sem það átti réttlætiskröfu á að fá, eins og önnur mjólkurbú. Það má vera, að eitthvað hafi rýmkazt til um að fá þessa greiðslu eftir að mjólkurstarfrækslan var skilin frá verzlunarrekstrinum, og það má ef til vill segja, að það hafi ekki verið með öllu óeðlilegt, þó að það orki tvímælis.

Ég þykist nú hafa sýnt fram á það með nokkrum rökum, að þær ástæður, sem upp eru gefnar fyrir leigunáminu á mjólkurstöðinni, eru ekki annað en tylliástæður. Ég vil sérstaklega út af ummælum hv. frsm., 1. þm. N.-M., í gær, sem lagði allmikla áherzlu á það, að ástand mjólkurstöðvarinnar hefði verið óviðunandi, lesa hér upp kafla úr bréfi, sem mjólkursamlagið hefir fengið frá mjólkurbúaráðunaut dönsku stjórnarinnar, Christian Ibsen, dags. 29. jan. þ. á., en þessi maður hafði fengið teikningar af mjólkurstöðinni og allar upplýsingar, sem varðaði fyrirkomulag hennar og vinnslumöguleika. Um möguleikana til þess að vinna góða vöru með þeim tækjum, sem þar eru, segir hann:

„Að því er varðar spurninguna um það, hvort mjólkurstöð yðar sé nú svo vélum búin, að hún geti talizt uppfylla kröfur nútímans í því efni, skal ég leyfa mér að geta þess, að þeirri spurningu hefir í raun og veru þegar verið svarað með því, að stækkun á mjólkurstöðinni til að geta tekið til meðferðar 16000 lítra mjólkur á dag, muni aðeins kosta ca. 12000 kr., en ég skal þó ennfremur taka það fram, að þegar mjólkurstöð hefir nýtízku vélar, eins og fötuþvottavél, Sabroes kælitæki, Stassanovél „Gloria“-tæki, strokka, Pindstoftes flöskuþvottavél, kassaþvottavél, tappavél og einangraða geyma til mjólkurgeymslu o. m. fl., mundum við hér í Danmörku hiklaust telja, að slík mjólkurstöð væri svo búin að vélum, að hún uppfyllti kröfur tímans í því efni, en þó mætti ef til vill bæta því við, að á síðari árum eru menn hér á landi farnir að kjósa þá aðferð að hreinsa bæjarmjólk í gegnum síu í staðinn fyrir með hreinsunarskilvindu.“

Þess má geta í þessu sambandi, að mjólkurstöð Mjólkursamlags Kjalarnesþings hefir fyrir löngu fengið þessa síu. Ég hygg, að álit þessa manns, sem er sennilega talinn með færustu mönnum Dana í þessum efnum, þar sem hann er mjólkurbúaráðunautur stjórnarinnar, muni vera fullt eins þungt á metunum eins og þessar aðfinnslur, sem fram eru færðar í bréfi Sigurðar H. Péturssonar, sem lítur út fyrir að séu pantaðar. (Forsrh.: Er þetta álit ekki pantað frá Danmörku?). Það er vitanlega pantað, en fyrir þennan mann voru lögð öll gögn, sem máli skipta, og hann gefur þessa umsögn á sína ábyrgð. (Forsrh.: Hver lagði fyrir hann gögnin?). Það hefir stjórn mjólkursamlagsins gert, en hún hefir ekki gert teikningarnar. Hann hefir séð teikningarnar og verið í sambandi við verkfræðinginn A. Hammer, sem teikningarnar gerði, og þess getur hann í byrjun bréfsins.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um málið. Það gefur að skilja af þeim rökum, sem ég tel mig hafa fært hér fram, hversu ástæðulaust það var af hæstv. stj. að grípa til þeirra úrræða, sem gert hefir verið, og ég mun því ekki greiða þessu máli atkv., heldur leggja til, að það verði fellt.