09.04.1937
Efri deild: 35. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í B-deild Alþingistíðinda. (422)

18. mál, leiga á mjólkurvinnslustöð

Einar Árnason:

Það var hv. 10. landsk., sem gaf mér tilefni til þess að beina til hans nokkrum spurningum. Hann drap á það, að mjólkursamlag Kaupfélags Eyfirðinga hefði neitað að gerilsneyða mjólk fyrir aðra en félagsmenn. (ÞBr: Ég sagði, að hér væri maður, sem gæti leiðrétt það, ef það væri ekki rétt). Út af því vil ég spyrja hv. þm., hvaðan hann hefir það, að mjólkursamlag K.E.A. hafi neitað að gerilsneyða fyrir utanfélagsmenn, og ennfremur hvaða menn hafi beðið samlagið að gerilsneyða fyrir sig.

Ég vil líka út af þeim samanburði, sem hv. þm. gerði á tækjum mjólkurstöðvarinnar hér og mjólkurstöðvar K.E.A., spyrja hann um, hvort honum sé ekki kunnugt um, að það gilda ekki sömu reglur á Akureyri um sölu mjólkur eins og í Reykjavík. Hv. þm. hlýtur að vera kunnugt, að á Akureyri má hver sem vill selja óhreinsaða og ógerilsneydda mjólk, og þá hlýtur hann að sjá, hvílík fjarstæða samanburður hans er á því að taka leigunámi mjólkurstöðina í Reykjavík og mjólkurstöðina á Akureyri. Þá vil ég út af því, sem hv. þm. talaði um, að einn bóndi hefði sagt sér frá, hvaða verð hann fengi fyrir mjólkina og það bæri ekki saman við það, sem hæstv. forsrh. hefði sagt, spyrja hann að því, við hvað hann miðaði, þegar hann segir frá, hvað einstakir bændur fái fyrir mjólkurlítra. Ennfremur hvort það er svo hér, að allir bændur fái jafnt fyrir mjólkurlítrann, hvort sem mjólkin er góð eða vond, feit eða mögur, hrein eða óhrein. Ég þekki svo mikið til mjólkurmeðferðar, að ég veit, að það er gerður mjög mikill munur á þessu. Á Akureyri er gerður mikill munur á mjólkinni frá samlagsmönnum, eftir því hvort hún er hrein eða óhrein, og jafnvel send til baka, ef hún nær ekki vissu hreinleikastigi. En verðlag mjólkurinnar er miðað við fitumagn hennar, þannig að viss auratala er greidd fyrir hverja fitueiningu. Það er því vitað, að félagsmenn í K.E.A. fá ákaflega misjafnt verð fyrir sína mjólk. Þess vegna getur hv. þm. talað við mann, sem fær 15 aura fyrir lítra, og hann getur talað við annan, sem fær 20 aura. Það er því ákaflega villandi að tala við mann, sem hefir lélega mjólk, og miða verðlagið við það, sem hann fær fyrir sína mjólk. Ég vildi, af því að hv. þm. var að gefa upplýsingar um þetta, vænta þess, að hann léti fylgja, hvernig hann reiknar út verðlag á mjólk hér yfir höfuð. Mér finnst það skipta talsverðu máli, og mér finnst það undarlegt að hafa þá aðferð, að allir fái jafnt fyrir sína mjólk, hvort sem hún er góð eða vond. Þegar hjá okkur Eyfirðingum er talað um mjólkurverð, er tekið meðaltal af fitumagni mjólkurinnar og verðið miðað við það, þegar sagt er, að mjólkurframleiðendur fái þetta verð, en þar með er ekki sagt, að hver maður fái þetta verð; sumir fá meira og aðrir minna. Ég tel þess vegna, að ekkert sé að marka þennan samanburð hjá hv. þm.

Ég skal upplýsa út af fyrstu spurningunni, sem ég beindi til hv. þm., að mér er ekki kunnugt um að dæmi, að mjólkursamlag K.E.A. hafi nokkurntíma neitað að gerilsneyða mjólk, og mér er ekki heldur kunnugt um, að nokkur utanfélagsmaður hafi beðið samlagið um að gerilsneyða mjólk.