23.03.1937
Neðri deild: 25. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (501)

86. mál, alþýðutryggingar

Garðar Þorsteinsson:

Út af því, sem hv. 1. landsk. sagði, að það hefði upphaflega ekki verið meiningin, að þetta mál færi til n., þá fæ ég ekki séð, að það skipti neinu máli. Það er d., sem á að ákveða þetta, þó að hæstv. atvmrh. óski þess, að málið gangi áfram, og verður hann vitanlega að taka afleiðingunum af samþykki hennar.

Í öðru lagi sagði hv. 1. landsk., að þetta væri mjög einfalt mál. Það er hreinasti misskilningur. Ég vil benda á það, að með mínu nál., sem nú er verið að prenta, eru fjögur fylgiskjöl, sem eru umsóknir og bréf starfsfólksins við símann hér, í Vestmannaeyjum, á Akureyri og Siglufirði, þar sem rök eru færð fyrir því, að það eigi að fella þetta frv. Ég get skýrt hv. 1. landsk. frá því, að það er misskilningur, að ég ætli að koma fram með brtt. Mín till. er um að fella þetta mál. Og ég verð að segja það, að ég veit ekki, til hvers nál. eru, ef ekki á að hafa þá venju að bíða eftir þeim, þegar búið er að samþ., að málið skuli athugast í n. — Ég veit, að hæstv. forseti gefur mér rétt í því, að ég hefi ekki dregið mikið starf mitt í n., því ég skilaði nál. mínu ásamt fylgiskjölum til birtingar fyrir klukkan 10 í morgun. — En hvað því viðvíkur, sem hv. 1. landsk. sagði um afstöðu hinna nm., þá dreg ég hans orð í efa, því ég veit ekki betur en að hv. þm. Snæf. hafi óbundið atkv. í þessu máli. Hann hefir lýst því yfir, að hann mundi skrifa undir nál. með fyrirvara. — En sem sagt, ég vonast til, að hæstv. forseti fallist á mál mitt, því ég fer ekki fram á annað en að þetta frv. fái þinglega meðferð.