04.03.1937
Efri deild: 14. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

12. mál, skipsstjóraréttindi til handa Pétri Sigurðssyni

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Allshn. hefir athugað þetta frv. og er sammála um að mæla með því með þeirri breyt., sem sjá má á þskj. 56. M. ö. o., n. er samþykk frv. að efni til, en telur réttara, að það komi nokkuð skýrar fram, hvað í frv. felst. Það hefir verið skoðun sumra manna, að eins og frv. er frá hendi hæstv. ríkisstj., mætti skilja það svo, að viðkomandi maður gæti öðlazt þá þegar stýrimannsréttindi, en það er alls ekki meiningin, og þess vegna breytir nú n. orðalagi fyrri gr. eins og sjá má á þskj. 56. Aðalatriðið í þessu er það, að Pétur Sigurðsson, sem þegar hefir tekið próf við danskan skóla í siglingafræði og öðru, sem sjóliðsforingjaefni læra, hyggst nú að starfa hér heima, sumpart á skipum eða að öðrum störfum í landi, sem þekking hans nær til. En hitt er ljóst, að þótt hann hafi þetta danska próf, þá verður hann að fylgja íslenzkum lögum um þau efni, að vinna sér upp þá æfingu, sem krafizt er, þ. e. a. s. sigla sem stýrimaður um ákveðinn tíma, eins og l. um atvinnu við siglingar mæla fyrir, og þá fyrst geti hann öðlazt skipstjóraréttindi. Þetta frv. fer því fram á það eitt, að þetta próf hans, sem vitanlega er miklu fyllra en próf það, sem stýrimannaskólinn veitir, sé tekið því prófi jafngilt.

Ég hefi f. h. n. átt tal við hæstv. ráðh., sem ber þetta mál fram, og er hann í alla staði þessari orðabreyt. samþykkur, enda hygg ég, að um hana þurfi enginn styr að standa: Hv. 1. þm. Skagf. hefir að vísu skrifað undir nál. með fyrirvara, en ég hygg, að sá fyrirvari hljóði ekki um efni frv., heldur um annað, sem hann að sjálfsögðu mun gera grein fyrir.