15.03.1937
Efri deild: 19. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í B-deild Alþingistíðinda. (598)

60. mál, læknishéruð

*Magnús Jónsson:

Ég get búizt við, að sú stefna, sem mörkuð er í frv. þessu og nú þegar hefir verið tekin upp hér í Reykjavík, verði almennt látin ná út yfir alla kaupstaði landsins, því að það virðist engin ástæða til, þar sem margir læknar eru á sama stað, að tryggja héraðinu einn ákveðinn lækni.

Hvað frv. sjálft snertir, þá virðist mér gæta dálítils ósamræmis milli 1. og 2. gr. þess. Í 1. gr. er gert ráð fyrir, að læknar þeir, sem koma til með að skipa þessi embætti, megi að einhverju leyti stunda almennar lækningar. En í 2. gr. eru launin alveg fastákveðin. Eftir orðalagi 1. gr. hefði mér því fundizt ástæða til að hafa launaákvæðin eitthvað hreyfanleg, og það því fremur, þar sem engin trygging er í frv. fyrir því, að aukastörf þau, sem nefnd hafa verið í sambandi við þessi embætti, verði látin fylgja þeim.

Þá er það nýmæli, að í frv. er gert ráð fyrir að færa nokkurn hluta kostnaðarins við þessi embætti af ríkissjóði yfir á kaupstaðina. Á ég þar við ákvæði 2. gr., þar sem svo er til tekið, að kaupstaðirnir eigi að sjá héraðslækni fyrir skrifstofu og láta honum einnig í té aðstoð við skrifstofuhaldið. Þetta finnst mér mjög geta orkað tvímælis, og vil ég því skjóta því til hv. allshn., að hún athugi vel, hvort ástæða sé til þess að halda þessu ákvæði.