24.03.1937
Efri deild: 27. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (628)

95. mál, samvinnufélög

Flm. (Einar Árnason):

Ég sé ekki ástæðu til annars en taka vel í það, sem hv. 2. þm. Rang. talar um stofnsjóði samvinnufélaganna í þessu sambandi. Ég sé ekki annað en það sé sjálfsagt að gera þær endurbætur í þessu efni, sem nauðsynlegar kunna að sýnast, ef ekki þykir nógu greinilega frá þessu gengið í samvinnulögunum og þessu frv. Að vísu eru hér í 10. gr. frv. allgreinileg ákvæði um þetta atriði, sem hv. þm. talaði um, en það má vel vera, að það þurfi nánari skýringa við heldur en þar eru. Ég býst við, að hv. n. muni vilja taka þetta til athugunar, þegar hún athugar frv., og þá skal ég gjarnan tala við hana um þau atriði, sem hún telur þörf á að taka upp í þetta frv., og þær breytingar, sem hún kann að vilja á því gera. En ég vildi mega mælast til þess við hv. n., að hún gefi sér tíma til þess að taka þetta mál fyrir svo fljótt sem hún getur, því ég tel frv. svo mikilsvert, að það væri æskilegt, að það gæti orðið að lögum á þessu þingi.