19.03.1937
Neðri deild: 22. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í B-deild Alþingistíðinda. (669)

41. mál, verkfræðingar, húsameistarar eða iðnfræðingar

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Það er í rauninni ekki sérlega eðlilegt, að menn þurfi hér á þingi að deila um rétt manna til eða frá, ef á annað borð eru önnur atvik, sem skýra þennan rétt af sjálfu sér. Ég fyrir mitt leyti, sem ekki hafði búizt við, að slíkt frv. sem þetta kæmi fram á þessu þingi, tel ekki, að með frv., eins og það er, sé gengið á neinn rétt, sem menn hafa í lífinu eða sinni atvinnugrein nú eins og stendur. Ég hefi ekki getað tekið eftir því, að í frv. væri hallað sérstaklega á neinar atvinnugreinir. Að vísu verð ég að segja, að almenningur mundi kannske kunna betri skil á þeim mönnum, ef réttur þeirra væri ákveðinn, þeirra sérgreinaheiti, en samt hygg ég, að almenningur muni vita, hverjir stunda þessa atvinnu og hverjir hafa getið sér álit, og ég býst við, að almenningur farið frekar eftir því en hinu, hvað þessir menn kalla sig. Ég get ímyndað mér, að hér væri verið að deila um skerðingu á atvinnuréttindum, sem kynnu að hafa staðið í sambandi við þessi sérfræðinöfn, helzt að því er snertir byggingameistarana, sem ef til vill hafa kallað sig „arkitekta“, en nú mega það ekki, ef þeir uppfylla ekki lærdómsskilyrðin. — Nú hefi ég verið að aðgæta, hvað þessir menn kalla sig, og hefi ekki fundið aðra betri heimild til þess en símaskrána. Hún mun vera gerð eftir því, sem menn vilja sjálfir kalla sig. Hún segir engan kalla sig húsameistara af þessum mönnum, sem deilt er um. Þeir eru vissulega jafngóðir og í jafnmiklu áliti fyrir því. Þeir kalla sig byggingameistara og einnig byggingafræðinga og jafnvel húsagerðarmenn. Ég held, að húsameistaranafnið hafi ekki orðið fast við neinn mann nema húsameistara ríkisins. Sé ég því ekki, að þar verði gengið á rétt nokkurs manns. Nú vil ég ekki heldur láta skilja orð mín svo, að ég vilji ekki láta þá hafa sinn fulla rétt eftir sem áður, sem hafa þessa kunnáttu, en ég sé ekki, að þeir hafi krafizt þess sjálfir eða farið fram á það, að þeir séu nefndir þeim nöfnum, sem talað er um í gr. um húsameistara. Það er eins og hafi orðið eitthvert uppþot meðal þessara manna, og þeir hafi borið sig upp við n. Má ráða það af því, að minni hl. kom fram með þessa brtt.

Þótt ég telji það saklaust, að fallast á 6 ára takmörkunina í stað 10 ára, þá sé ég ekki, að það hafi mikið að segja, að breyta henni í 6 ár, ef menn á annað borð óska eftir að kalla sig þessu nafni, en það hafa þeir ekki áður farið fram á að fá leyfi til að gera. Vilji þeir kalla sig þetta, vil ég, að þeir fái að gera það samkv. lögum. En takmörkunin gildir ekki fyrir aðra en þá, sem hafa haft þetta starf með höndum undanfarið, en verður ekkert framtíðarskilyrði fyrir þá, sem koma síðar. En þegar svo er, þá er það rétt, sem mér var bent á af einum hv. þdm., að það er ekki vel eðlilegt í frv. og heldur ekki í brtt., að taka þessar fáu undantekningar, þessa menn, sem fengizt hafa við byggingar undanfarið, inn í lögin, því að þau eru til frambúðar. Það ætti því að vera bráðabirgðaákvæði um þetta í lögunum gagnvart þessum mönnum. Svo fellur bráðabirgðaákvæðið burt, þegar því er fullnægt, en eftir standa lögin. Till. hv. minni hl. get ég ekki samþykkt eins og þær eru orðaðar. Þar eru fyrst og fremst strangari en frv. Í frv. segir: „... og hafi auk þess fengið meðmæli stéttarfélags verkfræðinga hér á landi til þess, að honum verði veitt leyfi þetta.“ Þar sem frv. segir: „.. eigi skemur en 10 ár“, segir brtt. hv. minni hl. „6 ár“. Frv. segir, að menn, sem unnið hafa þessi störf í 10 ár, eigi sama rétt til að kalla sig þetta. Í frv. er þess ekki krafizt, að menn hafi stundað nám, svo að þeir megi nefna sig húsameistara eða hvaða nöfn það nú eru, sem um er að gera. Nú geta það verið margir menn, sem vilja kalla sig húsameistara eða „arkitekta“, þótt þeir hafi ekki stundað nám það lengi, að þeir geti kallazt fullnuma, og uppfylli ekki skilyrðin að því leyti. En margir af þeim mönnum, sem hér fást við byggingar, munu ekki hafa stundað reglulegt nám, heldur kynnt sér eitthvað í teiknifræði, en ekki beint stundað nám í byggingarfræði. Það getur verið, að þeir menn, sem hv. minni hl. er að bera fyrir brjóstinu, komist ekki allir að, ef þessir menn fá sömu réttindi, en ég felli mig ekki við orðalag brtt. í þessu tilliti. Vildi ég því mælast til þess við hv. minni hl. og hv. meiri hl., að þeir gerðu tilraun til að umskapa till. sínar svo, að þeir komist að annari og betri niðurstöðu og geti þar mætzt á miðri leið. Vil ég benda hv. nm. á, hvort ekki væri bezt að sameinast um það, sem stendur í 2. lið 2. og 4. gr. frv. Í nál. er lögð áherzla á það, að úrskurður um réttindi manna tilheyri stéttarfélögunum og að aðrir eigi ekki að komast að en þeir, sem þau samþykkja. Ráðh. mundi að vísu vera bundinn við það, að veita þeim réttindi, sem bezt meðmæli hefir, og að fengnum tillögum sérfræðings. Vil ég beina því til hv. þdm., og þó sérstaklega hv. nm., hvort þeim lízt ekki svo sem það mundi verða eins áreiðanlegur úrskurður, sem ráðherra mundi gefa — en hann er hlutlaus maður og mun ekki vera grunaður um græsku, hver sem hann kann að vera — eins og sá, sem stéttarfélög gefa. Ég vona, að hv. þdm., og þá sérstaklega hv. nm., sjái, að hér er um atriði að ræða, sem þarf að ganga vel frá, en reyndar er það ekki svo mikið, sem um er barizt.