08.04.1937
Efri deild: 34. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í B-deild Alþingistíðinda. (693)

116. mál, jarðræktarlög

*Jón Baldvinsson:

Hæstv. forsrh. fór mörgum fögrum orðum um þær breytingar til bóta á jarðræktarlögunum, er fælust í frv. á þskj. 165. Ég hefi bent á gallana á þessu frv., en hæstv. ráðh. vill ekki viðurkenna, að aths. mínar hafi við rök að styðjast. Ég get þó ekki betur séð en það sé hlægilegt réttlæti í því, að stjórn Búnaðarfél. Ísl. skuli eiga að ákveða þau dýrmætu réttindi einstaklinga í félaginu, sem er atkvæðisréttur þeirra. (MG: Það er búnaðarþing, sem á að ákveða þann rétt). Það er hvergi sagt. Af frv. verður ekki annað séð en að stj. eigi að gera það. Það getur vel verið, að þetta sé rétt hjá hv. 1. þm. Skagf., en hvernig á þá að fara með þennan atkvæðisrétt til bráðabirgða? Mér skilst, að búnaðarþing eigi að koma saman á næsta sumri, og hver ákveður þá um kosningarrétt þeirra, sem í kaupstöðum og kauptúnum búa og hafa atvinnu af landbúnaði? Ég sé ekki betur en farið sé mjög varlega í það að ákveða rétt þessara manna í D-lið 8. gr. í lögum Búnaðarfél. Ísl. Meðferðin á þeim er svo hrakleg sem hugsast getur, þar sem fáum mönnum er falið að ákveða atkvæðisrétt þessara manna, sem kannske reka mikið stórfelldari búskap heldur en bændur á rytjukotum til fjalla, sem hafa kannske 20 til 30 kindur og eina kú. Þeir, sem í kaupstöðum og kauptúnum stunda búskap, geta aftur á móti verið menn, sem standa fyrir nýjungum í búnaði og ræktun, og oft og tíðum hafa með höndum mikið stórfelldari framleiðslu og framkvæmdir heldur en smábændur inni til afdala, en þeir jafnast ekki á við smábændurna með atkvæðisrétt. Ég get ekki betur séð en að mjög hraklega sé með þessa menn farið. Hæstv. forsrh. sagði, að mjög mikill góðvilji til þessara manna ríkti á búnaðarþingi. Það er náttúrlega gott og blessað, en það verður ekki út skafið, að nú sem stendur hafa þeir engan rétt. Það kvað eiga að gefa þennan rétt, gefa þeim einskonar stjórnarskrá, eins og konungur gaf okkur Íslendingum 1874. Það var ekki vilji landsmanna, sem speglaðist í þeirri stjórnarskrá; þeir höfðu þá, alveg eins og í þessu tilfelli, engin áhrif, engan rétt til að krefjast neins, heldur urðu Íslendingar þá að taka því, sem að þeim var rétt, hvernig sem það var.

Það er vitanlega rétt, að Alþingi hefir í hendi sér að ákveða þá fjárhæð, sem fer árlega til Búnaðarfél. Ísl., en mér skilst, að sá fjárstyrkur þyki mjög nauðsynlegur. (Forsrh.: Það má taka umboðið af félaginu). Það er að vísu satt, en ég skil ekki í öðru en að þá sé í óefni komið, ef eftirlit og ábyrgð Alþingis með þessari stofnun er svo lítil, að nauðsyn beri til að nota það örþrifaráð.