08.04.1937
Efri deild: 34. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (694)

116. mál, jarðræktarlög

Magnús Guðmundsson:

Það er ekki ætlun mín að fara að deila um þetta mál, en út af ummælum hv. 4. landsk. um, að jarðræktarmenn í kaupstöðum og kauptúnum væru órétti beittir í lögum Búnaðarfél. Ísl., vil ég upplýsa, að það er misskilningur hjá hv. þm., ef hann heldur, að það sé stjórn Búnaðarfél., sem á að setja reglugerð um kosningarrétt þessara manna. Það stendur í 8. gr., að framkvæmd kosningar til búnaðarþings fari eftir reglugerð, „er búnaðarþing setur“. Vegna þess, að á næsta sumri er gert ráð fyrir, að það verði stutt búnaðarþing, í tilefni af 100 ára afmæli Búnaðarfélags Íslands, var á nýafstöðnu búnaðarþingi kosin n. til þess að gera frv. að reglugerð um kosningarrétt þessara manna og fleira, er snertir kosningu til búnaðarþings. Á svo búnaðarþingið að taka þá reglugerð til meðferðar á aukafundi nú í sumar. Ég verð að segja það, að rétti þessara manna hefir sannarlega ekki verið spillt frá því, sem er í gildandi jarðræktarlögum. Þann rétt, sem þau lög veittu þeim, er jarðrækt stunda í kaupstöðum og kauptúnum, var hægt að misnota mjög, og held ég, að allir séu um það sammála nú. Ef hv. 4. landsk. hefir verið með við að búa þær reglur til, þá hefir honum þar mjög mistekizt, og ég er sannfærður um, að búnaðarþingi tekst þar miklu betur. Viðvíkjandi vali búnaðarmálastjórans, þá er um það mál alkunnur ágreiningur. Búnaðarþing vill, að Búnaðarfél. Ísl. sé sjálfstæð stofnun, en hv. 4. landsk. vill, að það verði skrifstofa í stjórnarráðinu. Eins og stendur er það búnaðarþing, sem hefir sigrað í deilunni, og það er það, sem hefir stungið hv. 4, landsk. svo ónotalega sem raun ber vitni, af því hann óskar, að búnaðarþing hafi ekki framvegis sömu völd og það hefir haft.