12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (723)

116. mál, jarðræktarlög

*Emil Jónsson:

Ég ætla ekki að hafa um þetta mörg orð. Ég gekk út frá því, að hv. d. mundi vísa málinu til n., sérstaklega með tilliti til þess, að málið hafði hvergi í n. komið, nema í þá n., sem sett var til þess að sætta Framsfl. og íhaldið. Um þetta mál mega bersýnilega ekki aðrir fjalla.

Það er sýnilega tilgangslaust að lemja höfðinu við steininn um þetta mál, þar sem hv. d. hefir tekið þá ákvörðun að hleypa því ekki í n., hvað þá hrófla nokkuð við því.

Mér þykir það gegna furðu, að nokkur hv. þdm., sem eru fulltrúar fyrir kaupstaðarbúa eða aðra, sem fást við jarðrækt í smáum stíl, skuli sætta sig við, að réttur þessara umbjóðenda sinna skuli verða ákveðinn með reglugerð. Maður veit ekkert, hvort þeir fá að segja nokkuð eða ekki neitt, heldur eingöngu, að þeirra réttur verði ákveðinn, með reglugerð. Ég þekki ekkert hliðstætt þessu, og ég hygg, að þetta sé alveg dæmalaust ákvæði um kosningarrétt. Og þessu kingja sjálfstæðismenn, sem eru umbjóðendur manna, sem ræktun hafa í smáum stíl og heyra undir þetta ákvæði. Ég undrast yfir því, að það megi ekki athuga málið í n., til þess að reyna að finna möguleika til að ákveða, hvernig réttur þessara manna, skuli vera til kosninganna. Þó ekki væri nema að n. athugaði málið hálftíma eða klukkutíma, mætti sennilega setja skynsamlegri ákvæði í 1. um rétt þessara manna en orðið er.

Ég hefi heyrt, að það hafi komið til mála að setja skilyrði fyrir þessum kosningarrétti kaupstaðabúanna þannig, að þeir fengju kosningarrétt eftir því, hve mikil kúaeign þeirra væri. Ég veit, að rætt hefir verið um þetta á búnaðarþingi. Ef þessi leið væri farin, yrði það öruggasta ráðið til þess að útiloka þá alveg frá þessum kosningarrétti, því að margir þeirra rækta í smáum stíl, sem ekki er í sambandi við nautgripaeign.

Þá var hv. þm. Borgf. eitthvað að tala um það, að það væri ljóst, hvernig hugur sósíalista væri stemmdur í þessu máli. Það er rétt, að við förum ekkert leynt með það, að við höfum sömu skoðun enn sem fyrr, að eðlilegast sé og réttast, að ríkisstj. hafi einhverja íhlutun um framkvæmd þeirra mála, sem Búnaðarfél. Ísl. fer með í umboði ríkisvaldsins. En nú er búið að ganga inn á það sjónarmið, sem Framsfl. var á móti í fyrra, að Búnaðarfél. Ísl. megi fara með stjórn þessara deilumála án beinnar íhlutunar frá Alþ. eða ríkisstj. Þó það að vísu hafi verið sagt af hv. 2. þm. N.-M., að landbrh. færi með stj. þessara mála, þá hefir hann með því að afhenda þessi mál skilyrðislaust í hendur þessa félagsskapar afsalað þessum réttindum úr sínum höndum. Það er líka í beinu samræmi við þá stefnu, sem komið hefir fram hjá Bændafl. og Sjálfstfl. í þessu máli. Ég skil vel, að þeir flokkar uni vel þessum málalokum. En ég skil ekki, að Framsfl. skuli geta það.

Ég held, að ef ekki hefði þurft endilega að afgreiða þetta mál í dag, þá hefði ég komið með brtt. við frv. um kosningarrétt fyrir kaupstaðarbúa, sem jarðrækt stunda, þar sem hann væri að einhverju leyti tryggður. En það er sýnilega ekki hægt, þar sem nú að á keyra málið í gegn í fússi. Það er sýnilega þýðingarlaust að berja höfðinu við steininn í þessu efni, þar sem búið er að ákveða þetta atriði málsins.