15.04.1937
Neðri deild: 39. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

65. mál, héraðsskólar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti Ég heyrði því miður ekki alla ræðu hv. 9. landsk., sem mér er sagt, að hafi verið að svara mér. Ég heyrði, að hv. þm. hefir ekki nema að einhverju litlu leyti heyrt þann samanburð, sem ég gerði milli Varmahlíðar og Reykhóla, og ég heyrði, að þessi samanburður hefði gengið honum yfir höfuð, svo að hann varð hálfruglaður og vissi ekki, hvað hann átti að segja við honum. Hann fór að útskýra, að bráðum væru Reykhólar í þjóðbraut og hægt yrði að komast þangað í bíl.

Ætli ferðamannaskýlið við Hvítárvatn liggi ekki í þjóðbraut, af því að það er hægt að komast þangað í bíl? Og hvar ætli sú þjóðbraut endi, þegar komið er við á Reykhólum? Hún endar kannske úti á Stað. Lengra kemst þjóðbrautin sú ekki. Nú er það svo mikils virði fyrir hann að koma Reykhólum í þjóðbraut, til þess að geta sýnt, að þeim sé vel í sveit komið, en rétt þegar hann er að enda við að reyna að færa sönnur á, að Reykhólar verði í þjóðbraut og mögulegt verði að komast í bil þangað, þá fer hann að reyna að gera grín að því, að Varmahlíð liggi á krossgötum, sem ég tel mikils virði, og gerir lítið úr því, að það hafi nokkra þýðingu, að staðnum sé vel í sveit komið, þó að hann rétt áður væri búinn að eyða tíma í að útskýra, að það hefði mikla þýðingu, að Reykhólar kæmu bráðum í þjóðbraut, af því að það yrði á næstu árum hægt að komast þangað í bíl. Þetta er samræmið hjá hv. þm. — Þá fór hv. þm. að tala um, að ég hefði verið að halda fram mannvirkjum í Varmahlíð. Ég minntist ekki á nein mannvirki í Varmahlíð. Ég benti á, að það væri misjafnt háttað eignaumráðum yfir þessum tveimur stöðum; ríkið ætti annan, en hinn ætti dánarbú, og þar væri allt í niðurníðslu. Ég minntist ekki á mannvirki í Varmahlíð, því að ríkið á ekki þau mannvirki, sem þar eru, heldur eru þau eign einstakra manna og standa ekki á því landi, sem ríkið á.

Þá talaði hv. þm. um, að það ætti að bæta nýjum skóla við þar, sem fimm skólar væru fyrir, en aftur á móti væru ekki nema tveir í Vestfirðingafjórðungi. Sannleikurinn er sá, að í Norðlendingafjóðungi eru ekki nema tveir héraðsskólar, svo að þessir skólar eru jafnmargir í báðum þessum landsfjórðungum. En hvernig hagar nú til í þessum landsfjórðungum. Það eru meira en helmingi fleiri íbúar í Norðlendingafjórðungi heldur en í Vestfirðingafjórðungi. Hvort er þá réttara að láta þann landsfjórðunginn, sem nú hefir tvo skóla og helmingi meiri þörf, miðað við bændafjölda, fá þann þriðja, eða hinn, sem hefir tvo skóla, en helmingi færri bændur? Þetta vil ég biðja hv. 9. landsk. að athuga. Ef hann setur upp gleraugu, sem gefa honum dálítið meiri fjarsýni, svo að hann sjái út fyrir Barðastrandarsýslu, þá mun hann sjá, að samanburður minn á þessum tveimur stöðum er í alla staði hárréttur, svo að það er þýðingarlaust að deila um það, að Varmahlíð stendur miklu framar sem skólasetur en Reykhólar, enda hygg ég, að hver maður með meðalgreind geti skilið rétta, svo framarlega sem hann er ekki starblindur af þröngsýni.