02.04.1937
Efri deild: 30. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

19. mál, sparisjóðurinn Gullfoss

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Allshn. hefir orðið sammála um að leggja til, að þetta frv. verði samþ., en hún hefir einnig orðið sammála um að flytja við það nokkrar breytingar, sem eins og sést á nál., eru að mestu leyti aðeins orðabreytingar.

Brtt. eru á þskj. 142, og er 1. brtt. við 2. gr. frv. Þar er lagt til, að fyrri málsgr. frvgr. verði orðuð um, og þykir n. betra orðalagið, sem hún leggur til, að tekið verði upp. Sérstaklega er það eitt akriði í þessari málsgr. frv., sem n. telur óþarft og enda eigi ekki við, að standi í 2. gr. Þar er svo fyrir mælt, að þess skuli gætt, að allir innstæðueigendur skuli þola jafnan hundraðshluta til niðurfærslu á innstæðum sínum, og greiðslur til þeirra verði hlutfallslega jafnar. N. lítur svo á, að við fyrstu greiðslu komi ekki til athugunar niðurfærsla, og það sé bara skipt því fé, sem fyrir hendi er, í réttu hlutfalli við innstæðufé eigenda. N. lítur þannig á, að niðurfærslur við sjóðinn komi ekki til fyrr en við lokaskipti þess fjár, sem innheimt er, og er vikið að því í brtt. við 4. gr.

Við höfum einnig orðað um 2. málsgr. 2. gr., en henni er ekki breytt að öðru en því, að inn í er skotið orðunum „gagnvart sjóðnum“. Þessi málsgr. hljóðar þannig í frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Réttur eigandi sparisjóðsbókar er sá, sem samkv. bókum sjóðsins er talinn eigandi hennar 15. nóv. 1934“.

N. leit þannig á, að þetta ákvæði væri nauðsynlegt, en ætti ekki að hafa nein áhrif á lagaleg eigendaskipti á sparisjóðsbókum, heldur ættu þau að vera til þess að tryggja, að ekki yrði misnotuð eignarheimild á sparisjóðsbókum til skuldajöfnunar við sjóðinn. Þess vegna taldi n. rétt að bæta inn í orðunum „gagnvart sjóðnum“. Það breytir ekki að neinu leyti eignarheimildum á sparisjóðsbókum, en nær sínum fulla tilgangi með því, að ekki er hægt að nota innieignirnar til skuldajöfnunar.

Þá er brtt. við 1. gr. Er hún til samræmis við umorðunina á 2. gr. Þó er síðasta málsgr. ný, þannig lagað, að slíkt ákvæði er ekki til í frv. Þar er lagt til, að sett sé inn í frv., að kostnað við skuldaskil sjóðsins greiði hann eftir reikningi, sem skiptaráðandi Árnessýslu úrskurðar. N. leit þannig á, að rétt væri, að fram kæmi í frv., hvernig kostnaðurinn við skuldaskil skyldi greiðast. Það leiðir af sjálfu sér, að hann á að greiðast af fé sjóðsins.

Ég býst ekki við, að þessar brtt. valdi neinum ágreiningi, því að þær eru ekki efnisbreyting að öðru en því, sem ég hefi tekið fram. Vænti ég því, að hv. d. geti gengið að þeim, því að þær eru að áliti n. allar til bóta.