22.02.1937
Neðri deild: 7. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í B-deild Alþingistíðinda. (820)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Pétur Ottesen:

Hv. þm. Ísaf. þótti hv. 1. þm. Rang. nógu góður til þess að reyna að nota hann til þess að þvo af stj. það ámæli, sem hún hefir fengið af sinnuleysi á því að kynna sér í tæka tíð þær hreyfingar í nágrannalöndum vorum, sem fram hafa komið um friðun fiskveiða eða útfærslu landhelginnar, til þessa er hv. þm. Rang. nógu góður, enda þótt hv. þm. Ísaf. í öðrum tilfellum vilji reyna að troða skóinn niður af honum, eins og lítilmennska hans getur á orkað. Fyrst hv. þm. Ísaf. fór að vekja máls á þessu að fyrra bragði, þá má geta þess, að eftir að Alþ. hafði afgr. till. um líkt mál, og jafnvel þótt slíkt hefði ekki komið til, þá var það vitanlega óforsvaranlegt sinnuleysi af hálfu ríkisstj. að láta ekki sendiherra sinn í Danmörku vaka yfir hverri hreyfingu í þessa átt. Þess er vitanlega ekki að vænta, að hv. þm. Ísaf. hafi haft manndóm til þess að hafa opið auga fyrir slíku þjóðþrifamáli sem þessu.

Mér finnst engin ástæða til að fara frekar út í ræðu hv. þm. Hann var að tyggja hér upp það, sem hv. 1. þm. Rang. hafði reynt að færa þessu tiltæki til málsbóta; það, sem frá hv. þm. Ísaf. kom, var ekki annað en mjólkurbland, sem var útálát á það, sem hv. 1. þm. Rang. hafði borið á borð fyrir okkur, en ég vil bara segja það í sambandi við alla þá drýldni og gort, sem alltaf er á vörum hv. þm. Ísaf. í hverju máli, að mér dettur í hug saga, sem að vísu er nokkuð gömul, en hún heldur gildi sínu samt; hún er ef til vill „steinrunnin“ eins og ég, en hún er frá sjómannsárum sankti Péturs nafna míns. Á þeim miðum, þar sem hann reri, var ógurlegt illhveli, sem fiskimönnum stóð mikill stuggur af; en sankti Pétur átti, sem kunnugt er, mikið undir sér, og hann lagði það á þetta illhveli, að það skyldi ekkert komast nema það, sem aðrir fiskar bæru það á sporðinum. Þannig kemst hv. þm. Ísaf. ekkert nema það, sem aðrir bera hann á sporðinum, og þó þannig, að þeim, sem það gera, hefir daprazt sundið mjög mikið.