05.04.1937
Neðri deild: 31. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (828)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Páll Þorbjörnsson:

Það var nú svo sem vænta mátti, að hv. þm. Borgf. tæki fljótt til máls, en ræða hans virtist eingöngu miða að því að tefja fyrir þessu máli. (PO: Þetta var engin ræða; ég á allt eftir!). Virðist margt benda til þess, að trú hans sé farin að minnka svo á mátt sinn hér í d. til þess að skaða þetta mál, að hann sjái ekki annað fram undan en að fara þessa leið.

Hv. þm. Borgf. undraðist yfir því, að hv. frsm. hefði ekki við hendina þau plögg, sem hann vildi vitna í. Ég sé nú, að hv. frsm. er að blaða í þeim núna, en hv. þm. Borgf. skal ég segja það, að þessi plögg eru afarveigamikil og sýna, að það er mikill áhugi fyrir þessu máli meðal fiskimanna. Þeir láta miklar og glöggar skýrslur frá sér fara, en hitt er léttara á metum, sem komið hefir frá þeim, sem hafa andmælt þessu máli.

Ég býst ekki við, að rök hafi mikið að segja við hv. þm. Borgf. Hann er — sem kunnugt er — búinn að fá þetta mál á heilann, og það virðist vera erfitt að koma nokkru tauti við hann. En nú þegar fyrir liggja skýrslur frá allt að 100 bátaeigendum, sem allir lofa mjög þennan atvinnurekstur, og þegar vitað er, að þrátt fyrir miklar takmarkanir á þessari veiði og ýmsa erfiðleika, sem þyrfti að yfirstíga, munu aflabrögð hafa verið á síðastl. sumri rúmar 700 þús. kr., þá þætti mér ekki ótrúlegt, að hv. þm. Borgf. vildi eitthvert tillit til þessa taka. Enda hlýtur honum að vera kunnugt um það, að á síðastl. ári hefir enginn atvinnurekstur við sjávarsíðuna fært mönnum eins miklar tekjur í búið eins og dragnótaveiðarnar, nema ef vera skyldu síldarveiðarnar. Allir þessir menn, sem sent hafa skýrslur um reynslu sína af dragnótaveiðunum, ljúka upp einum munni um gagnsemi þeirra og draga mjög í efa, að yfirvofandi hætta sé á, að fiskimiðin eyðileggist, þó að þessar veiðar séu stundaðar.

Í sjútvn. hefir þessu frv. verið að nokkru breytt, frá því sem það var upphaflega borið fram, eins og hv. frsm. gat um. Og þessar breyt. hygg ég, að séu gerðar með fullu samkomulagi 3 nm., en hinir 2, sem skrifað hafa undir nál. með fyrirvara, hafa ekki komið með neinar sérstakar breyt. við frv. — Hv. þm. Barð. gat þess hér áðan, að fyrirvari sinn byggðist á því, að hann teldi mjög hæpið, að rétt væri að leyfa það, að veiðarnar byrjuðu 15. maí á svæðinu milli Eystra-Horns að Straumnesi, og vildi hann, að þessu yrði breytt hvað Vestfirði snerti. Það, að okkur í n. taldist svo til, að rétt væri að hafa tvö tímatakmörk um það, hvenær stunda megi þessar veiðar, stafaði af því, að hrygningartíminn er ekki talinn vera sá sami í kalda og hlýja sjónum. Nú er það kunnugt, að straumamótin eru hér fyrir Austurlandi við Eystra-Horn. Um það eru engar deilur. Hinsvegar telja menn, að ekki séu nein glögg merki um það, hvar skipti um fyrir Vesturlandi, en fiskifræðingar telja, að heppilegasti staðurinn til þess að láta skipta um sé við Straumnes. Og ég hygg, að ef hv. þm. Barð. athugar þetta nánar, þá komist hann að þeirri niðurstöðu, að það hafi geysilega mikla þýðingu einmitt fyrir Vestfirðinga, að tímatakmarkið hjá þeim sé 15. maí, en ekki 15. júní, því að nú er, eins og kunnugt er, búið að koma upp á 2–3 stöðum hraðfrystihúsum, sem byggð eru með það fyrir augum að frysta afla frá dragnótabátum, og þessi byggðarlög byggja því afkomumöguleika sína á komandi árum einmitt á því, að geta hagnýtt þessi frystihús í sambandi við dragnótaveiðar. — Ég vildi aðeins benda á þetta, af því að hv. þm. Barð. var að tala um, að hann kæmi sennilega með brtt. út af þessu, og vildi ég mælast til þess, að hann kynnti sér fyrst, hvort ótti hans um það, að tímatakmarkið væri of snemmt, væri ekki ástæðulaus.

Hv. 6. þm. Reykv. hefir nú lýst sínum fyrirvara við frv., og var það sérstaklega eitt í sambandi við brtt. okkar í sjútvn., sem hann taldi sig eiga erfitt með að sætta sig við, sem sé það, að nokkuð væri gert upp á milli skipa um rétt til dragnótaveiða. Það, sem fyrir mér vakti, og ég geri ráð fyrir, að það sama hafi vakað fyrir hv. samnm. mínum, var einungis það, að það getur á ýmsan hátt haft óheppilegar afleiðingar, ef allt of stór floti stundar þessar veiðar á næsta sumri. Það er ekki svo að skilja, að ég álíti, að það hafi slæmar afleiðingar fyrir fiskimiðin sjálf, en þar sem við erum ekki enn búin að afla okkur stórra markaða fyrir hraðfrystan fisk og víða við landið eru óheppilegar ferðir til þess að flytja fiskinn á markaðinn, þá er ekki æskilegt að fara takmarkalaust út í þetta. Nú er það kunnugt, að bátar yfir 35 smál. hafa undanfarin sumur stundað síldveiðar með góðum árangri, og er engin ástæða til að ætla, að þeir muni ekki stunda þessar veiðar hér eftir eins og hingað til. Hinsvegar er það svo með báta undir 35 smál., að þeir eiga þess lítinn kost að stunda síldveiðar með þeim árangri, að það færi sjómönnum nokkra verulega björg. Ég held því, að ástæðulaust sé að halda, að þarna sé gengið sérstaklega á rétt þeirra, sem stærri báta eiga.