12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í B-deild Alþingistíðinda. (863)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Jón Ólafsson:

Ég er hissa á þeim umræðum og þeim tiltektum, sem ýmsir hafa tekið til í þessu máli með sínum tillöguflutningi. Ég hélt, að menn hefðu fengið nóg að vita um sektarákvæðin út af landhelgisbrotum til þess að upphefja öll þau höft, sem á þessum veiðum eru. Ég veit ekki betur en að nú sem stendur séu 15 eða 16 bátar undir dómi út af landhelgisbrotum. Ég veit um einn bát, sem hefir verið sektaður tvisvar, og í seinna skiptið um 2000 kr., svo að ég hugsa, að ekkert annað sé eftir hjá formanni þessa báts en að missa réttindin. Vitanlega hefir ekki náðst ein króna af öllum þessum sektum, og því er fleygt meðal sjómanna, að þeim detti ekki í hug að virða héraðabönnin, heldur láta sekta sig og dæma. Það er vitað, að þeir eiga engin þau verðmæti, er komið geta upp í sektirnar, og þegar slíkt ástand er skapað, er það þjóðarskömm.

Mér skildist á hv. þm. Snæf., að eiginlega vekti fyrir honum að geyma kolann á Breiðafirði, þangað til komin væru frystihús á Sandi og í Ólafsvík. Það er ekki nema einn bátur í Ólafsvík, og yfirleitt svo fáir við Breiðafjörð, að ég get ekki sagt annað en að hv. þm. Snæf. leggi til með sinni till. að geyma kolann, þangað til komin eru frystihús á Sandi og í Ólafsvík. Aftur á móti eru 3 frystihús á Vestfjörðum, en ég veit, að Vestfirðingar hafa ekki nærri nógan flota til þess að fullnægja eftirspurn þeirra, svo að ef banna á Sunnlendingum að fara vestur, þá fá þessi frystihús ekki það, sem þau þurfa. Fyrir Norðurlandi er sama ástandið. Siglfirðingar hafa ekki flota til þess að stunda þessar veiðar. Þeirra bátar fara flestir á síldveiðar, sem hafa stærðina til þess; hinir munu ekki ennþá vera komnir á lag með að hagnýta sér þennan fisk. Verða þeir því að fara eins að og hv. þm. Snæf. leggur til, að geyma þennan fisk, þangað til þeir eru tilbúnir að afla hans. En þetta er mjög bágur hugsunarháttur og alls ekki sæmilegt vitrum mönnum að bera slíkar till. fram.

Hv. 2. landsk. kom með friðun Faxaflóa. En hann má vita það, að við sættum okkur ekki við það og munum fagna því, að Faxaflói verði friðaður. En það er út af fyrir sig tilgangslaust, að vera að geyma að létta þessu banni af við aðra landshluta, því að þeir verða aldrei friðaðir, þó að Faxaflói verði friðaður. En ég vil leggja áherzlu á, hver þjóðarskömm landhelgissektirnar eru, þegar komnir eru milli 10 og 20 bátar, sem ekki geta innt af hendi nokkra greiðslu. Sektirnar eru víða orðnar tvöfaldar eða þrefaldar við verðmæti bátanna. Þetta er svo viðbjóðslegt ástand, að það ætti að vera nóg til þess, að hver einasti rétthugsandi maður vildi afnema þessi lög.

Ég vona, að menn líti á, þegar þeir greiða atkv. um þetta mál, þröng og fátækt sjómanna annarsvegar og nauðsyn þess, að afla þeim betri afkomumöguleika, og hinsvegar nauðsyn þess, að afla nægra verðmæta úr sjónum til þess að standa straum af þjóðarbúskapnum betur en verið hefir og betur en útlit er fyrir, að þessi vetrarvertíð muni gera. Ég vona því, að menn láti það ekki á sig fá, þó að ýmsir hv. þm. beri fram slíkar brtt. sem þessar, meðfram til þess að gera þá vissari í sínum kjördæmum, af því að þeir halda, að bráðum komi kosningar. En það þýðir ekkert að bera fram till. um að veita þeim einkarétt á þessum veiðum, sem ekki hafa fullnægjandi tök á að hagnýta sér þær. Þess vegna má ekki ætla Breiðfirðingum einum Breiðafjörð og Vestfirðingum að afla nægilegs fiskjar í þau 3 frystihús, sem þar eru, með þeim bátum, er þeir hafa.