12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (868)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Pétur Ottesen:

Þessar mörgu brtt., sem hér eru fram komnar, sýna hugarástand hv. dm. í málinu, því að þær eru aðeins fram komnar til að friða vonda samvizku, vegna þess að hafa léð málinu fylgi, — til að klóra í bakkann gagnvart þeirri hættu, að Danir og Færeyingar fari nú að hópast inn í landhelgina, ef hún er opnuð upp á gátt. Það, sem heldur þeim frá þessu, er það, að þeir hafa ekki samkvæmt núgildandi l. leyfi til að koma fyrr en síðari hluta sumars. Ef þeir mega aftur á móti koma strax í maí, er aðstaðan orðin breytt, svo að þeir geta notað sér hana til fulls. Ég vorkenni ekki hv. þm. Vestm., þó að hann fái að sjá framan í þessa útlendu notendur landhelginnar, en ég vorkenni sjómönnum í Vestmannaeyjum, sem verða þá að hafa Danina hjá sér. (JJós: Þeir eru ekki hræddir við Dani). Nei, en hvað hefir haldið þeirri hræðslu frá þeim? Það, að bannað er með l., að Danir geti komið þannig til landsins. Hv. þm. brosir, en það er líklegt, að af honum fari brosið, þegar menn fara að koma í land í Vestmannaeyjum með tóma vörpuna og hafa ekki annað fyrir en skellina úr dönskum mótorbátum. Það er að vonum, að hv. þm. gangi illa að verja þetta ógeðslega fóstur sitt.

Ef þessar brtt., sem hér liggja fyrir, verða samþ., eru Danir að vísu útilokaðir frá að nota íslenzka landhelgi á nokkuð stóru svæði, en samt væri frv. alveg óforsvaranlegt. Við vorum farnir að vona, að hægt myndi að fá því framgengt, að Faxaflói yrði friðaður, en nú er gersamlega settur fóturinn fyrir, að hægt sé að fá þá viðurkenningu, ef við sýnum þá léttúð, að fara að opna landhelgina upp á gátt, og auglýsum þar með, að við meinum ekkert með kröfum okkar um friðun Faxaflóa. Þetta athæfi brýtur svo mjög í bága við öll rök, er við höfum látið fiskifræðinga okkar flytja fram fyrir nauðsyn þessa máls, að öll sund virðast lokuð fyrir því í bili, að okkur takist að fá því framgengt, ef þetta frv. verður að l.

Hv. þm. Vestm. sagði á dögunum, að ég hefði seilzt nokkuð langt til raka í þessu máli og að ég væri ekki alltaf við eina fjölina felldur um rökfærsluna. Ég svaraði þessu þá, en ég vil nú til viðbótar benda á það, hvernig hans málaflutningur er, þar sem hann segir í ræðu sinni, að með brtt. hv. þm. Snæf. sé verið að stofna til þess að taka veiðarfærin af mönnum. Og nú segir hann aftur: Hvað þýðir að vera með þetta eftirlit? Er það ekki brotið af öllum? Hvaða samræmi er í þessu? Þetta er argasti víxlgangur og ekkert annað, þar sem eitt er sagt eina stundina og annað sama daginn, jafnvel sama klukkutímann. Segjum, að hann hefði nú skreiflað á þessu sköturoði við fyrri umr.; þá hefði það getað verið afsakanlegt.

Ég vænti þess, að þegar menn fara að átta sig á þessu, sannfærist þeir um, að þetta er mál, sem taka beri afstöðu til frá strangasta alvörusjónarmiði. Við eigum svo mikið á hættu, ef við fáum ekki uppfylltar óskir okkar um friðun við strendur landsins, að öll léttúð í þessu efni væri óafsakanleg.