15.04.1937
Efri deild: 41. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í B-deild Alþingistíðinda. (891)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Ég var sömu skoðunar og hv. 1. þm. Skagf., að dragnótin gæti spillt fyrir annari veiði. Ég get sagt það, að á Vesturlandi var þessi skoðun almennt ríkjandi, og maður varð varla var við nokkurn sjómann, sem ekki hélt því fast fram, að dragnótin spillti fyrir annari veiði. Nú hefir 3 síðustu árin verið dálítið stunduð kolaveiði þar, sérstaklega af Sunnlendingum. Af Suðurlandi og sérstaklega frá Vestmannaeyjum hafa margir bátar stundað kolaveiðar á Vestfjörðum 3 undanfarin ár. Og eftir að sú reynsla er fengin, þá álíta sjómenn þar vestra, að þessi veiði spilli ekki fyrir annari veiði. Það má vera, að það fiskist meira af smáfiski á Skagafirði í dragnótina. En á Vesturlandi er þetta svo hverfandi lítið, sem veiðist af smáfiski í dragnótina. En ég hygg, að það sé alveg víst, að það er ekki nema þar, sem sléttur sandbotn er, sem hægt er að veiða með þessu áhaldi, og það er mjög lítill partur af landhelginni, sem hægt er að stunda þessa veiði á. Á Vestfjörðum er yfirleitt nokkuð djúpt, og það er ekki nema við löndin, sem hægt er að nota þetta áhald. En á Skagafirði er mikill sandbotn, og þess vegna verður dragnótin notuð meira þar en víða annarsstaðar. En ég held, að menn séu yfirleitt að komast á þá skoðun, að þetta veiðiáhald spilli ekki, svo framarlega sem þess er gætt, að hafa möskvastærðina hæfilega, svo að smákoli og smærri fiskur geti smogið nótina, enda er nótin dregin ákaflega hægt, svo að fiskurinn hefir gott tækifæri til að komast undan.

Um héraðabönnin verð ég að segja, að þau hafa sýnt í mörgum tilfellum, að það er aðeins vegna misskilnings, að menn hafa sett þessar héraðssamþykktir, eins og t. d. með herpinótaveiðina á fjörðum, sem víða var bönnuð hér áður, en allir eru nú sammála um, að ekki spilli neitt fyrir annari í veiði, enda sjálfsagt, að hún verði leyfð öllum landsmönnum.

Eins og nú er ástatt, þá hafa Sunnlendingar leyfi til að veiða frá 15. júní og til 1. des. á svæðinu frá Hjörleifshöfða og til Látrabjargs. En það er aðeins fyrir þá, sem eru búsettir á þessu svæði eða hafa skip sín skrásett frá Faxaflóa og Vestmannaeyjum og hér suður með sjó og svo í Borgarfirði. En það er beitt mesta misrétti, ef slík undanþága ætti að haldast fyrir Sunnlendinga, en Austfirðingum, Vestfirðingum og Norðlendingum væri meinuð slík veiði í sínum fjórðungum, þegar svo er ástatt, að einmitt á Austur- og Vesturlandi eru vandræði sjómanna og útgerðarmanna í smábátaútgerðinni langmest vegna undanfarins aflaleysis og meðfram vegna þess, hvað lágt verð hefir verið á aflanum. Ég þori ekki að fullyrða neitt um það, hvers vegna tíminn er settur misjafn fyrir Norðurland og Suðurland. En í nál. sjútvn. Nd. er um þetta talað, og ætla ég að lesa það upp, með leyfi hæstv. forseta:

Brtt. n. um lengri friðun að vori til en sumri fyrir Vestur- og Norðurlandi heldur en fyrir Suðurlandi styðst við það álit fiskifræðinganna, að hrygningu kolans sé lokið í hlýja sjónum um miðjan maí, en hinsvegar ekki í kalda sjónum fyrr en um miðjan júní eða seinna.“

Þarna er að leita ástæðunnar fyrir því, að þetta er haft misjafnt.

Ég vænti þess, að hv. d. samþ. þetta frv., þótt ekki væri vegna annars en þess, að það er óforsvaranlegt að samþ. ekki slíka neyðarráðstöfun fyrir útgerðina á þessum tímum, sem nú eru.