16.04.1937
Efri deild: 42. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

32. mál, hafnargerð á Þórshöfn

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Eins og þetta frv. ber með sér, er það um hafnargerð á Þórshöfn. Það er sniðið nákvæmlega eftir þeim hafnarlögum, sem samþ. hafa verið hin seinni ár. Framlag ríkissjóðs er ? kostnaðar og viðkomandi hafnarsjóðs ?. Eins er sömu reglum fylgt um tekjuöflun til hafnarsjóðs eins og í eldri hafnarlögum. Í grg. frv. er skýrt frá því, að þarna hafa farið fram mælingar og rannsóknir, og liggja fyrir áætlanir um þá hafnargerð, sem fyrirhuguð er eftir þeim mælingum. Samkv. þeim verður kostnaðurinn alls 160 þús. krónur.

Þessi staður, Þórshöfn á Langanesi, er talinn einhver bezti staður fyrir skip að flýja inn á norðanlands, þegar veður koma upp á, alla leið frá Akureyri til Seyðisfjarðar. Þó er svo ástatt, að vogurinn er of lítill, ef um virkilega vont veður er að ræða. Mundi sú hafnarbót, sem þarna er fyrirhuguð, til mikilla bóta fyrir smærri skip, sem stunda veiðar kringum Langanes. Það er oft svo, þegar veður koma upp á, að langt er til viðunandi hafna fyrir skip á þessum slóðum. Byggð er líka að aukast á þessum stað, og kominn dálítill útvegur.

Frv. er flutt í hv. Nd. af hv. þm. N.-Þ., og gekk þar í gegn andmælalaust. Fjhn. þessarar d. hefir athugað frv. ásamt uppdráttum af fyrirhuguðum mannvirkjum, og hefir komizt að þeirri niðurstöðu, að rétt sé að gera frv. að lögum, því hvað sem um fjárframlög er að segja til að byrja með, þá er hafnargerð þessi þannig löguð, að taka má hana í fleiri áföngum, og þetta mun verða með ódýrustu hafnargerðum, a. m. k. á þessum slóðum. N. leggur því til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.