18.12.1937
Neðri deild: 54. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í B-deild Alþingistíðinda. (1063)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Sveinbjörn Högnason:

Það gleður mig að heyra, að ég hefi þó getað knúð þá játningu fram frá sessunaut mínum, að Rvík hafi að nokkru leyti frá hinu opinbera betri aðstöðu en önnur bæjar- og sveitarfélög. Ég tel, að það sé mikils virði að hafa einu sinni frá fulltrúa Rvíkur, sem ég veit, að ber hag hennar fyrir brjósti, fengið þá yfirlýsingu, að það sé nokkur mismunur gerður af hendi hins opinbera á Rvík og öðrum bæjum og sveitarfélögum, með því að láta Rvík hafa alla opinbera starfsmenn. Hv. þm. sagði, að sér dytti ekki í hug, að það væri nokkur hv. þm., sem féllist á þennan hugsunarhátt minn, að þessar tekjur, sem hér er um að ræða, útsvör opinberra starfsmanna, yrðu látnar ganga í jöfnunarsjóð bæjar- og sveitarfélaga. Ef til vill hugsar hv. þm., að hann hafi haldið svo vel áfram að hamra á því, að Rvík væri afskipt, að það fyndist enginn maður, sem þyrði að halda fram því gagnstæða. En ég þori nú samt vel að halda því fram, og ég er sannfærður um, að það er fjöldi hv. þm., sem þora að halda fram því rétta í þessu máli eins og öðrum.

Hv. þm. talaði um, að ég mundi ekki hafa gert mér grein fyrir, til hvers opinber gjöld væru innheimt. Það er nú svona rétt um það bil, að það sé hv. þm. samboðið að tala þannig. Ég geri ráð fyrir, að öllum hv. þm. sé það ljóst, til hvers opinber gjöld eru notuð, eða ég fyrir mitt leyti vil ekki væna nokkurn hv. þm. um það, að hann fylgist ekki svo vel með löggjöf og stjórnarháttum, að hann viti þetta ekki. Hv. þm. segir, að hin opinberu gjöld séu notuð eingöngu til að standa straum af sameiginlegum þörfum bæjar- og sveitarfélaga. Nú vil ég spyrja hv. þm.: Ef hvert bæjar- og sveitarfélag er skylt að standa þannig straum af sameiginlegum þörfum sinum, til hvers er þá verið að setja þessa löggjöf? Ég veit ekki betur en það sé verið að setja hana vegna þess að það hefir komið fram, að það eru einstök, bæjar- og sveitarfélög, sem ekki eru megnug þess, að standa undir sínum þörfum. Og með þessari löggjöf og þeirri framfærslulöggjöf, sem sett var árið 1935, er beinlínis viðurkennt af löggjafanum, að það beri að jafna á milli í þessu efni. Og ég fyrir mitt leyti sé ekki, að það sé til sanngjarnari jöfnun en að taka til þess útsvör eða beinar álögur á opinberum gjaldþegnum, sem ríkið og allir borgarar þjóðfélagsins halda uppi. Ég get ekki skilið, að eitt bæjarfélag hafi sérstakan rétt til þess, að allir opinberir starfsmenn, allir æðri skólar og yfirleitt allar opinberar stofnanir séu settar á þann sama stað, því að allt þetta eru vitanlega stórkostleg hlunnindi fyrir eitt bæjarfélag. Nú er það ekki svo, að útsvör þessara manna séu það eina, sem bæjarfélagið fær frá þessum gjaldþegnum. Ég tel það vist, að þessir menn, sem borga ½ millj. kr. í útsvör á ári, muni eiga einhverjar eignir, sem þeir borga af fasteignaskatt til bæjarins. Þar að auki greiða þeir svo ýms almenn gjöld, svo sem vatnsskaft, gjald fyrir rafmagn og gas o. fl. (JakM: Hv. ræðumaður ætti að vera á Kleppi). Ég vonast til þess, að hv. 2. þm. Reykv. sé ekki svo tæpur á geðsmunum, að þessar ræður mínar hafi þau áhrif á hann, að setja þurfi bann á slíka stofnun, sem hann hér nefndi. Ég sé, að röksemdir mínar hafa haft slæm áhrif á þennan hv. þm., og með tilliti til þess skal ég reyna að haga orðum mínum hér eftir. Það er af því, sem ég hefi tekið fram, auðsætt, að þessi till. mín er réttlætiskrafa. Ég vil svo ekki eiga það á hættu að orðlengja um þetta frekar með tilliti til þess, sem fram hefir komið og læt því máli mínu lokið.