13.11.1937
Neðri deild: 26. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (1090)

56. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

Frsm. (Finnur Jónsson):

Ég held, að þetta mál sé eitt af þeim málum, sem yrði til verulegra hagsbóta fyrir vélbátaútveginn, ef það næði fram að ganga. Við getum verið sammála um það, að öll vátryggingarstarfsemi byggist á því, að starfsemin fái þau iðgjöld fyrir sínar tryggingar, sem nægja til þess að hún geti borið sig. Hvorki Samábyrgð Ísl. á fiskiskipum né önnur vátryggingarfélög munu taka að sér neinar tryggingar til lengdar, sem ekki svara kostnaði. Nú er það svo, að allmikill hluti af vélbátaflotanum er tryggður hjá vélbátaábyrgðarfélögum, sem hafa endurtryggingu hjá Samábyrgðinni. En starfsemi Samábyrgðarinnar hefir ekki gengið vel undanfarin ár, og mun stappa mjög nærri, að það verði að leggja hana niður. En ef svo færi, þá hafa þau vélbátaábyrgðarfélög, sem endurtryggt hafa hjá henni, ekki í annað hús að venda en til einkavátryggingarfélaga. Það hefir hinsvegar gengið svo, að vátryggingarfélögin hafa náð í nýjustu skipin til tryggingar, en Samábyrgðin hefir haft mestallt gömul skip. Vátryggingarfélögin hafa getað boðið betri kjör á tryggingum á þessum nýju eða nýlegu bátum, en þegar þeir fara að eldast, þá koma þeir til Samábyrgðarinnar. Það er þetta, sem hefir valdið því, að Samábyrgðin hefir borið sig svo illa. Það er í þessu frv. ekki ákveðið neitt um það, hver iðgjöldin skuli vera. Þetta er gert með vilja, vegna þess að það er gert ráð fyrir, að hin gömlu vélbátatryggingarfélög haldi áfram störfum með svipuðum iðgjöldum og nú, og þar sem þeirra starfsemi hefir sýnt mjög góðan árangur þar, sem þau hafa starfað lengst, þá virðist ekki ástæða til að breyta iðgjöldunum. Gott dæmi um þessa starfsemi er vélbátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja. Það er samkv. þeim upplýsingum, sem hér liggja fyrir, 75 ára gamalt. Vestmannaeyjar eru eins og kunnugt er versta áhættusvæði landsins, og þó hafa iðgjöldin þar á árinu 1932 ekki farið fram yfir 4%, á árinu 1933 ekki yfir 3,75%, á árinu 1934 ekki yfir 3,75% og 1935 ekki yfir 3,25%. Mér finnst satt að segja það ekki vera nein fjarstæða, þótt Alþ. reyndi að ýta á menn í tyggingarmálunum, einkum og sér í lagi þar sem þetta félag í Vestmannaeyjum á versta áhættusvæði landsins hefir sýnt svona góðan árangur. Ég lít svo á, að það mundi geta orðið smábátaútveginum til verulegra hagsbóta, ef útgerðarmenn væru lögskyldaðir til að taka þátt í slíkum félagsskap.