15.12.1937
Efri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (1129)

56. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

*Jóhann Jósefsson:

Herra forseti! Það kom fram í framsöguræðu hv. frsm. og form. sjútvn., að honum þótti allmargir staðir í frv. þurfa nánari athugunar við. Hið sama kom einnig fram í n., þegar málið var þar til umr. Ég teldi betra að það hefðifengið gagngerða athugun, og helzt frá fleiri hliðum en raun varð á í n. Hún leggur aðeins til, að málið gangi fram eins og það er.

Það einkennir þetta frv., að það er ákaflega ýtarlegt í því að tryggja hag vátryggingarfélaganna, og það ber þess augljóst merki, að þeir menn hafa unnið að samningu þess, sem hafa sérstaklega haft opin augu fyrir því, hvernig skilyrði vátryggingarfélagsins verða útbúin örugglegast, en síður hinu, hvað hagkvæmt er og eðlilegt og sanngjarnt í garð útgerðarmanna og sjómanna.

En eins og vant er, þarf tvo aðilja til þess að semja, svo að vel gefist, og þannig er hér. Ég sé fyrir utan vátryggingarstofnunina tvo stóra aðilja, eigendur og veðhafa. Þegar mörg ákvæði slíks frv. miða að því að gera rétt þeirra vafasaman og tvíræðan, er að vissu leyti verr farið en heima setið. Hagsmunir veðhafa og eigenda fara þarna mjög saman. Þau ákvæði, sem gera lánsstofnunum og öðrum veðhöfum erfitt að sækja sinn rétt, eru í raun réttri alveg eins til óhagræðis fyrir þá, sem eiga skipin. Þar gefur auga leið, að afstaða eigenda gagnvart lánsstofnunum verður þeim mun hollari sem þeim stofnunum er gert erfiðara að ná rétti sinum gagnvart vátryggingarfélaginu. Íslenzkir útgerðarmenn hafa svo mjög aðra aðstöðu en erlendir gagnvart lánsstofnunum, bæði um stofnlán til þess að eignast skipin og rekstrarlán til þess að útgerðin stöðvist ekki, að erlendar lagafyrirmyndir geta verið mjög vorhugaverðar. Upplýsingar sem ég hefi fengið, siðan málið var til umr. í sjútvn., valda því, að ég mun bera fram brtt. við frv. Ganga þær að mestu leyti í þá átt að draga úr þessum vátryggingarfélagsáhrifum, sem hafa ráðið mestu, þegar frv. var samið, en þó er um nokkur atriði að ræða, sem ekki snerta þetta beinlínis.

Í 3. gr. frv. er ákveðið, að það skuli vera 70 smálesta hámark „brúttó“ fyrir hví, hve stór skip séu tryggingarskyld hjá vátryggingarfélögunum. Þegar um það er að ræða að gera vátrygging að skyldu, finnst mér, að löggjafinn verði að taka tillit til þeirra stefnubreyt., sem er að gerast, að menn vilji eiga fiskiskip, sem eru yfir 70 smálestir, sérstaklega ef síldveiðar ýta undir það. Og með ári hverju vex nauðsynin að hafa þau skip svo stór, að þau geti fiskað hvar sem er og flutt afla sinn úr veiðiferðinni, út yfir pollinn, ef svo ber undir. Því vel ég leyfa mér að leggja til, að skyldan til að vátryggja nái til þeirra, sem eiga skip allt að 100 smálesta. Þá segir ennfremur í sömu grein, að þá vélbáta, sem .,aðallega eru ætlaðir til fiskveiða við Ísland“, sé skylt að vátryggja, en aðrir, t. d. flutningabátar, virðast eiga að vera undanskildir. Mér finnst það óþarft ákvæði. Það hlýtur að vera eins mikil nauðsyn að vátryggja þá báta eins og aðra. Þá mun setningin hljóða svo: Allir vélbátaeigendur, sem eiga vélbáta, opna eða með þilfari, sem eru allt að 100 smál. brúttó að stærð og aðllega eru ætlaðir til fiskveiða við Ísland o. s. frv.

Við. 8. gr. hefi ég gert brtt., að bætist ný gr. aftan við, sem sýnist vera allnauðsynleg: Senda skal samábyrgð Íslands á fiskiskipum afrit af ársreikningum félagsins að afloknum aðalfundi ár hvert.

Þá kemur brtt. við 13. gr. frv. Þar er breytt talsvert frá því, sem segir í frv. Samkvæmt 13. gr. frv. er svo ákveðið, að þegar eigendaskipti verða, falli vátryggingin úr gildi, og endurgreiðist iðgjaldið hlutfallslega fyrir þann tíma, að frádregnum þeim 1/4 af vátryggingunni, sem rennur í stofnsjóð félagsins, og svo á hinn nýi eigandi að vátryggja skipið á ný. Það er nú að vísu algengt, þegar eigendaskipti verða, að báturinn eða skipið um leið skiptir um heimilisfang. En stundum er það líka svo, að skipið skipti alls ekki um heimilisfang. Þegar þannig eigendaskipti verða, að skipið er flutt í annað vátryggingarumdæmi, finnst mér eðlilegast, að vátryggingin haldi sér og félagið annist vátrygginguna áfram; þá flytjist vátryggingin af sjálfu sér fyrir tilbeina þess vátryggingarfélags, sem á staðnum er, yfir í vátryggingarfélagið í hinu nýja umdæmi, sem þá náttúrlega á að njóta iðgjaldsins að tiltölu við þann tíma, frá því að það tekur við skipinu. Hér eiga eigendur sjálfir ekki að þurfa að koma neitt að í þessu máli. Það er miklu eðlilegra, þar sem lögin eru þannig, að þetta cr gert að skyldu, alveg eins og það er skylda að hafa hús vátryggð hjá Brunabótafélagi Íslands. Eigendurnir þurfa ekkert um það að hugsa, vátryggingin hvílir á húsinu, og það er vátryggt og þess vegna líka lögtaksréttur, sem hvílir á iðgjaldinu o. s. frv. Kem ég að því síðar, að við samningu þessa frv. virðist höfundur, a. m. k. annað veifið hafa misst sjónar á því, hvað þetta er hliðstætt skylduvátryggingunni í Brunabótafélagi Íslands. Og þessi ¼%, sem ætlazt er til að draga frá, sem búið er að greiða af iðgjaldinu, — ég get ekki séð, að hann sé dreginn af skipaeigendum.

Þá kem ég að brtt., sem ég leyfi mér að bera fram við 15. gr. frv. Það er um greiðslur á tjónhófum fyrir viðgerð á skipum. Þar er svo ákveðið,að draga skyldi frá viðgerðarkostnað með matsverði, sem hér segir: frá viðgerðarkostnaði fyrir skip, sem eru yngri en ársgömul, ekkert, en fyrir skip, sem er 1–9 ára gömul, 3% fyrir hvert ár, og ef skipið er yfir 9 ára, 25%. Þessi ákvæði eru ákaflega óréttlát í garð skipeigenda, og með þessum ákvæðum er dreginn taumur vátryggingarfélaganna. Nú er ætlazt til samkv. þessum lögum. að skipin séu metin, og það er líka ætlazt til þess, að viðgerðarkostnaður sé metinn, en að draga frá skipum, sem ekki eru meira en 9 ára gömul, — svona mikið, það verður 20% líklega, og svo 25% af yfir 9 ára gömlum — það er alveg fráleitt. Ég er viss um, að þetta ákvæði vekur svo mikla óánægju hjá þeim, sem skipta við vátryggingarfélögin, að það helzt aldrei lengi óbreytt, en það er einn vottur þess, að frv. er samið af mönnum, sem hafa fyrst og fremst hag vátryggingarfélagsins fyrir augum. Ég hefi leyft mér að koma með brtt. við 15. gr., að í stað 3% í b-lið komi: 1%, og í stað 25% í c-lið komi: 12%. 9 ár á góðu vélskipi, sem er vel viðhaldið, er í sjálfu sér enginn aldur.

Þá hefi ég gert brtt. við 27. gr. Það er um hvað félagið skuli greiða, þegar viðgerð þarf að fara fram. Þar segir svo í frv.: „Tjónbætur skal miða við aðgerðarreikninga með hliðsjón af tjónmatinu, þannig, að þó að aðgerðarkostnaður fari fram úr matsupphæðinni, skal miða greiðslur við matsupphæð“. — Þetta ákvæði er mjög hættulegt fyrir skipaeigendur. Skip stranda eða brotna; þá er auðvitað skylt að gera ráðstöfun til þess að borga tjónið eða gera við skipin, og líka að gera áætlun um, hvað tjónið er mikið. Þessi áætlun er gerð áður en byrjað er á aðgerðinni; það er lagaskylda samkv. frv. En svo geta svo margir hlutir komið fyrir frá þeim degi, að tjónið hefir verið metið og þangað til viðgerð er lokið, sem geta valdið því, að viðgerðin verði nokkuð miklu dýrari en upphaflega áætlunin var í fyrstu. Og þegar svo ber við, þá virðist það vera mjög hart í garð skipeiganda, — illa með hann farið beinlínis, — ef ekkert tillit á að taka til þess, þótt viðgerðin fari langt fram úr áætlun. Ég geri ráð fyrir því, þó að hann geri allt sitt bezta til þess að fá góða skipasmiðastöð til að gera við skipið, þá vill löggjöfin samkv. þessari gr. frv. ekkert tillit taka til þess, hvað fyrir kemur á meðan verið er að gera við skipið, bara halda sér dauðahaldi í matið, sem gert var áður en viðgerðin hófst. Það er um þessi ákvæði eins og svo mörg önnur, þar sem einhliða er litið á hagsmuni vátryggingarinnar, en alls ekki nein sanngirni í garð hinna vátryggðu. Ég hefi leyft mér að bera fram brtt., að 3. málsl. í 1. málsgr. 27. gr. orðist alveg um. Í frv. hljóðar hann svo: „Tjónbætur skal miða við aðgerðarreikninga með hliðsjón af tjónmatinu, þannig, að þó að aðgerðarkostnaðurinn fari fram úr matsupphæðinni, skal miða greiðslur við matsupphæð.“ — Ég veit raunar ekki, hvað er verið að burðast með aðgerðarreikninga, úr því að ekkert tillit er tekið til þeirra, því ef nokkur ágreiningur verður, þá er farið eftir matsupphæðinni, en ekki eftir aðgerðarreikningum. Og leyfi ég mér í minni brtt. að bera fram, að í staðinn fyrir þetta orðalag komi sem hér segir: „Félagið og skipseigandi koma sér saman um það, hversu aðgerð skuli hagað, og greiða kostnaðinn í hlutfalli við áhættu sína“. Þarna studdist ég við reynslu í mínu byggðarlagi um það, hvernig með þessi mál er þar farið. Þegar slys verður á bát, hann brotnar eða því um líkt, þá fer aðgerðin fram með sameiginlegu tilstilli eigenda og ábyrgðarfélagsins, og svo er þetta gert upp, ekki með hliðsjón af matsverði einvörðungu, eins og segir í frv., heldur með hliðsjón af því hvað þessi aðgerð hefir orðið kostnaðarsöm, og kostnaðinum svo deilt á skipaeiganda og vátrygginguna, eftir því sem hvorum aðiljanum ber.

Næsta brtt. er við 27. gr., þ e. a. s. að við þá gr. komi viðbót, ný gr. Á að setja hana undir hina ýmsu lekastaði, sem eru á frv., því að tryggingarákvæðin eru meira og minna holótt.

Það er svo víða fyrirvari á greiðslum og fyrirvari á skyldum vátryggingarinnar í frv. En hvað sem öðru líður, þá virðist það þó ávallt nauðsyn, að sá, sem veð hefir í skipi, hvort heldur það er lánsstofnun eða aðrir kröfuhafar, að þeirra réttur sé ávallt tryggður, og ber þar að sama brunni eins og ég sagði áðan, að um leið og tryggður er réttur veðhafa verður að tryggja rétt eiganda skipanna. Þess vegna virtist mér, að ný gr. aftan við 27. gr. sé nauðsynleg, til þess að taka fram skýrt og skorinort í eitt skipti fyrir öll, að ákvæði þessara laga um niðurfall skaðabótaskyldu vátryggingarfélagsins að einhverju eða öllu leyti í einstökum tilfellum skerði aldrei rétt veðhafa til innheimtu vátryggingarfjárins hjá félaginu. Ég skal játa, að á meðan ekki er að öllu leyti girt fyrir ýmiskonar óþægindi, sem koma fyrir hjá skipeiganda, vegna þess, að vátryggingarfélagið stakk sér undan þessu eða hinn af hinum ýmsu ástæðum. En með þessu er við höfuðgallanum séð, að rýrt sé veðgildi skipanna til stórtjóns fyrir eigendurna. Þeir standa að öllu leyti mun hallari fæti í allri sinni baráttu, þegar ákvæði laganna gera það að verkum, að þær eignir, sem þeir aðallega hafa að bjóða lánstofnunum til tryggingar fyrir lánum, eru gerðar meira og minna ónýtar með þessum lögum. Þess vegna tel ég, að það sé skýrt tiltekið, að þessar ýmsu undanfærslur, sem gægjast upp hér og þar í frv., eigi þó aldrei við það, að skerða rétt veðhafa til að innheimta vátryggingarféð.

Við 31. gr., í þeim kafla frv., sem ræðir um iðgjöld og því um líkt, hefi ég líka gert brtt. Þar segir svo í 3. málsgr. og 4. málsgr.: „Veita má gjaldfrest á iðgjöldum, en þó eigi frekar en svo, að ¼ hluti þeirra greiðist ávallt fyrirfram fyrir hvern ársfjórðung“. Ennfremur segir í 4. málsgr., að taka má iðgjöld og virðingargjöld lögtaki, og gangi fyrir öllum öðrum veðskuldum í tvö ár frá gjalddaga þeirra að telja. — Ég álít, að það sé óheppilegt að leyfa það, að iðgjaldið safnist saman í 2 ár. Þá er samansöfnuð allt of þung skyldubyrði fyrir eigendur skipanna, og þeim er í raun og veru enginn greiði gerður með því, og ekki fremur fyrir það, þegar það fylgir nú með, að lögtaksréttur hvílir á þessu iðgjaldi. Mér virðist þessum gr. báðum mega koma fyrir í einni málsgr., þar sem ákveðið sé, að vátryggingarfélagið hafi lögveð í skipunum fyrir skoðunarkostnaði og vátryggingariðgjöldum, og að það sé ekki rétt stefna að leyfa að safna saman iðgjöldunum í 2 ár, heldur eigi þessi frestur að vera aðeins eitt ár, og að það sé þar með ákveðið í lögum, að vátryggingarfélagið hafi þetta lögveð ekki fyrir meira en iðgjald eins árs. Ef vátryggingarfélagið lætur meiri skuldir safnast, þá hafi það ekki lögveð fyrir þeim eftir minni brtt.

Við 3l. gr. vildi ég koma að þeirri viðbót, að vátryggingarfélögin séu skyldug til þess, þegar á að bæta eiganda tjón á skipi, að athuga, hvaða veðréttir hvíla á eigninni, og að haga útborgun fjárins eftir því. Það er engin meining í því, að vátryggingarfélagið geti greitt út vátrygginguna á svona eign, án þess að skeytt sé nokkurn hlut um það, hverjir hafi veð í skipinu.

Þá hefi ég stuttlega lýst þessum brtt., sem ég tel vera þær nauðsynlegustu í bili. Ég tel alveg víst, að breyta þurfi ýmsu öðru í þessu frv., en ég hefi sérstaklega beint athyglinni að þessum ákvæðum, einkum þeim miklu afföllum, sem 15. gr. gerir ráð fyrir að verði við greiðslu á viðgerðarkostnaði á skipum. Eins og ég hefi þegar lýst, er gengið svo bastarlega á rétt skipeiganda, að við slíkt er alls ekki unandi. Ég tel, að deildin geti alls ekki látið þetta mál frá sér fara með svona þungum búsifjum í garð þeirra, sem verða trygginganna afnjótandi, enda varð ég þess var í n., að nefndarmenn væru mér sammála um það, að þessi gr. væri sérstaklega athyglisverð. En hér er sem sagt tækifæri til þess að bæta úr þessu á viðunandi hátt, — ég leyfi mér að kalla það hreina og beina frekju þeirra, sem að þessu frv. hafa staðið af hálfu vátryggingarinnar. Till. mínar miða flestar að því að vega dálítið upp á móti þeim tilraunum frv., að hafa allan réttinn vátryggingarfélagsmegin. –Ennfremur í þá átt að gera veðhöfn skipanna og þar með aðstöðu skipeigenda gagnvart lánsstofnunum aðgengilegri heldur en hún yrði með þessu frv. óbreyttu. Ég flutti brtt. um þetta við 2. umr. þessa máls, að þeir, sem þegar væru í vátryggingarfélagi innlendu, annaðhvort í félagsskap eða hefðu skip sín vátryggð í innlendu félagi, skyldu um visst árabil vera undanþegnir skylduákvæðum þessara laga, sem eiga að verða, og ég gekk út frá því, að hv. dm. myndu geta aðhyllzt þetta, gangandi út frá þeirri meginstefnu, að með frv. væri verið að koma því í kring, að öll skip skyldu vátryggð, og það er höfuðatriðið, sem þetta mál snýst um. Ég leit svo á, að aðalþunginn yrði lagður á það, að skip væru vátryggð í innlendum félagsskap, en ekki hjá hvaða félagi, sem þau væru vátryggð. Þessi till. náði ekki fram að ganga, Hér var við þær umr. af mér bent á elzta vátryggingarfélag þessa lands, sem er bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja, sem hefir starfað í 76 ár og hefir komið sér mjög vel fyrir, þannig, að t. d. nú á aðalfundi var 30% endurgreitt af iðgjaldi, og iðgjaldið er þá ekki nema 3%. Þetta félag hefir starfað án hjálpar og íhlutunar þess opinbera í þessi 76 ár. Ég skal ekki neita því, að ég hefi haft það allmjög fyrir augum, þegar ég flutti brtt. við 2. umr. málsins. Það er tæplega undrunarvert, þótt þeir, sem standa í þess háttar félagsskap, telji sér ekki neinn greiða gerðan með því að vera troðið inn í félagsskap eins og hér er á ferðinni, með nýjum lögum og nýjum ákvæðum.

Ég hefi nú bent á nokkur þau atriði, sem hljóta að verða mikill þyrnir í augum manna, sem eiga að fá skip sín vátryggð samkv. þessu frv. Þau mótmæli, sem komið hafa fram frá Vestmannaeyjum í þessu efni, eru fullkomlega skiljanleg. Ég tel, að það væri mjög heppilegt, ef hægt væri í þessu eins og öðru að sætta þá menn við lagasetninguna, sem eitthvað sérstakt hafa í móti nýmælum, og hefi ég hugsað mér að leggja hér fram skrifl. brtt., sem fer fram á það, að innlent vátryggingarfélag, sem starfað hefir í hálfa öld eða meira, sé í 3 ár undanskilið þeirri skyldutryggingu, sem hér um ræðir. Það yrði til þess, að reynsla fengist fyrir því á þessum þremur árum, hvernig hin nýja löggjöf verkaði. Og ef hún reyndist að verða góð, væri þá hægt að sýna þeim, sem standa að bátaábyrgðarfélagi Vestmannaeyja, með sannindum fram á, að þeir hefðu ekki óhag af að tilheyra þessu allsherjar kerfi. En þetta er ekki hægt að segja á þessu stigi málsins, nema með spádómum og ágizkunum. Menn segja sem svo: Hvers vegna hefir þetta félag í Vestmannaeyjum nokkuð á móti því að komast inn á þennan vátryggingargrundvöll? Það er nú hægt að benda á það, að maður, sem vátryggir hjá bátaábyrgðarfélagi Vestmannaeyja bát sinn, þó hann sé eldri en níu ára, hann á ekki von á því, að dregið verði 25% af viðgerðarkostnaði bátsins fyrir þennan aldur bátsins. Ég drep á þetta sem eitt dæmi um það, að það er ekki óeðlilegt, þó að þeir hafi mjög á móti því að verða keyrðir inn í þennan félagsskap. Og þar sem slíkur félagsskapur hefir starfað yfir 70 ár, er ekki sýnd nema rétt viðeigandi tilhliðrunarsemi, þó að samþ. séu ákvæði til bráðabirgða, að það þurfi ekki fyrr en eftir þrjú ár að koma undir skyldutryggingu.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en aðeins lesa upp þá skrifl. brtt., sem ég leyfi mér að leggja fram og ætlast til, að verði ákvæði til bráðabirgða: „Þau innlend vátryggingarfélög, sem starfað hafa 50 ár eða lengur, þegar lög þessi öðlast gildi, skulu undanþegin skyldutryggingu samkv. l. þessum þrjú ár frá gildistöku laganna, enda hafi þau sent Fiskifélagi Íslands tilmæli um undanþágu frá lögunum ekki síðar en 15. ágúst 1938.