21.12.1937
Neðri deild: 58. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í B-deild Alþingistíðinda. (1259)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Héðinn Valdimarsson:

Við 2. umr. greiddi ég ekki atkv. um brtt. við 14. gr., þar sem þessu ½% tillagi verksmiðjanna til jöfnunarsjóðs sveitar- og bæjarsjóða, þar sem þær eru reknar, er breytt í ¼%. Ég skal ekki leggja dóm á, hvort þetta ½% er of mikið eða of lítið og því greiddi ég ekki atkv. En ég álít, að þetta mál eigi að taka upp á öðrum grundvelli, og það mun ég gera á næsta þingi, því deilan um þetta mál mun halda áfram meðan stjórn verksmiðjanna er svo skipuð sem frv. gerir ráð fyrir. Á næsta þingi mun ég bera fram frv. um, að þessi miklu opinberu gjöld, sem eiga að hvíla á ríkisverksmiðjunum, nái einnig til verksmiðja, sem eru einkafyrirtæki. Engin l. munu vera til hér á landi, sem veita einkafyrirtækjum eins mikil hlunnindi og þessi l. En eðlilega leiðin er sú, að einkafyrirtæki greiði, eins og ríkisfyrirtæki, ákveðið gjalti í jöfnunarsjóð, hvar sem þau eru.

Ég þykist vita, að þeir menn innan Sjálfstfl., sem standa hér fremstir í flokki um þessa samvinnu um álögur á síldarverksmiðjur ríkisins, muni verða á móti því, að einkaverksmiðjur komi til með að greiða eins mikið í opinber gjöld. Sú hefir a. m. k. verið reynslan, þegar á átti að herða. Að öðru leyti skal ég ekki fara út í einstök atriði þessa máls.

Það er svo komið með þetta frv., að verði það að l., ætlar form. Framsfl. að hafa síldarverksmiðjur ríkisins sem gísl fyrir samvinnu sinni við Sjálfstfl., og er það miður glæsilegt, að þetta stærsta atvinnufyrirtæki ríkisins eigi að vera leiksoppur á milli þessara tveggja flokka. Mun þá sennilega skapast sú aðstaða fyrir form. Framsfl., að hann getur komið á vinnulöggjöf í samráði við sjálfstæðismenn, enda hefir það alltaf verið draumur hans. — Skal ég svo ekki hafa þessi orð fleiri.