13.12.1937
Efri deild: 48. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (1295)

27. mál, síldarverksmiðja á Raufarhöfn o. fl.

*Frsm. 2. minni hl. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Það eru aðeins örfá orð. Ég hefi litlu að bæta við það, sem hv. frsm. hefir sagt hér um þá sætt, sem hefir orðið í þessu máli, sem ég fagna mjög. En ég vil aðeins geta þess, að sú till., sem ég flutti við 2. umr. og tók þá aftur, hún er að sjálfsögðu tekin aftur með þessari till. Þessi till. gengur lengra. Í fyrsta lagi er tekin hér upp heimild handa Siglufjarðarverksmiðjunum, og gengur hún að vísu skemmra um það, hversu byggja skuli, af ástæðum, sem hv. frsm. tók til greina, sem er í fullkomnu samræmi við það álit, sem er í brtt. á þskj. 2k4, sem fylgdi mínu nál.

Ég tel ekki þörf á að upplýsa frekar í þessu máli annað en það, að þótt mér þyki leitt, að svo geti orðið, að verksmiðjan verði ekki tilbúin á árinu 1938, þá er það af ástæðum, sem að ýmsu leyti eru óviðráðanlegar, eins og það er þegar talið vist af hálfu þeirra manna, sem hafa gert athuganir á málinu, að kostnaðurinn við að breyta höfninni, svo að hún komi að notum fyrir stóra verksmiðju, mun vera allmikill, og einnig mun það verk taka talsverðan tíma. Kostnaður við höfnina hefir verið talinn 100 þús. kr. En með því að heimila þá stækkun á verksmiðjunum á Siglufirði, sem hér er um að ræða, þá er þó nokkur hjálp veitt á næsta sumri, því að það er talið víst, að sú aukning komi til nota á síldveiðitímanum á næsta ári, og er gert ráð fyrir. að hún sé 2400 mál á sólarhring. Hinu ber ekki að neita, að hún getur ekki bjargað smáskipafiotanum, sem síldarverksmiðjan á Raufarhöfn er fyrst og fremst starfrækt fyrir og er tvímælalaust nauðsyn að stækka.

Nú væntum við, að þetta mál geti gengið nokkurnveginn hljóðalaust í gegnum þingið, fyrst samkomulag er fengið um það.

Ég ætla ekki að fara neitt út í afsakanir hv. þm. Vestm. um ríkisreksturinn. Ég sé ekki annað en að hann og hans flokkur sé fullkomlega sammála hinum flokkunum, að það séu ríkisverksmiðjurnar, sem fyrst og fremst verði að leggja kapp á að umbæta og auka af óumflýjanlegri nauðsyn, til þess að gera öllum síldveiðimönnum kleift að losna við afla sinn á sem fljótlegastan hátt og koma honum í peninga. Það er sönnun þess, að það eru ríkisverksmiðjurnar á þessum stöðum, sem geta gert þetta með minnstum kostnaði og verið sú lyftistöng fyrir síldarútgerðina, sem allir eru sammála um, að þarf að koma.