20.11.1937
Efri deild: 31. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í B-deild Alþingistíðinda. (1325)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Hv. þm. Vestm. hefir haldið hér langa ræðu, en ég veit ekki enn, hvort hann er með eða móti frv. eða stefnu þess. Samt gefur ræða hans tilefni til aths. af minni hálfu.

Hv. þm. sagði, að stóreyðsla undanfarinna ára væri runnin undan rifjum sósíalista. Ég gerði í ræðu mínni grein fyrir útgjaldahækkuninni frá því 1926, og hún er nær eingöngu til verklegra framkvæmda og heilbrigðismála, og ég veit, að það er leitun á þm. hér, sem ekki telja sér það til gildis, þegar þeir tala við kjósendurna, að hafa verið með þessum útgjöldum. Þannig eru nú heilindin hjá þeim. Hv. þm. mun komast að raun um, að í þeirri skýrslu er margt, sem nú mundi vera freisting fyrir hann að vera meðmæltur, jafnvel þótt hann hafi ekki verið það á sínum tíma.

Hv. þm. sagði, að sér hefði þótt óviðkunnanlegt, að ég og hv. 9. landsk. hefðum í framsöguræðum okkar gert ráð fyrir, að deilt yrði um þetta frv. milli þingflokka, og hefðum átt að bíða eftir því, að frsm. Sjálfstfl. hér í hv. d. hefði deilt á frv. En eftir þeim undirtektum, sem komið hafa fram í blöðum sjálfstæðismanna og ræðum þeirra, virðist enginn vafi á því, hvernig þessu frv. yrði tekið. Hv. þm. hélt því fram, að það væri blekking ein, að 700 þús. kr. af þessum tekjum ættu að renna til bæjar- og sveitarfélaga, af því að jöfnunarsjóður ætti að taka að sér fátækraframfæri, sem hefir kostað ríkissjóð 250 þús. kr., og út úr fjárlfrv. ætti því að strika 250 þús. kr., sem greiddar hafa verið úr ríkissjóði. Þetta er rétt, en það eru 450 þús. kr. nýjar tekjur, sem koma til bæjar- og sveitarfélaga. Það er því engin blekking, að 700 þús. eigi að renna af þessu til bæjar- og sveitarfélaga gegnum jöfnunarsjóð, þótt hann eigi að taka á sig þessar skyldur, sem áður hvíldu á ríkissjóði. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, þá skil ég ekki, hvernig sjálfstæðismenn geta með nokkrum rökum gagnrýnt þetta frv. og þá stefnu, sem liggur á bak við það, eftir þær till., sem þeir hafa flutt hér á Alþ. Og í raun og veru reyndi hv. þm. heldur alls ekki að gera það eða til að sýna, hvernig sjálfstæðismenn ætluðu að samræma það að hækka fjárlög, en lækka skatta og tolla, jafnframt því sem þeir flytja till., sem mundu hækka halla fjárlaganna úr 900 þús. upp í 4 millj. Það, sem ég vildi spyrja um, er þetta: Hvað á að færa niður á fjárlögunum til þess að mæta þessum útgjöldum? Hvar á að taka peningana? Ef ekki má beint færa niður neinn lið fjárlaganna, hvaða skatta og tolla á þá að leggja á til þess að mæta þessari upphæð? Ég skil ekki í öðru en að hv. þm. sé mér sammála um það, að ef Sjálfstfl. getur ekki bent á lausn í þessu máli, þá sé honum bezt að hætta þessu tali um skatta- og tollaálögur eða hætta við þessar tillögur sínar. Það er ekki nema tvennt til fyrir þá, annaðhvort að koma með frv. um hækkaða tolla og skatta eða hætta við þessar till. Það er ekki hægt að samrýma þetta tvennt á annan hátt. Jafnframt því, að rætt hefir verið um þetta frv., hefir hv. þm. haldið því fram almennt, að það væru sósíalistar, sem hefðu staðið fyrir hækkun útgjalda síðustu ár. Væri ekki nær að halda ræðu um það, hvaða útgjöld sósialista ætti að strika út af fjárlagafrv. til að mæta útgjaldatill. sjálfstæðismanna. Það ætti ekki að spilla fyrir þeim, þótt nefnt væri, hvaða liði ætti að strika út. Það er þetta, sem máli skiptir. Hv. þm. Vestm. sagði, að það þyrfti ekki að efast um hæfni þeirra sjálfstæðismanna til þess að fara með fjármál landsins. Það þyrfti ekki annað en að líta aftur um 10–15 ár og athuga, hvernig fjármálin stóðu þá. En það munu ekki vera nema fáir þeirra manna, sem þá höfðu fjármálastjórnina á hendi, sem nú eiga sæti hér á Alþ., og þótt þeim mönnum, með þeirri stjórn, sem þeir þá höfðu, tækist að leysa þetta sæmilega af hendi, þá þarf hv. þm. ekki að ímynda sér, að það sé nóg að benda á það nú eftir 10–15 ár. Það er öllum ljóst af þeim till., sem sá flokkur ber nú fram, að hann hefir breytt um stefnu í fjármálum; þeir eru orðnir ábyrgðarlausastir allra flokka hér á Alþ., mér liggur við að segja, að kommúnistunum ekki undanteknum.

Um það, hvernig stjórnað var 1924–1927, mætti margt segja. Meðal annars mætti benda hv. þm. Vestm. á það, að peningarnir komu ekki heldur þá af sjálfu sér; það tímabil byrjaði með stórkostlegum tollahækkunum. Og þá gáfu tollarnir verulegar tekjur, meðal annars af því, að þá komu einhver þau mestu góðæri, sem þekkzt hafa, eins og 1924–1925. Það munu flestir kannast við, sem hér eru. Það nær ekki nokkurri átt, að menn með heilbrigða skynsemi fari að bera þau ár saman við árin 1935–1937, þau ár, sem okkar aðalútflutningsmarkaður lokast svo að segja gersamlega. Um tolltekjur 1925–1937 vil ég benda á, að verðtollur 1925 var um 3 millj., en 1936 var hann rúm ein millj., eða helmingi minni; vörutollur 1925 var yfir 2 millj., en 1936 var hann rúm ein millj. Þessi stórkostlegi munur stafar af því, að árið 1925 hafði þjóðin efni á því að kaupa margskonar óþarfa inn í landið, sem gaf stórkostlegar tolltekjur, sem við svo höfum orðið að neita okkur um árin 1935–1937, ekki vegna þess að það sé svo slæm stjórn þá, heldur vegna þess að gjaldeyrir okkar er svo takmarkaður, að við getum lítið keypt annað en lífsnauðsynjar, vegna þess, hve saltfiskútflutningurinn hefir minnkað mikið á þessum árum.

Það er sama, hvar er niður borið, sjálfstæðis menn geta ekki komizt undan ábyrgð sinni með því að vísa 10–15 ár aftur í tímann. Þeir verða að gera grein fyrir því, hvernig þeir ætla að samræma till. sínar, aukin útgjöld og lækkandi álög á almenning. En svo vita þeir stjórnarflokkana fyrir till. þeirra, sem ganga miklu skemmra, og það er þetta, sem er aðalatriði málsins.

Hv. þm. sagði, að ég væri farinn að sjá, að ekki væri hægt að auka beina skatta í það endalausa. Ég hygg, að ég hafi ekki gefið tilefni til þess, að menn héldu, að ég liti svo á, að það væri hægt að stórauka tekjur ríkissjóðs með því að hækka beina skatta. Það sama er að segja um ummæli hans viðvíkjandi því, að ég áliti innflutningshöftin geta bjargað öllu. Þau mundu engu bjarga, ef við hefðum engan útflutning. Það er mjög takmarkað, sem hægt er að gera með innflutningshöftum einum, en þau eru úrræði, sem nauðsynlegt er að grípa til, til að afstýra þeim vandræðum, sem af lokun saltfisksmarkaðarins leiða.

Hv. þm. sagði, að ég þyrfti ekki að vera upp með mér yfir því, hvernig sú fjármálapólítík, sem fylgt hefði verið undanfarið, hefði komið niður á atvinnuvegunum. Má vel vera, að ég hafi ekki ástæðu til þess, en ég vil hiklaust segja, að það hefir verið betra fyrir atvinnuvegina, ekki sízt sjávarútveginn, að ekki hefir verið hætt að styðja allar framkvæmdir, jafnvel þótt ríkissjóður verði þá að afla nýrra tekna með tollum og sköttum, heldur en að allt hefði verið látið eiga sig, eins og virtist vera meining hv. þm. annað veifið. Meginið af hinum auknu útgjöldum undanfarin ár hefir gengið til þess að styðja atvinnuvegina, og allar greiðslur, sem nú eru fyrirhugaðar, ganga til hins sama. Til hvers fer afnám útflutningsgjalds á saltfiski eða fiskimálasjóður nema til þess að styðja útveginn? Sú upphæð, sem ætluð er til fjárpestarvarna og til ráðstafana til að styrkja bændur á fjárpestarsvæðinu, er sömuleiðis styrkur til atvinnuveganna, og tillagi til húsbygginga í sveitum er líka varið í sama skyni. Það er sama, hvar borið er niður, allar þær till., sem þetta frv. er einn liður í, miða að því að styrkja atvinnuvegina. Ég fullyrði, að svo lítið kemur beint niður á framleiðsluna af þessum nýju gjöldum, að það borgar sig fyrir hana, að þau verði lögð á.

Sú stefna sjálfstæðismanna, að bera fram útgjaldatillögur án þess að benda annaðhvort á niðurskurð á fjárlögum eða nýjar tekjur, getur ekki staðizt nema hafa eigi þá aðferð, sem kom fram í umr. í hv. Nd. hjá formanni flokksins, að óhætt sé að auka útgjöldin; tekjurnar komi af sjálfu sér. Það hefir e. t. v. verið meiningin, að halda því fram sem flokkssjónarmiði, að ekki væri þörf að hugsa um útgjöldin, ef frumvörpin væru réttilega samin. Þetta sjónarmið var mikið rætt í hv. Nd., og því haldið dyggilega fram, að ef frv. aðeins væru til styrktar atvinnuvegunum, þá myndu peningarnir koma af sjálfu sér.

Ég ætla ekki að fara út í að svara einstökum atriðum í ræðu hv. þm. Vestm., en benda á, að aðalatriði þessa máls er að koma á samræmi milli tillaga sjálfstæðismanna og mótþróa þeirra gegn tekjuöflunartillögum stjórnarflokkanna. Sérstaklega vildi ég vita, hvaða atriði í fjárlögunum ætti að fella niður til þess að mæta þessum 4 millj. kr. útgjöldum.