11.12.1937
Efri deild: 47. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í B-deild Alþingistíðinda. (1370)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég tel, að ekki verði hjá því komizt að svara nokkuð sumu af því, sem komið hefir fram við umr. um þetta mál. Vil ég þó sem minnst lengja umr.

Ég vil þakka hv. 6. landsk. (ÞÞ) fyrir það, að hann hefir lýst því yfir, að hann taki aftur till. sína um niðurskiptingu benzínskattsins, og sömuleiðis þakka ég öðrum hv. þm., sem hafa haft í hyggju að flytja slíkar till., að þeir hafa fallizt á að láta þær ekki koma fram. En ég varð fyrir vonbrigðum, að hv. þm. Vestm. vildi ekki taka aftur sína till. Vil ég þess vegna skora á hv. þdm. að fella hans till., til þess að þetta geti komið allt til athugunar í heild, eins og ég lagði til. Því að ég legg mikla áherzlu á, að ekki verði spillt því samkomulagi, sem reynt hefir verið að hafa um afgreiðslu þessara fjárveitinga yfirleitt, þó aldrei nema þessi vegur verði settur inn í l. um tekjuöflunina. Þar að auki lít ég svo á um Vestmannaeyjakaupstað, ef hann hefir 6 þús. kr. fjárveitingu til vega, þó að kallað sé til ræktunarvega, að hann, miðað við aðra kaupstaði og enda líka önnur kjördæmi, megi vel við una. Þetta er mín persónulega skoðun.

Hv. 1. þm. Reykv. minntist á það, að þó að sínar till. yrðu samþ., þá myndi ekki þurfa að kvíða því, að tekjur samkv. frv. reyndust ekki eins og áætlað er. Ég skal upplýsa það, sem hann kannske ekki veit, af því að hann var ekki viðstaddur á fjhn.fundi, — kannske mín vanræksla —, að áætlunin í frv. er miðuð við innflutning 1936, og við höfum alveg miðað við, hvernig viðskiptagjaldið er sundurliðað það ár í flokka, og eigum því að geta gert nákvæmar áætlanir, miðað við næsta árs verð elns og 1936. Það er ekki gott að segja, hvort meira eða minna verður innflutt. En árið 1936 var töluverður innflutningur, þar sem allmikið var framkvæmt í mörgum greinum, og fyrst er varlegra að tefla á tæpara vaðið en miða áætlanirnar við það. Ég mun ekki fara almennt út í að ræða það, sem hann hélt fram um málið, sérstaklega atriði, sem við margoft höfum rætt um hér áður í sambandi við önnur mál, og mun ég þess vegna ekki segja neitt um hans sjónarmið yfirleitt.

Þá er það um brtt. á þskj. 239; þær hafa verið aðaltilefni til aths. frá minni hálfu. Forsrh. hefir tekið af mér ómakið að verulegu leyti, er snertir umr. um ávaxtainnflutning og ávaxtatoll. En ég vil þó endurtaka það, sem hann sagði, sem er aðalatriði málsins, að ávextir eru seldir hér nú á 3 kr. kg. Ég hygg heppilegt, að af þessum 3 kr. — menn taki vel eftir — er viðskiptagjaldið 22 aurar, þannig að það kemur úr hörðustu átt, þegar því er haldið fram, að sú vöntun sem sé á ávöxtum, sé fyrst og fremst að kenna tollinum. Ég hefi fengið upplýsingar frá Kaupfélagi Reykjavikur, að innkaupsverð sé tæplega 1 króna kg. og viðskiptagjaldið 22 aurar á kg., og sú hækkun, sem farið er fram á, er 5 aurar á kg. Ég held, að hv. 2. landsk. hefði ekki kippt sér upp við það, þó ávextir hækkuðu um á aura á kg., ef það hefði runnið í vasa kaupmanna, en það er allt annað, þegar það á að renna í sameiginlegan sjóð landsmanna. Hv. þm. Vestm. sagðist vilja ámæla mér fyrir það, að ég hefði ekki viljað gefa eftir tollinn af ávöxtunum, eins og heimilt er samkv. gildandi lögum. Viðskiptagjaldið á nú að skýla. Ég skal segja þessum hv. þm. það alveg hiklaust, hvernig sú eftirgjöf hefði farið, ef ég hefði notað þá heimild, — ekki til neytenda, heldur til þeirra, sem selja ávextina, því sú verðálagning. sem þeir hafa á þessari vörutegund, sýnir, að þeir fara eins langt og þeir komast, og þeir komast þá vitanlega það langt eða skammt um leið og tollurinn hefði verið felldur, enda er það þannig, að tollurinn mun þá renna í þeirra eigin vasa, jafntakmarkaður og innflutningurinn er og sjaldan flutt inn. Kaupmenn leggja svo á í skjóli þess, að tollarnir séu svo háir, alveg án þess að taka nokkurt tillit til, hvað tollurinn er lítill eða mikill, og svo eru gamlir vörutollar frá gömlum tíma. Stjórnarandstæðingar bera mikinn kviðboga fyrir því, að af þessu frv. leiði aukna dýrtíð, og því er ekki hægt að neita, að tollurinn, þó að hann sé ekki hærri en samkv. frv., mun sennilega hafa þann árangur í för með sér að hækka nokkuð vöruverðið. En ég vil bara benda þessum þm. á, ekki sízt 2. landsk., að hér undanfarið hefir verið gerð í þessum bæ ráðstöfun í verzlunarmálum, sem hefir sparað bæjarbúum áreiðanlega meira heldur en nemur allri tollaálagningu síðustu árin samtals. Það eru þær ráðstafanir, sem bæjarbúar framkvæmdu sjálfir, og síðan framkvæmt með stuðningi stj. að stofna Kaupfélag Reykjavíkur. Verðlagið er nú álíka hátt eins og meðalverðlag hjá kaupmönnum var 1934. Nú vita allir, að vörur eru í innkaupi mun hærri nú en þá. Þetta þýðir því stórkostlegan sparnað fyrir bæjarbúa í þessu efni. Nú skildi maður hafa haldið. að það hefði komið fram mikill áhugi frá þeim aðiljum, sem hv. 2. landsk. hefir nú mest samband við, að þessu máli yrði framgengt, og fólkinu yrði þannig forðað frá verðhækkun, — ekki verðhækkun, sem rennur til ríkissjóðs og þarflegra fyrirtækja, heldur til einstakra manna. En það er svo fjarri því, að svo sé. Á mig persónulega hefir ekki verið deilt meir í flokksblöðum hv. 2. landsk. heldur en einmitt fyrir það, að þetta kaupfélag, sem hefir lækkað verðlagið, skyldi geta fengið innflutningsleyfi. Þannig er þá í framkvæmdinni þessi mikli áhugi hjá hv. 2. landsk. og hans flokki að forða fólkinu við aukinni dýrtíð. Þá vil ég ennfremur benda á það í tilefni af till. á þskj. 239, að undanþiggja kaffið þeirri hækkun, sem farið er fram á og svo er talað fyrir af miklum fjálgleik af 2. landsk., og skildist mér helzt að flutt væri fram sem réttlætismál húsmæðra þessa lands. Ég vil minna hv. þm. á það, að ef þessi tollhækkun á kaffi, sem gert er ráð fyrir með þessu frv., verður samþ., verður tollurinn jafnhár og þegar núv. stj. tók við völdum, og ég vil benda þm. á, að á því herrans ári 1933 — frekar en 1932 — hjálpaði þessi þm. til þess, eða a. m. k. hennar flokkur, að leggja á 25% gengisviðauka á kaffitollinn, sem við afnámum 1934, en þær hækkanir, sem nú verða vega hann upp þannig, að nú er tollurinn eins og hann var. (MJ: Er hann ekki heldur hærri?). Munar kannske einum eyri. (ÞÞ: Ekki meira?). Það hygg ég ekki. Ég hefi látið reikna það út í ráðuneytinu, en það eru nærfellt nákvæmlega sömu tollar, þannig, að ég fyrir mitt leyti tek það ekki alvarlega, þó að hv. 2. landsk. deildi nú á okkur fyrir það, að við leggjum á þessu nauðsynjavöru húsmæðra. Við vitum allir, að það væri æskilegt að geta komizt hjá slíkri hækkun, þó að mér sé ósárara að hækka tollinn á kaffinu fremur en mörgu öðru.

Ég vil svo að lokum taka það fram, að mér finnst það ekki réttlátt, þegar stjórnarandstæðingar tala um hækkun tolla til ríkissjóðs um 2 millj. og 600 þús. kr., og það er vegna þess, að um 400–500 þús. kr. fara beint til sveitar- og bæjarfélaga, sem allir eru sammála um, að þurfi að taka þann toll einhversstaðar. Og eins hitt, að ekkert tillit er tekið til þessa við umr. málsins, að um leið og við samþ. frv., höfum við afhent sjávarútveginum nær því allt útflutningsgjaldið, fellt niður af saltfiskinum, og meiri hl. af því, sem þá er eftir, fer til nauðsynlegra framkvæmda fyrir þennan atvinnurekstur.