11.12.1937
Efri deild: 47. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1032 í B-deild Alþingistíðinda. (1379)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Þessar umr. gefa ekki tilefni til að fara að hefja hér langar umr. um þetta mál, þó að það væru 2–3 atriði, sem mér þykir rétt að svara, sem komu fram í ræðum beggja þeirra hv. þm., sem standa að þeirri till., sem ég minntist á áðan. Í raun og veru eru hér til í landinu þau vítamín, sem við höfum í ávöxtum, ef þeir eru óskemmdir og ekki gamlir, eins og og þeir eru oft á vorin. Og þó að ég sé enginn sérfræðingur í þessum efnum, þá er það víst nokkurn veginn vitanlegt hverjum leikmanni, að í ýmsum garðávöxtum, sem hér eru ræktaðir á seinni árum, eru samskonar bætiefni, og meira að segja betri og meiri heldur en í aðfluttum ávöxtum, af því að það er hægt að fá þessa ávexti nýja seinni part sumars og halda þeim óskemmdum fram eftir vetrinum. Það, sem mér finnst hafa upplýstst í þessum umr. og komið hefir fram hjá báðum þessum aðiljum, er það, að mataræði okkar hafi breytzt í seinni tíð á þann hátt, að ekki sé notuð eins mikið þessi innlenda fæða og ætti að vera. Og þar sem því er þannig varið, eins og ég hefi bent á með rökum, að almenningur í landinu getur aldrei náð til þessara innfluttu ávaxta og að þessi matvara kemur ekki inn á nema eitt heimili af hverjum 100 eða kannske 200 meðal fátækra borgara í þessum bæ, þá finnst mér, að læknarnir ættu, í stað þess að reka þessa „agitation“ fyrir ávaxtakaupum, að leggja sig meira fram en þeir hafa gert til þess að örva fólk til að rækta meiri garðávexti og bæta mataræðið á þann hátt. Og ef þessir menn vilja vel með því, sem þeir eru að tala um, ætti þeirra „agitation“ fyrst og fremst að beinast í þessa átt, því þetta er það, sem getur komið að gagni öllum almenningi í landinn, en hitt ekki. Hinsvegar held ég því fram, að þótt ákjósanlegt væri að flytja inn útlenda ávexti, þá sé þetta mál af sumum læknum og sumum öðrum rekið í agitations augnamiði, en að hægt sé að færa sönnur fyrir því, að það geti aldrei gripið út til alls almennings í landinu. Ég álít það líka vera sterka sönnun fyrir þessu, að ekki skuli vera reynt af þessum sömu mönnum að beina fólki inn á almennari og heilbrigðari braut í þessum málum. Það finnst mér, að þeir ættu að gera, því þetta er stórt mál, og er mikil skömm að því, hvað litið hefir verið gert í þessum efnum hér á landi, samanborið við það, sem erlendir læknar hafa gert. T. d. eru Danir að koma af stað rannsókn á sínu mataræði, sem kostar fleiri hundruð þús. og kannske millj. kr., til þess að fá það upplýst, hvaða fæðutegundir, sem þeir hafa yfir að ráða, eru heppilegastar. Þetta er sú vinna, sem læknar á Íslandi ættu að leggja fram, en ekki „agitation“ fyrir innflutningi suðrænna ávaxta, sem almenningur getur aldrei veitt sér, og gera þannig sumt af fólki hálf-„hysteriskt“ yfir þessari fæðutegund.

Viðvíkjandi þeim ummælum, sem ég hafði eftir dr. Skúla Guðjónssyni, er það að segja, að þau geta ekki farið milli mála hjá mér, því þau eru í samræmi við það, sem kom fram hjá honum í samtali við Morgunbl., að okkur væri á mörgu meiri þörf en að flytja inn ávexti; það væri að vísu gott að hafa appelsínur, en við þyrftum þó sérstaklega sítrónur. Og ég get bætt því við, að það, sem sérstaklega vakti athygli þessa sérfræðings, var umtalið um þetta og áhugaleysi fyrir mataræði almennt, sem hann taldi miklu meira máli skipta.

Það hefir verið minnzt á það af þeim lækni, sem hér á sæti í d., að það væri erfitt að hafa ekki ávexti handa sjúkum mönnum. Nú hefir verið gerð sú undanþága, að þeir, sem hafa læknisvottorð um, að þeim sé nauðsynlegt að hafa ávexti, geti fengið þá innflutta. Ég minnist á þetta í sambandi við það, sem hv. 2. landsk. þm. sagði um þá menn, sem notuðu sér aðstöðu sína til þess að fá flutta inn ávexti, og það, sem sagt hefir verið í sambandi við „agitationina“ viðvíkjandi innflutningi á ávöxtum, sem alls ekki er rétt að láta liggja á milli hluta og vitanlega hefir verið tekið allt of vægt á af þeim, sem henni hefir verið beint gegn, en það eru stjórnarflokkarnir. En ég hefi aldrei séð ástæðu til þess, þó að ég gæti talið upp heila runu af andstæðingum mínum í stjórnmálum, sem hafa talið sér nauðsyn á að hafa ávexti og fengið læknisvottorð, að gera það og ég mun ekki ótilneyddur fara að nefna nöfn í því sambandi; en ég fullyrði, að það eru aðallega þeir, sem hafa fengið þessi leyfi. En þetta hefir ekki verið sparað af okkar andstæðingum. Hvað mig snertir, þá munar mig vitanlega ekki svo mikið um einn kepp í sláturtíðinni, eins og það er orðað í sveitinni. En þessum rógi er haldið uppi almennt. Það var m. a. gert að stóru blaðamáli, að einum framsóknarmanni, Runólfi Sigurðssyni, sem giftur er enskri konu, var sendur hingað upp einn kassi, án þess að spyrja hann um það. Þetta var gert að rógsmáli af þeim sömu mönnum, sem hafa fengið undanþágu vegna lasleika.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að ræða þetta mál. Viðvíkjandi kaupfélaginu er það að segja, að það selur venjulega vörur nálægt því, sem þær eru seldar á almennum markaði, og gefur svo afslátt af vöruverði til sinna félagsmanna, eftir því sem ágóðinn verður. Það er almenn skoðun hjá þeim, sem standa undir þessu fyrirtæki, að ekki sé hægt að gera ávexti að vöru fyrir almenning í landinu.

Það væri óskandi, að ef þessi orðaskipti gætu borið einhvern árangur, sem ekki er líklegt, þá væri það sá árangur, að það vaknaði meiri áhugi meðal læknastéttarinnar, ekki fyrir meiri innflutningi ávaxta, heldur fyrir því, að beina almenningi inn á þá braut, að nota þær fæðutegundir, sem til eru í landinu og venjulega eru góðar. Það væri mál, sem snerti meir allan almenning en þessi „agitation“ fyrir innflutningi ávaxta, sem aldrei getur orðið almenningi að gagni.