14.12.1937
Neðri deild: 49. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í B-deild Alþingistíðinda. (1386)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Einar Olgeirsson:

Hæstv. fjmrh. byrjaði ræðu sína með því að tala um, að fyrir síðustu kosningar hefðu ekki verið gefnar neinar yfirlýsingar í Framsfl. og stjórnarflokkunum um, að þeir væru andvígir því, að meiri tollar væru lagðir á þjóðina. Ég vildi gjarnan mega spyrja hæstv. fjmrh., hvort stefnuskrá Framsfl. hafi ekki gilt við síðustu kosningar, hvort hún hafi verið numin úr gildi sérstaklega fyrir kosningarnar. Ég fyrir mitt leyti veit ekki betur en að stefnuskrá Framsfl. standi alveg eins óhögguð jafnt við síðustu kosningar eins og hún stendur ennþá, og Framsfl. sé í henni, eins og hann hefir alltaf verið, á móti tollum á nauðsynjavörum almennings. Og ég veit ekki til þess, að neinar sérstakar ráðstafanir hafi verið gerðar til þess, að kosningarnar síðustu færu fram undir einhverri annari stefnuskrá en þeirri, sem Framsfl. hefir búið til og barizt undir og unnið sína sigra undir.

Hæstv. fjmrh. byrjaði ennfremur með því að tala um, að það væri spurningin, hvað langt mætti ganga í að leggja skatta á þá ríku áður en gripið er til hins, að leggja á nauðsynja vörur þjóðarinnar. Ég verð að segja það, að ef spurningunni hefði verið stillt þannig í upphafi við samningu fjárl. þá hefði ekki verið gengið sérstaklega langt. Eins og allir vita, þá eru þær tekjur, sem fást með beinum sköttum, ekki nema rúmar 2 millj., ef ég man rétt. Síðan koma óbeinir skattar og tollar. Annars var það ekki þannig, sem ég tók spurninguna, heldur hvort nauðsynlegt sé að hækka tollana frá því, sem var á síðasta þingi. Ég var ekki að tala um hitt, að það hefði átt á þessu þingi að afnema alla tolla, sem fyrir voru, eða þvílíkt. Svona barðar voru ekki kröfur mínar. Spursmálið, sem lá fyrir, var að þyngja ekki þá bagga, sem voru bundnir áður. Og það er í þessu, sem ég álít, að stjórnarflokkarnir hafi hagað sér ranglega.

Hæstv. fjmrh. kom í þessu sambandi ofurlítið inn á pólitík í löndunum hér í kring, m. a. í Frakklandi. Ég vildi óska þess, að fjmrh. vildi taka upp að berjast fyrir því að fylgja öðrum hliðum af stefnu frönsku alþýðufylkingarinnar heldur en bara í tollamálum. (Fjmrh.: En sú hlið?) Það er nú það eina, sem hæstv. fjmrh. virðist finna til fyrirmyndar í því, sem þessi ríkisstj. í Frakklandi hefir gert. Hann hefir tvisvar sinnum á þessu þingi minnzt á það. Ég vil upplýsa hæstv. fjmrh. í þessu sambandi, ef hann ekki skyldi vita það áður, að fjármálapólitík frönsku ríkisstj. hefir einmitt sætt skarpri gagnrýni af hálfu kommúnista í Frakklandi. Kommfl. franski hefir barizt fyrir því, að öllu innheimtukerfi Frakklands yrði breytt og skipulagi fjármála gerbreytt. Ég veit, að hæstv. fjmrh. er alveg sérstaklega klókur maður í öllum innheimtuaðferðum og kann vel að koma lagi á ýmislegt, sem snertir ríkisrekstur. Ég vildi þess vegna mælast til þess, að hann kynnti sér núv. fyrirkomulag það, sem er á innheimtu skatta og tolla í Frakklandi. Það er svo úrelt og óþolandi vitlaust, sem frekast er hægt að hugsa sér. Það er svo langsamlega miklu verra en hér, þegar hann tók að sér að endurbæta það. Kommúnistar í Frakklandi hafa krafizt þess, að einmitt þarna væri gersamlega breytt um og allri innheimtu í Frakklandi á tollum og sköttum komið inn á allt aðra braut, og um leið þeir ríku látnir borga. Franska stj. hefir ekki orðið við þessari kröfu. Hún hefir ekki þorað að láta til skarar skríða. Það er alveg rétt, að þrátt fyrir það, þótt franska alþýðufylkingin hafi sýnt sig þetta lina í þessu efni, hafa kommúnistar ekki viljað fella hana. Og ég hygg að þeir hafi gert rétt í því. En það er allt annað en að þeir styðji þá fjármálapólitík, sem hún nú rekur. Hitt vil ég benda hæstv. fjmrh. á, að frönsk alþýða og franskur verkalýður hefir fengið ýmislegt fram með sínum áhrifum á núv. ríkisstj.; og væri það framkvæmt á Íslandi, mundi bæði Alþfl. og Framsfl. — a. m. k. fylgjendur hans — líta allt öðrum augum á þá stjórn. M. a. eru þær stórfenglegu þjóðfélagslegu tryggingar, stytting vinnudagsins, 40 stunda vinnuvika. Og það er fjöldinn allur af réttindum, sem frönsk alþýða hefir orðið aðnjótandi einmitt vegna þess, að alþýðufylkingarstjórn hefir setið að völdum, en Íslendingar hafa farið á mis við hjá núv. ríkisstj. Það er því vert fyrir hæstv. fjmrh. að athuga einmitt þessi spursmál, þegar hann er að vitna í það, hvað franski kommúnistaflokkurinn og ríkisstj. gera. — Ennfremur vil ég benda á það í þessu sambandi, að franska ríkisstj. hefir tekið mjög skarplega á því, sem nú hefir verið undirbúið á móti lýðræðinu í Frakklandi, þeim samsærum og uppreisnum, sem þar hafa farið fram. Og ég vil aðeins, úr því franska ríkisstj. hefir borizt í tal, benda hæstv. fjmrh. á, að þess væri ekki vanþörf, að hin íslenzka ríkisstj. tæki hana sér ofurlítið til fyrirmyndar hvað það snertir.

Svo að ég víki nú að því frv., sem fyrir liggur, þá kom ekki eitt einasta atriði fram í ræðu hæstv. fjmrh., sem benti til þess, að hann eða þeir, sem standa að samningu þessa frv., hafi reynt að fara aðrar leiðir til þess að afla tekna í ríkisjóð heldur en þessar leiðir, sem hér er um að ræða.

Út af þeim orðum, sem hæstv. fjmrh. lét sér um munn fara, að ég væri hér með lýðskrum, vil ég skjóta þeirri spurningu fram, hvort það hafi verið lýðskrum af hálfu þm. Framsfl., þegar þeir á tveim þingum í röð báru fram frv. um stóríbúðaskatt, — og var það lýðskrum af hálfu alþýðuflokksmanna, þegar þeir 1931 báru fram sitt mikla frv. um 11 millj. kr. til atvinnuaukningar í landinu? Ég held, að hæstv. fjmrh. ætti því að stinga hendinni í sinn eigin barm áður en hann fer að tala um lýðskrum hjá okkur kommúnistum. Það er hart, ef það, sem form. Framsfl. bar hér fram á þingi fyrir nokkrum árum, telst lýskrum, þegar það kemur frá kommúnistum. Hæstv. fjmrh. og hans flokkur mega ekki skipta svona fljótt um frá því þeir eru í stjórnarandstöðu og eru að berjast rétt fyrir kosningar og þangað til þeir eru komnir í stjórnarsess. Og ég held, að hæstv. fjmrh. verði að sætta sig við það, að það, sem hann og hans flokksmenn gerðu í stjórnarandstöðu, sé öðrum leyfilegt líka, og að hann verði því að hætta að kvarta yfir því, þó að við kommúnistar hreyfum hér á Alþ. samskonar baráttu og Framsfl. og alþfl. hafa háð hér áratugum saman, sem ég vænti, að hæstv. ráðh. vilji ekki meina, að hafi verið lýðskrum eitt.