21.12.1937
Neðri deild: 56. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1045 í B-deild Alþingistíðinda. (1392)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Út af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, skal ég upplýsa það, að skattstiginn í 2. gr. frv. er nákvæmlega eins og hann er nú í gildandi l. um þetta efni. Misskilningur hans mun liggja í því, að hann bar saman við skattstigann í l. frá 1935, en honum var breytt með l. 1936, þegar hátekjuskatturinn var lögleiddur, og þá var stighækkunin orðin svo mikil, að ekki var hægt að hækka hana. Ennfremur vil ég upplýsa í sambandi við niðurlag 3. gr., sem hv. þm. gerði aths. við og sagði, að samkv. því ætti að innheimta toll af vörubirgðum, sem fluttar eru inn fyrir áramót. Þetta er misskilningur, því það stendur í frv., að einnig skuli greiða gjöld af vörum, sem aðflutningsgjöld hafa ekki verið greidd af, þó að þær séu komnar til landsins. Það er ekki gert ráð fyrir, að gjöld séu tekin af vörum, sem búið er að borga, heldur þeim vörum, sem liggja á afgreiðslum og ekki hafa verið teknar. Þetta er gert til þess að fyrirbyggja það, sem oft hefir verið leikið undanfarið, þegar tollar hafa verið til meðferðar í þinginu, að menn flyttu vörur til landsins til þess að losna við tollgreiðslu. Þetta er ekki hægt að fyrirbyggja með öllu með innflutningshöftunum, því að menn geta fengið vörur settar á skipaafgreiðslurnar, þó að þeir hafi ekki innflutningsleyfi. Það er sanngjarnt að sekta alla, sem þetta gera, og þess vegna hefir þetta ráð verið tekið.