20.12.1937
Efri deild: 53. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1151 í B-deild Alþingistíðinda. (1478)

124. mál, alþýðutryggingar

Þorsteinn Þorsteinsson:

Því, sem ég hefi sagt um það frv., sem hér liggur fyrir, hefir ekki verið andmælt að neinu leyti. Get ég því sparað mér að tala mikið meira um það. En það, sem gefur mér tilefni til að standa upp, er það, að hv. 1. þm. N.-M. þaut eins og örskot upp úr sæti sínu og bar á okkur sjálfstæðismenn, að við hefðum unnið illa og slælega á þessu þingi. Þessu verð ég algerlega að mótmæla. Hv. þm. Vestm. hefir svarað þessu að miklu leyti, en ég verð að segja fyrir mitt leyti, að ég þykist hafa unnið nú að nefndarstörfum og öðrum störfum í þinginu fullkomlega á við flesta hv. þm. úr Framsfl. Ég vil minna þennan hv. þm. á, að ég hefi unnið nú í haust með honum í einni n., og er hann þar formaður. Ég minníst eins máls, sem kom þangað og lá hjá n. án þess að nokkur afgreiðsla fengist í mánaðartíma, þrátt fyrir endurteknar óskir mínar um afgreiðslu. Hv. þm. er ekki enn farinn að gefa út neitt nál. um það mál. Þetta er frv. um breyt. á l. um lax- og silungsveiði. Ég býst því við, að svo fari, að málið verði ekki afgr. sem l. frá þessu þingi, vegna þess trafala, sem það hefir orðið fyrir undir hans stjórn. Svona voru vinnubrögð hv. þm. í þessu máli. Þeim er aldrei ráðlegt, sem í glerhúsi búa, að kasta grjóti.