23.10.1937
Neðri deild: 9. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í C-deild Alþingistíðinda. (1735)

25. mál, niðursuðuverksmiðjur

*Héðinn Valdimarsson:

Ég hygg, að fleirum en mér hafi þótt vera nokkuð mikið fjaðrafokið hjá hv. þm. G.-K. um þetta litla frv. og hann hafa komið nokkuð víða við. En ég vil reyna að halda mér að málinu sjálfu. Það er nú nokkuð síðan byrjað var á að gera tilraunir um niðursuðu á fiski af fiskimálan., sem hvergi sést minnzt á í frv. Síðan hafa komið fram frv. frá Alþfl. um viðreisn sjávarútvegsins, m. a. með niðursuðu afurðanna. Það leit ekki út fyrir, að Sjálfstfl. vildi styðja þá viðleitni, en kemur nú með frv. í sömu átt, en þó þannig, að hann hefir vitanlega sett sinn sérstaka svip á það. Það er gleðilegt, að Sjálfstfl. vill sjá að sér og sér, að nauðsynlegt er að gera eitthvað fyrir sjávarútveginn. En ég verð að segja, að ég efast um, að þetta frv. geri nokkurt gagn. Við verðum að athuga, að það er ekki nóg að reisa verksmiðjur. Fyrst og fremst verður að ákveða, hvað eigi að sjóða niður og hvar eigi að fá markað fyrir vörurnar. Það undirbúningsstarf hefir fiskimálan. m. a. verið að vinna. Við skulum taka t. d. rækjuiðnaðinn. Fiskimálan. kom á fót rækjuverksmiðju á Ísafirði, sem nú á að geta unnið fyrir sér. En það hefir þó komið í ljós, að til þess að þessi iðnaður geti verið góður atvinnuvegur, þarf fleiri vörutegundir, og það mál hefir fiskimálan. verið að rannsaka. Í Noregi er niðursuðuiðnaðurinn gamall og reyndur, svo að ekki er að búast við, að við getum staðið jafnfætis Norðmönnum þar. — Það, sem hv. þm. G.-K. virtist aðallega eiga við, fiskibollurnar, er einmitt sá þáttur niðursuðuiðnaðarins, sem erfiðast er að byrja á hér, vegna þess að hann krefst ódýrrar mjólkur, en hana höfum við ekki. Þá er síldin, og svo ýmislegt smærra, sem við höfum snúið okkur að. En þó að þetta væri allt hægt, eru þessi mál ekki komin á þann rekspöl, að menn þori að leggja fé í þau. Þess vegna er bezt að gera tilraunir og halda áfram að reyna að undirbúa, þetta.

Það er enginn vafi á því, að niðursoðinn ufsi er mikil markaðsvara í nágrannalöndum okkar, og hann er stundum seldur fyrir nokkuð hátt verð. En það hefir ekki verið rannsakað, hversu mikill markaður fengist fyrir sjólax. Þar koma til greina tollmúrar erlendis og aðrir örðugleikar. — Ég álít, að það, að gera ráð fyrir, að hér rísi upp hver niðursuðuverksmiðjan á fætur annari af hálfu einstaklinga, sé bara vitleysa.

Ég mun ekki leggja á móti því, að frv. gangi til 2. umr., en ég vil beina því til sjútvn., að betra væri að kynna sér rækilega óskir manna í þessu efni, áður en farið er að samþ. ákvæðin.