27.10.1937
Neðri deild: 12. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í C-deild Alþingistíðinda. (1754)

25. mál, niðursuðuverksmiðjur

*Sigurður Kristjánsson:

Mér þykja fimm mínútur stuttur tími, en mun þó reyna að láta mér þær nægja. Það er ekkert nýtt, þó að reynt sé að þvæla svo um frv. okkar sjálfstæðismanna, og það við 1. umr., að þau tefjist vegna málskrafs. En mig undrar það samt, hvað umr. um frv. þetta hefir borið langt af leið, og mun þó hv. síðasti ræðumaður hafa sett met í því efni.

Ég ætla að nota tækifærið til að leiðrétta tvær villur, sem komu fram í ræðu hæstv. fjmrh. Hann taldi framlag ríkisins til fiskveiðasjóðs með þeim till. um útgjaldaaukningu, sem við sjálfstæðismenn bærum fram. Þetta er ekki rétt. Samkv. núgildandi lögum á ríkissjóður að greiða fiskveiðasjóði eina millj. króna. Þessi greiðsla hefir ekki enn farið fram, en ég tel víst, að ríkissjóður muni greiða þessa upphæð. Annars er gert ráð fyrir því, að fiskveiðasjóður fái að nokkru tekjur sínar af útgerðinni. Ef útflutningsgjaldið verður afnumið, er tilætlunin, að nokkur hluti þess verði tekinn upp aftur sem tillag til fiskveiðasjóðs.

Annar liður í útgjaldareikningi hæstv. ráðh. var till. um byggingu á nýju landhelgisgæzluskipi. Um það liggur ekkert annað fyrir en till. um að verja því fé, sem fékkst fyrir Óðin, til eflingar landhelgisgæzlunni.

Út af ummælum hæstv. fjmrh. vildi ég mega spyrja: Hvað hefir verið gert í tíð núv. stj. til að létta undir með sjávarútveginum? Hæstv. ráðh. vitnaði í fiskimálanefnd. Það hefði hann ekki átt að gera, því að mér vitanlega telja útgerðarmenn, að sú n. hafi orðið til bölvunar og eigi að leggjast niður. Fiskimálanefnd hefir fengið mikið fé til að fara með, — fé, sem áreiðanlega hefði getað verið betur varið.

Hæstv. fjmrh. heldur því enn fram, að við sjálfstæðismenn höfum eiginlega engan rétt til að bera fram frv., sem fela í sér útgjöld fyrir ríkissjóð. Við sjálfstæðismenn erum fulltrúar nærfellt helmings þjóðarinnar og eigum því heimtingu á að hafa hönd í bagga með því, hvernig þeim tekjum ríkissjóðs er varið sem ekki eru fastar í lögboðnum útgjöldum. Þessum hluta af tekjum ríkissjóðs á Alþ. að ráðstafa, og auðvitað hafa fulltrúar Sjálfstfl. sama rétt og aðrir þm. til að gera þar um till. Og ég vil ennþá einu sinni benda hæstv. ráðh. á það, að allar útgjaldatill. okkar sjálfstæðismanna miða að því að efla atvinnuvegina, og yrðu þannig í framkvæmd undirstaða að nýjum tekjustofnum handa ríkissjóði. Það er rétt hjá hæstv. fjmrh., að þetta fé kemur ekki strax. En það eru þó áreiðanlega þarfari útgjöld en margt af þeim eyðslubitlingum, sem hæstv. fjmrh. hefir á samvizkunni.