02.12.1937
Efri deild: 40. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í C-deild Alþingistíðinda. (1781)

8. mál, eftirlit með skipum

*Frsm. minni hl. (Jóhann Jósefsson):

Ég gat ekki orðið samferða hv. meiri hl. af þeim ástæðum, sem ég hefi tekið fram í nál. á þskj. 209. Ég skal nú fyrst geta þess, að flm. þessa frv. fullyrðir í grg. þess, að þær breyt., sem þar séu fram bornar, séu allar bornar fram í samráði við skipaskoðunarstjóra. Ég ætla, áður en ég vík að sérstökum atriðum frv., að benda hv. dm. á, hversu ráðvandlega hv. frsm. hefir farið að í grg. þessa frv. Ég trúði því auðvitað að óreyndu, að þessar breyt. væru bornar fram í samráði við skipaskoðunarstjóra, en svo mætti skipaskoðunarstjóri á fundi í sjútvn., og þá gafst tækifæri til að reyna, að hve miklu leyti hann var samþykkur þessum till., sem flm., hv. 3. landsk., fullyrðir, að séu bornar fram í samráði við hann. Svo var nú byrjað að lesa frv. og það lesið allt í gegn. Í 3. gr. kom strax fram ágreiningur milli skipaskoðunarstjóra og flm., í 4. gr. kom enn fram ágreiningur, sérstaklega hvað snertir það, að Alþýðusambandið skuli hafa tillögurétt um skipaskoðunarumdæmin og skipun skipaskoðunarmanna; einnig kom fram ágreiningur í 5. gr., 7. gr. og 8. gr. Hvað viðvíkur hleðslumerkjunum, þá sagði skipaskoðunarstjóri, að það tíðkaðist hvergi að hafa hleðslumerki á svo litlum skipum, sem hér um ræðir. Þetta er í stuttu máli sagan um það, hvernig hv. flm. fer að í grg. frv. Ég skrifaði þetta jafnóðum niður, og ég komst að þeirri niðurstöðu, að skipaskoðunarstjóri var hv. flm. eins mikið ósamþykkur eins og búast mátti við, að ókunnugur maður hefði getað verið, sem aldrei hefði séð frv.

Út af því, sem hv. flm. sagði um það, að ég vildi láta farmannasambandið fá að segja álit sitt um þetta mál og að það væri alls ekki réttur aðili til þess að gera till. í málinu, heldur allur fjöldi sjómanna. þá vil ég segja það, að ég hefi ekki gert neitt til að draga þetta mál úr hendi sjómanna. Meining mín með hinni rökst. dagskrá er það, að ríkisstj. láti fara fram athugun á málinu og að sú athugun fari fram undir handleiðslu skipaskoðunarstjóra, en gerð af fulltrúum frá farmannasambandinu og fulltrúum sjómannafélaganna úr hverjum landsfjórðungi. Með þessu hygg ég, að efnt sé til miklu betri athugunar á málinu heldur en þó að hv. 3. landsk. setji eitthvað niður á pappírinn. Ég sé nú að vísu á nál. meiri hl., að samtal það, sem fram fór í sjútvn., hefir haft mikil áhrif. Það kemur fram í þeim brtt., sem meiri hl. kemur hér fram með. En þrátt fyrir þessar brtt., þó að þær yrðu samþ., er ýmislegt í frv., sem mér líkar ekki. Þetta hefir hv. 2. þm. S.-M. líka séð, þar sem hann hefir áskilið sér rétt til að koma með aðrar brtt. Fyrir þinginu liggja mótmæli gegn einstökum ákvæðum frv., sérstaklega hleðslumerkjunum, frá deild úr Fiskifélagi Íslands og stóru útgerðarfélagi á Ísafirði. Hv. þm. sagði, að farmannasambandið mundi ekki taka yfir nema lítinn hluta af yfirmönnum á íslenzkum skipum. Þetta er ekki rétt. Það tekur yfir mestan hluta af skipstjóra-, stýrimanna- og meistarafélögum landsins. Þetta samband var stofnað í ár, og hefir það á fyrstu þingi sínu tekið fyrir ýms merkileg mál, og þar á meðal líka öryggismál sjófarenda. Hv. 3. landsk. fullyrti, að þetta mál hefði sofnað í n. hjá farmannasambandinu. Ég hefi hér fyrir framan mig þingtíðindi frá 1. þingi farmannasambandsins, og þar er þessa máls getið á bls. 8, sem ég vil lesa hér upp, með leyfi hæstv. forseta: „Þá var tekið fyrir öryggi sjófarenda. Frsm. Sigurður Sigurðsson. Frh. 2. umr. Frsm. skýrði frá störfum n. og lagði fyrir fundinn nál., sem hann las upp og skýrði mjög ýtarlega. var það svo hljóðandi:

Nefndarálit.

Nefnd sú, sem kosin var á 1. þingi Farmanna og fiskimannasambands Íslands til þess að athuga verkefni sambandsins viðvíkjandi öryggismálum sjófarenda, hefir komið saman og rætt um þessi mál til og frá, en þar sem þetta er mjög umfangsmikið mál og tímafrekt að fara í gegnum það, sem fyrir er af l. og reglum, höfum við komið okkur saman um að benda aðeins á ýms atriði, sem sambandið getur beitt sér fyrir fyrst um sinn. Nefndin leggur til: 1. Að þingið feli stjórninni að láta athuga fyrir næsta Alþ. breyt. á l. um eftirlit með skipum, nr. 93 3. maí 1935, og geri ákveðnar breyt. á þeim, og taki einnig til athugunar frv. það, sem nú liggur fyrir Alþ. um breyt. á sömu l. 2. Tilskipun um eftirlit með skipum og bátum og öryggi þeirra, útg. 20. nóv. 1922. Sérstaklega finnst okkur 161. gr. og 162. gr. nefndra l. og aðrar gr. í sambandi við þær þurfi athugunar við gagnvart eldri skipum. 3. Að þingið feli stjórninni að leita nú þegar umsagnar meðlima sambandsins og annara stéttarfélaga sjómanna, er þurfa þykir og sem hafa meðlimi, er stunda atvinnu á hinum smærri skipum, sérstaklega á síldveiðum, um möguleika fyrir því, á hvern hátt heppilegast yrði að lögfesta ákvæði um hleðslu skipa.“

Það er þetta, sem hv. þm. kallar, að málið hafi verið svæft á þingi farmannasambandsins. Þingið lagði einmitt áherzlu á, að leitað yrði umsannar hinna stéttarfélaga sjómanna um það, hvernig helzt eigi að gera öryggisráðstafanir fyrir ofhleðslu. Ég tel, að ég hafi nú rökstutt það nægilega, að það er full þörf, þrátt fyrir yfirborðsþekkingu hv. 3. landsk., að þetta mál sé athugað gaumgæfilega og að sjófarendurnir sjálfir fái að segja sitt álit um það.

Hv. 3. landsk. var að tala um það, að það sæti illa á mér að standa á móti þessu máli, af því að ég væri fulltrúi fyrir sjávarútvegskjördæmi, og hann sagði, að það væri af því, að ég tímdi því ekki. Ég kann ekki við að vera að taka þetta illa upp fyrir hv. þm. Ég veit, að þetta hefir gloprazt upp úr honum án þess að hann hafi meint nokkuð með því. Annars vil ég aðeins leyfa mér að halda því fram, að ég hafi síðastl. 16–17 ár lagt talsvert persónulegt starf fram, og ef til vill haft nokkur útgjöld, einmitt til þess að vinna verklegt starf fyrir öryggi sjómanna í mínu byggðarlagi. Ég hefi ekki látið annað til mín taka. En við, sem höfum unnið að þessu saman þar. höfum líka haft nóg verkefni við okkar bæjardyr. Ég ætla ekki að fara út í jöfnuð við hv. 3. landsk., en hitt veit ég, að ýmislegt af því, sem þar hefir verið gert, er eins mikilsvert fyrir öryggi sjómanna í Vestmannaeyjum eins og þó að hv. þm. standi hér á Alþ. og búi til löggjöf um hleðslumerki, sem vitaskuld enginn sjómaður fer eftir, ef afli býðst. Hv. þm. er þannig skapi farinn, að hann lætur sér nægja, et hann getur sett upp einhver pappírsákvæði um þessa hluti. en ég hinsvegar geri mig ekki ánægðan með slíkt, heldur hefi ég reynt að taka sjálfur þátt í erfiðleikum sjómanna og hafast eitthvað verklegt að til þess að koma í framkvæmd þeim öryggismálum, sem hagkvæmust eru og allir vita frá hinu daglega lífi, að komi sjómönnum að notum.

Ég hefi þá sýnt fram á, að málfærsla hv. 3. landsk. þm. er langt frá að vera sem skyldi. Og ég hefi líka leitt að því nokkur rök, að það muni vera affarasælast, að þetta mál fái athugun þeirra minna, sem það varðar mest, sem sé sjómanna, bæði yfirmanni og undirgefinna. Og mér virðist, að það þurfi ekki meiri rökstuðning til.

Af því að hv. 3. landsk. er svo ákaflega fljótur til að segja frá því, hvað hann hefir talað við menn og hvað menn úti í bæ segja um þetta mál, þá vil ég fyrir mitt leyti bæta við, að mér er persónulega kunnugt, að skipaskoðunarstjóri er mjög mótfallinn því, að þetta frv. sé samþ. nú, og hinsvegar samþykkur því, að það fái betri athugun áður en þingið gerir það að lögum. Og um farmannasambandið, sem hér er minnzt á í dagskránni, skal ég geta þess, að tveir úr stjórn þess komu beinlínis á fund, ekki sjútvn., heldur nokkurra þm., sem eru við útveg riðnir, og óskuðu þess mjög eindregið, að farmannasambandið eða fulltrúi frá því yrði apurður og tekinn til ráðuneytis um þessi mál áður en endanlega yrði frá þeim gengið.

Ég skal að síðustu geta þess, að í nál. mitt á þskj. 204 hefir slæðzt inn villa. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Minni hl. er fylgjandi því, að með löggjöf um eftirlit skipa og báta séu settar allar þær skorður, sem framkvæmanlegar og óviðráðanlegar eru“ o. s. frv. Eins. og hver maður sér, á þarna að standa viðráðanlegar í stað óviðráðanlegar, og bið ég góðfúsa lesendur að athuga það.

En um tillit til kostnaðar skal ég segja það, að þó að hv. flm. fari engan veginn með rétt mál, þegar hann segir, að ég horfi eingöngu á kostnaðinn og vilji þess vegna tefja málið, því að ég hefi bent á þær ástæður, sem liggja að því að ég vil leyfa réttum aðiljum að athuga þetta mál, þá er þar líka ein grein í þessu kostnaðurinn. Hvorugur okkar getur lokað augunum fyrir því. En það hefir oft endranær kveðið við hjá flm. þessa frv. um ýms nýmæli og breytingar á löggjöfinni, sem hann hefir borið fram og hans flokksbræður, að ekki hafi verið minnzt á kostnaðinn einu orði, að kostnaðinn munaði ekkert um. Og miklu af löggjöf síðari ára hefir verið komið í gegn með þeirri forsendu. að sá aukni kostnaður, sem útgerðin yrði fyrir, væri svo lítill í hverju tilfelli, að ekkert munaði um. Hitt ættu allir að vita, að kornið fyllir mælinn; og kostnaðarhliðina á hverju einstöku máli fyrir sig verður líka að athuga, þó að ég á hinn bóginn að því er snertir þetta atriði vilji engan veginn gera kostnaðarhliðina að aðalatriði í málinu. Aðalatriðið er að mínum dómi, eftir því, sem upplýstst hefir við meðferð málsins hér. að sú sérfræðilega þekking, sem hv. 3. landsk. þykist hafa á þessu máli, er hvergi nægilega fyrir hendi af hans hálfu til þess að þingið fallist á að neita því beinlínis, að menn, sem verulega þekkingu hafa, fái að fjalla um þau. Þetta er aðalástæða mín fyrir því, að ég vil fá betri athugun á þessu máli. Ég treysti ekki sérfræðiþekkingu hv. 3. landsk. út af fyrir sig. Og ég hefi því miður ekki ástæðu til að treysta að fullu tilvitnunum hans til einhverra sjómanna og annara úr farmannasambandinu, þar sem hann segir út í bláinn í grg., að skipaskoðunarstjóri sé sér sammála. Þess vegna finnst mér rétt að afgr. málið með þeirri rökst. dagskrá, sem ég hefi hér komið með. Ég fer ekki fram á að tefja málið um tíma og eilífð, heldur að fá þessa sérfræðilegu athugun fram sem fyrst, svo að málið verði lagt fyrir Alþingi í febrúar næstk. þannig undirbúið, að fullvíst sé, að sjónarmið aðilja séu öll komin til greina.