06.12.1937
Efri deild: 43. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í C-deild Alþingistíðinda. (1789)

8. mál, eftirlit með skipum

*Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Hv. frsm. meiri hl. var í raun og veru að glíma við skuggann sinn í allri ræðu sinni, eða við það, sem ekki er til nema í hans eigin ímyndun. Það er ímyndun, að hjá mér sé viðleitni til að hindra framgang málsins. Ég hefi ekki lagzt á móti því að lagfæra lögin og jafnvel herða mjög mörg ákvæði þeirra. Hinu hefi ég haldið fram. að málið væri ekki svo vel undirbúið af honum sem skyldi. Og ég styrktist í trú minni við þann fund, sem ég gat um, þegar skipaskoðunarstjóri, sem hv. frsm. meiri hl. hefir vitnað í sem einskonar meðstarfsmann sinn í þessum efnum, lét það í ljós við sjútvn., að hann væri ósamþykkur flestöllum helztu breyt., sem gera ætti með þessu frv. (SÁÓ: Það er ekki rétt). Það gerir mig vantrúaðan á, að vel sé unnið, eða að hv. frsm. meiri hl. sé lás fyrir öllu viti í þessum málum. Ef farin væri sú leið, sem ég legg til, og dagskráin samþ., gæfist tóm til að gera frv. betur úr garði. Ef fulltrúar sjómannafélaga t. d. úr öllum fjórðungum landsins segðu álit sitt, kæmu fram miklu fleiri sjónarmið heldur en þó að við hv. frsm. meiri hl., séum að deila um þetta. Og jafnframt vil ég, að menn með sérþekkingu eins og skipaskoðunarstjóri og fulltrúi frá farmannasambandinu beri saman ráð sín um öryggisráðstafanirnar og það, sem þykir vanta í lögin, — þar á meðal um það, hvað hægt er að gera til að varna því, að tjón hljótist af ofhleðslu. Þar kemur margt til greina, misjöfn sjósókn, róðrarlag o. s. frv. Það getur ekki verið neitt móti því, að þeir, sem standa í mannraununum sjálfir, fái að leggja ráð á með skipaskoðunarstjóra. Það, sem sjómenn leggja til og skipaskoðunarstjóri, hlýtur alltaf að miðast við það, sem kemur að raunverulegu haldi. Okkur, sem ekki stöndum í þessum mannraunum, getur miklu frekar yfirsézt, svo að við gerum það að aðalatriðum, sem í rauninni eru aukaatriði.

Ég veit ekki betur en tvær óskir hafi komið fram á þessu þingi um að endurskoða siglingalögin, — þó að það hafi ekki komið fram í þessari deild. Hv. þm. segir, að það, sem meiri hl. sjútvn., hann og hv. 2. þm. S.-M., hafi orðið sammála um, megi ganga fram á þessu þingi, og þó að lögin séu sett, megi alltaf afsaka, þótt einhver mistök hafi átt sér stað, og bæta gallana seinna. Því ekki að reyna strax að fyrirbyggja mistökin? En löggjöfin um siglingar bendir því miður ekki á, að hv. frsm. meiri hl. sé óskeikull. Þar er margt, sem virðist þurfa umbóta, þó að erfitt sé viðfangs, þar sem lögin eru svo ný. Það er t. d. hart fyrir ungan mann, sem í 10 ár hefir stundað sjó á kannske 30 tonna bát og þolað allar hættur, sem því fylgja, að hann hefir ekki réttindi til að ganga í stýrimannaskólann. Hvaða réttlæti er í þessu? Eftir þessari lagasetning, sem þessir fróðu menn hafa sett með hv. frsm. meiri hl. fremstan í flokki, eru námskeiðunum fyrir sjómenn þau skilyrði sett, að námskeið varð að falla niður í Vestmannaeyjum í vetur sem leið, út af naglalegum ákvæðum, t. d. um það, að vélstjóri er ekki skoðaður jafngildur háseta hvað reynslu snertir. Ef gert verður út í vetur, verður það mesta þraut að hafa nóga prófmenn. Það er búið að koma því svo fyrir, að allir á bátunum, nema ég held einn maður, verða að hafa eitthvert próf. Svo er þess gætt að hafa ákvæði laganna nógu þröng til þess að ekki sé hægt að halda námskeiðin, — nema þá í lögleysu. En í fyrra treysti stjórnarráðið sér ekki til að brjóta lögin. Þetta vildi ég minna hv. frsm. meiri hl. á til marks um það, að öllum getur skjátlazt.

Ég vil ekki endurtaka fyrri ræðu mína. Þegar hv. frsm. meiri hl. segir, að ég fari villur vegar, þá gerir bann það, en ég ekki. Ég kom með þingtíðindi farmannasambandsins frá þinginu í sumar og las upp úr þeim orð fyrir orð. Hvað hefir hv. þm. að bera fram móti þeirri heimild, sem farmannasambandið sjálft getur út? Hann hefir tal af manni, sem verið hefir á þinginn, og orð, sem sá maður lætur falla í viðræðu, eiga að gera það allt ómerkt, sem þingið hefir ályktað! — Það er heldur veik aðstaða að ætla með slíkri sögusögn að ógilda þingtíðindi, sem liggja hér á borðinu. Ég er ekki einn til frásagnar um þetta. Bæði form. farmannasambandsins og einn meðstjórnendanna komu hér í þingið, hittu mig og fleiri úr sjútvn. og fóru opinberlega fram á það, að þeir fengju á formlegan hátt að vera með við það á fundum n. að endurskoða lögin um eftirlit með skipum. Fundarhlé.

Hv. frsm. veik enn að því, að fyrir mér mundi vaka helzt það, að af þessu eftirliti leiddi kostnað fyrir þá aðilja, sem hlut eiga að máli. Þetta er nú ekki rétt. Það vakir alls ekki fyrir mér. Hinsvegar get ég sagt það, að það er sjálfsagt viðurkennt orðið af þeim mönnum, sem setu eiga á Alþingi, að ég ekki tali um fjölda manna utan þings, að Alþingi hafi undanfarin ár verið allt of ört á að lögleiða lagaákvæði, — að vísu sumpart nýt, en sumpart líka lítils nýt, — sem hafa í för með sér síaukna skatta fyrir skipastól landsmanna. Og venjulega hefir viðkvæðið verið hjá flm. þessara mála. ef einhver hefir leyft sér að benda á, að hér væri um aukinn kostnað að ræða, að þetta væri nú svo hverfandi lítið. Og það er satt, það hefir oft og tíðum virzt vera hverfandi atriði út af fyrir sig. En allir þessir smáu liðir — þeir eru reyndar ekki allir smáir — eru orðnir samanlagðir ein þung kostnaðarbyrði, stór baggi fyrir þá menn, sem eru að baksa við að halda skipum gangandi á sína fjárhagslegu ábyrgð. Það er svo sem hægurinn nærri fyrir flm. þessa frv. að standa hér og hrópa hátt um það, að hann horfi ekki í þennan og þennan kostnað, þar sem mannslífin séu annarsvegar. Þetta lætur vel í eyrum og er ógnar handhægt vopn; í fyrsta lagi vegna þess, að sá, sem því veifar eins og hv. flm. gerir nú, getur aldrei skorið sjálfan sig á því. og hinsvegar er hægt með þessu tali að drepa á þá viðkvæmu strengi, sem hjá hverjum manni hrærast, að vilja ekki standa í vegi fyrir því, sem að gagni megi verða til að firra sjómenn sjóslysum. En samt sem áður, það verður að halda með varfærni á þessu vopni; jafnvel ber þeim að gera það, sem vita, að það bitnar aldrei á þeim sjálfum.

Hv. þm. hefir misskilið mín orð, ef hann hefir dregið þá ályktun, að ég teldi, að talstöðvar í skipum væru helzta hjálparmeðulið, og væru þær til staðar, þyrfti ekkert annað. Þetta er svo langt frá því að vera rétt skilið. En hvað afskipti þingflokka af þessu máli snertir, held ég þau hafi verið lítil, og það, sem gert hefir verið í þeim efnum, hafi mest verið gert utan áhrifa Alþingis. Þannig voru það alveg prívat-ráðstafanir í mínu byggðarlagi, og var lagt fram fé af hálfu þeirra, sem bezt máttu, til hinna máttarminni bátaeigenda til að koma upp talstöðvum. Þetta er vegna þess, að við viðurkennum, að þær eru stórkostleg hjálp. En ég skal og fyrstur manna viðurkenna, að talstöðvar út af fyrir sig eru ekki einhlítar að þessu leyti. Og yfir höfuð er ég nú þeirrar skoðunar, að margar lagaforskriftir séu heldur ekki einhlítar, heldur sé dugnaður og árvekni og kunnátta sjómannanna, samfara góðum farkostum, oftast það öruggasta til bjargræðis.

Hv. frsm. minntist á skipaskoðunarstjóra og hans störf í þessu máli og taldi, að hann lægi jafnvel undir sterku ámæli, að því er mér virtist, fyrir framkvæmdir á sínum störfum. Ég verð að segja, að hv. frsm. tók þarna nokkuð djúpt í árinni. Skipaskoðunarstjóri er að mínum dómi og allra, sem hann þekkja, vandaður og samvizkusamur maður. Og þetta mikla ámæli, sem hv. frsm. telur, að á honum liggi, hefi ég ekki orðið var við úr annara munni en þessa hv. þm. Annars eru það alltaf ákaflega hæpin rök í hverju máli sem er, að vitna í það, sem Pétur eða Páll segja á götunni, og jafnvel leggja fram hálfgerðar gróusögur til stuðnings sínu máli, og raunverulega ekki frambærileg rök á Alþingi.

Að frestun á endurskoðun þessara laga samkv. þeim till., sem ég ber fram, get ég sannast að segja ómögulega verið samþ. frsm. um, að stefni málinu og þar með sjálfu örygginu í nokkurn voða. Þeir, sem segja, að samkv. minni dagskrá yrði málinu stefnt í óefni, þeir verða annað tveggja að gera, kannast við, að þeir álíti, að ríkisstj. muni trassa þann vilja Alþingis, sem í dagskránni felst, eða álita, að þeir aðiljar, sem ég bendi á sem hæfasta til að leggja góð ráð, sem eru fulltrúar farmannasambandsins og fulltrúar sjómanna úr hinum ýmsu byggðarlögum, hafi ekki það vit til brunns að bera í þeim efnum, sem að haldi komi. Aðrar ástæður geta ekki legið til grundv. fyrir því að fella mína dagskrá. Því að þessu verki á samkv. henni að vera lokið fyrir næsta þing. Og ef frv. þannig undirbúið er lagt fyrir næsta þing, má vænta, að lög um þetta efni verði komin til fullra framkvæmda fyrir þann tíma, sem síldarvertíð hefst á næsta ári. Ég segi síldarvertíð vegna þess, að hv. frsm. hefir, a. m. k. í sínu upphaflega frv., miðað öryggisráðstafanir við síldveiðar, og hefir það enda komið fram í umr. um málið, þar sem hann taldi, að hætta á ofhleðslu yrði mest þar.

Hvað það snertir, að sjósókn sé hér framkvæmd undir langverstu skilyrðum að öllu samanlögðu, þá tel ég mig ekki bæran að dæma um, hvar sjósókn kann að vera erfiðust á hnettinum, miðað við skipakostinn, sem menn hafa yfir að ráða. Því að það verður alltaf að taka tillit til þess, ef meta á hættur og erfiðleika. hvaða vörn menn hafa til að mæta erfiðleikunum. Hv. þm. kann að vera dómbær í þessu efni — að sínu eigin mati. Ég segi um míg fyrirfram, að ég er það ekki.

Annar þeirra manna, sem komu á fund minn í Alþingi út af þessu máli, var einn af forráðamönnum farmanna- og fiskimannasambands Íslands, ég hygg form. þess, en sá, sem kom á fund sjútvn., var núv. skipstjóri á Esju, Ásgeir Sigurðsson. Ég tel nú sannast að segja, að það hefði verið hart að gengið fyrir mig, þegar maður, sem er í slíkri ábyrgðarstöðu, að hann stýrir strandferðaskipi með jafnvel hundruðum farþega kringum strendur landsins yfir verstu vetrarmánuðina, fer fram á það beinlínis, að hann eða fulltrúar hans fái að taka þátt í undirbúningi þeirra ráðstafana, sem gerðar eru til öryggis skipum, — þegar slíkur maður fer fram á að láta álit sitt í ljós, treysti ég mér ekki til að segja við hann: Þínar skoðanir eru ógrundvallaðar, ég hefi sjálfur fullkomlega vit á þessu og þarf ekki á þinni reynslu að halda. Ég treysti mér ekki að vísa frá framboðnum upplýsingum þess manns, sem hefir svo raunhæfa þekkingu, að hann hefir í mörg ár stýrt skipi á ferðum hringinn í kringum hina lítt upplýstu, vogskornu og hættulegu strönd þessa lands, og þó ekki væri um annað að ræða en sjálfsagða kurteisi, þá mundi margur vilja gefa þessum manni kost á að láta þingið njóta sinnar reynslu í þessu efni, þar sem líka þessi maður er forráðamaður þess félags sjómanna, sem hér um ræðir í dagskrártill. minni. Þetta vildi ég segja um annan lið dagskrárinnar.

Þá er það alveg sjálfsagt, að sjómennirnir sjálfir verði spurðir ráða í þessu efni. Ég held, að það sé í fyrsta sinn með þessari dagskrártill., sem farið er fram á það, að sjómennirnir sjálfir taki þátt í lagasetningu um þau mál, er að sjómennsku lúta, og er það hrein furða, að form. eins sjómannafélags skuli ekki vilja unna sjómönnum þess sóma að vinna að lausn þessa máls, en loka augunum fyrir þeirri staðreynd, að fulltrúar frá sjómannafélögum í hinum ýmsu hlutum landsins geta vissulega gefið mjög þýðingarmiklar upplýsingar og bendingar um það, hvernig haga skuli eftirliti á hinum ýmsu stöðum og hvað gera megi til öryggis skipum og mönnum á hverjum stað.

Ég get svo látið hér staðar numið. Ég vænti, að hv. d. sjái, að full rök eru fyrir því, að þeir menn, sem vísað er til í dagskrártill., fái undir handleiðslu ríkisstj. að athuga þetta mál, og að öryggi þess er síður en svo stefnt í nokkurt óefni, þó málið fyrir það þurfi að bíða næsta þings.