18.10.1937
Neðri deild: 4. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í C-deild Alþingistíðinda. (1798)

5. mál, byggingarsjóður sveitanna

Flm. (Jón Pálmason):

Eins og flestum hv. þdm. mun kunnugt, þá var þetta frv. flutt á síðasta þingi, en varð þá ekki útrætt.

Frv. byggist á því, að breyta talsvert rækilega f., sem nú gilda um byggingar- og landnámssjóð, þannig, að í fyrsta lagi eru tekin úr þeim l. öll þýðingarlaus ákvæði, sem nú eru þar, svo sem ákvæði um nýbýli og annað slíkt, sem nú er búið að semja sérstök l. um, og í öðru lagi er lagt til að bæta inn í l. ákvæðum um byggingarstyrk og ný framlög og nýjar fjáröflunarleiðir í því skyni.

Það er kunnugt mál, að byggingar- og landnámssjóður hefir orðið vinsæl stofnun úti um sveitir landsins fyrir þá aðstoð, sem sá sjóður hefir veitt fjölda bænda og gert þeim þannig fært að byggja upp á jörðum sínum, sem annars hefði ekki verið hægt. Hinsvegar hefir það komið í ljós, einkum á síðustu árum, að það fé, sem þessi sjóður hefir yfir að ráða, er allt of takmarkað til að fullnægja þeirri þörf, sem fyrir hendi er á endurbyggingum í sveitum landsins. Þar að auki hefir komið í ljós á síðustu árum, þegar meira hefir kreppt að fjárhag almennings í sveitum landsins, að þeir eru talsvert margir, sem eru ekki færir um að byggja upp þrátt fyrir það, að þeir fái lán með þeim kjörum, sem þessi sjóður hefir að bjóða.

Það er kunnugt, að á síðasta þingi voru saml. l., sem bættu að nokkru leyti úr þeim þörfum, sem hér er um að ræða, og þó að það framlag, sem þar er gert ráð fyrir, komi að talsverðu gagni fyrir einstaka menn, þá er bæði það, að fjármagnið er tekið af því fé, sem byggingar- og landnámssjóður hefir haft yfir að ráða, og þess vegna ekki aukið á fjárframlög til þessara hluta, og er þar að auki bundið þrengri takmörkunum en ætla má, að heppilegt sé nú.

Ég skal ekki fara langt út í frv., því að megintilgangur þess er tekinn fram í grg., en vil þó aðeins minnast á það atriði, sem helzt virtist deiluefni á síðasta þingi, en það er fjáröflunarleiðin, sem stungið er upp á í 4. gr., sem sé að afla fjármuna á þann hátt, að gefa út skuldabréf, sem séu undanþegin sköttum og vextir eigi hærri en 3½%. Þessi leið er. óneitanlega óviss, en þó er ekki ólíklegt, að nokkurt fé náist á þennan hátt til þessara nauðsynlegu framkvæmda.

Ég sé ekki ástæðu til að fara nánar út í það, hvað vakir fyrir okkur flm. frv., fyrst og fremst af því, að ég á sæti í þeirri n., sem ég óska, að frv. verði vísað til, og gefst þar tækifæri til að leita nánara samkomulags um þau atriði, sem kunna að valda meiri eða minni ágreiningi.

Ég óska, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og til landbn.