22.10.1937
Neðri deild: 8. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í C-deild Alþingistíðinda. (1821)

16. mál, vinnudeilur

*Einar Olgeirsson:

Það var eftirtektarvert, að hv. þm. Snæf. kom ekki nálægt því, sem var aðalatriðið í ræðu minni. Hann reyndi ekki að hrekja það, að í frv. þessu eru ákvæði, sem beinlínis miða að því að hrjóta oddinn af sterkasta vopni verkalýðsins. Og það er ekki nema eðlilegt, að hv. þm. legði ekki út í að reyna að hrekja þetta. — Frv. er samið og flutt til þess eins að takmarka verkfallsréttinn. Það er því langt frá því að vera óeðlilegt, að kommúnistar og jafnaðarmenn standi saman um þetta mál, þar sem hér er um að ræða eitt grundvallaratriði verkalýðsbaráttunnar í heiminum. Það stendur enn óhrakið, sem við hv. 3. þm. Reykv. höfum sagt um það, hvernig ákvæði frv. brjóta í bág við rétt verkalýðsins í þjóðfélaginu, — miða að því að gera honum erfiðara fyrir í hagsmunabaráttu sinni.

Hv. þm. Snæf. söng hér gamla sóninn um mennina, sem væru æstir í vinnudeilur, — kommúnistana, sem vilja út af lífinu stofna til verkfalla, í þeim tilgangi að skapa eymd og óánægju hjá alþýðunni. Mig langar til að vitna í það, sem Krapotkin sagði einu sinni, að þessi hugmynd um launaða æsingamenn, er standi fyrir verkföllum, sé hvergi til nema í hugum þeirra manna, sem engin kynni hafa af verkföllum. Nei, — þessi hv. þm. getur verið viss um það, að verkamönnum er engin ánægja að því að gera verkföll. Verkafólk, sem hvorki á til hnífs eða skeiðar, fer ekki út í verkföll eins og hvern annan leik, sér til skemmtunar, eins og hv. þm. virðist ætla. Veit hann, hvað það þýðir fyrir fátækt fólk, að verða að standa í verkfalli vikum og jafnvel mánuðum saman, og hafa ekkert sér til bjargar nema þá verkfallssjóði, sem þeir sjálfir hafa skapað með því að reyta af sínum fáu aurum árum saman? Veit hv. þm. Snæf., hvílík eldraun hvert einasta verkfall er fyrir stéttarþroska verkamannsins, fórnfýsi hans fyrir heildina, stéttarbræður sína, hve það reynir á hugrekki hans, manngildi og þrautseigju? Ef hann vissi þetta, hv. þm. Snæf., ef hann hefði séð þann eldmóð, fundið þá fórnarlund, sem verkalýðurinn á og sem reynir á í hverju einasta verkfalli, þá kæmi hann varla fram með svona barnalegar hugmyndir um það, hvernig verkföll verða til og hvað þau eru. Verkföllin eru barátta milli verkalýðsins og atvinnurekenda, og í þeirri baráttu stendur verkalýðurinn langtum verr að vígi. Öðrumegin eru bláfátækir, allslausir verkamenn, hinumegin forríkir atvinnurekendur, sem aldrei þurfa að líða, hvað lengi sem verkfallið stendur, — þeir geta gengið í Landsbankann og sótt sér þangað peninga, ef í hart fer. Það er varla hægt að hugsa sér barnalegri skýringu á verkföllum, — skýringu, sem frekar lýsi algerðu þekkingarleysi, en þá, að þeim sé komið af stað af kommúnistum eða öðrum „æsingamönnum“ til þess að skapa óánægju. Þarna eru alveg höfð hausavíxl á hlutunum. Verkföllin rísa af óánægju, sem fyrir er, óánægju verkalýðsins með aðstöðu sína og kjör í þjóðfélaginu. Verkföllin eru vopn, sem verkalýðurinn beitir í baráttu sinni fyrir sæmilegu lífi. — en það er algerður misskilningur á þeirri baráttu, að halda, að verkamenn beiti þessu vopni gálauslega. Þeir eiga of mikið á hættu. Hvað eftir annað þýðir það atvinnumissi að beita sér fyrir eða standa framarlega í verkfalli. Hvað eftir annað sér maður dæmi þess, að þeir verkamenn, sem standa fremst í verkföllum, eru útilokaðir frá vinnu, ekki bara á einum stað, heldur eltir hefnd atvinnurekenda þá um allt landið. Hvað eftir annað fórna stéttvísir verkamenn tiltölulega öruggri afkomu til þess að berjast fremst í flokki stéttarbræðra sinna fyrir bættum kjörum. Verkföll eru alltaf alvarleg barátta, háð af mönnum, sem eru að reyna að rétta sinn hag. Það var alvarleg barátta, þegur bændurnir í Þingeyjarsýslu voru að skapa sin samtök móti einokunarkaupmönnunum. Þeir urðu að fórna miklu til þess að koma samtökunum á stað. Ég býst við, að Guðjóhnsenarnir á Húsavík hefðu getað talað um launaða æsingamenn, sem ynnu að því að róa undir, alveg eins og sjálfstæðismenn tala nú um í garð sósíalista og kommúnista. En það er annað, sem um er að ræða. Það er undirokuð stétt, sem er að rísa upp á móti órétti, sem hún er beitt, og það er atriði, sem flm. getur ekki komizt í kringum, þó hann feginn vildi.

Það væri eitt af því ánægjulegasta, sem skeð gæti, ef hægt væri að fá þm. Sjálfstfl. til að ganga inn á að taka eitthvað upp af þeim rétti, sem hinum vinnandi stéttum er tryggður á Rússlandi. Ég hefi því miður ekki bjá mér bók, sem ég gæti lánað hv. þm. Snæf., ef á að koma á stað bókalánum hér á hv. Alþ. Það er ekki ómerkilegri bók en sjálf stjskr. sovétríkjanna. Það er gr. í stjskr., að hver maður hafi rétt til atvinnu, að hver maður skuli hafa rétt til að fá atvinnu, og það atvinnu, sem er svo vel borguð, að hann geti lifað af henni, og það sé jafnframt atvinna við hans hæfi. Það væri gaman að vita, hvort hv. þm. Snæf. vill taka sig til og fá settan í stjskr. Íslands þennan rétt í viðbót við þau mannréttindi, sem þar eru fyrir, svo að það atvinnuleysi, sem nú er í Reykjavík, væri talið stjskr.brot, — þannig, að í stjskr. væru ákvæði um, að sektir lægju við, ef maður kæmi til atvinnurekanda eins og t. d. Kveldúlfs og væri neitað um atvinnu. Það liti einkennilega út í auðvaldsheiminum að setja þess háttar ákvæði, því það er vitað, að það, sem gerir það að verkum þar, að menn treysta sér til að lækka launin, er einmitt það, að atvinnuleysið er nægilegt til þess, að það eru alltaf svo margir, sem bjóða sig fram, að launakjörin eru alltaf þess vegna á hungurstiginu. Rétt til atvinnu er ekki hægt að tryggja í núv. skipulagi, eða auðvaldsskipulaginn. Það er ekki hægt nema með því að afnema eignarrétt nokkurra manna á framleiðslutækjunum og fá hann í hendur hinum vinnandi stéttum. Þegar hinar vinnandi stéttir hafa sjálfar tekið framleiðslutækin í sínar hendur, þá er hægt að útrýma atvinnuleysinu, og þá getur stjskr. tryggt hverjum manni réttinn til atvinnu. Þetta getur hv. þm. Snæf. athugað sjálfur, ef hann ferðast til þessa lands, sem hann var að tala um. (TT: Á þetta að skiljast sem heimboð?). Hv. þm. getur sjálfsagt fengið að ferðast þangað alveg eins og fjöldinn allur af fólki fer þangað á hverju ári. Á hverju einasta sumri fer þangað fjöldi af frægustu vísindamönnum Norðurlanda, svo ef hv. þm. hefir áhuga fyrir að kynna sér, hverskonar ríki það er, sem verkalýðurinn hefir skapað þar á 211 árum, þá mun hann geta komizt þangað.

Ef ég á að halda áfram að vitna í Rússland, en hv. þm. var einmitt að tala um, hvernig Stalín skipaði málum þar, þá má geta þess, að þegnunum er þar tryggður réttur til þess að ganga í skóla, eins langt og þeir vilja. Það er ekki eins og hér heima, að menn séu útilokaðir frá því, eins og t. d. að ganga í æðri skólana hér. Það er ekki nóg með það, að mönnum sé tryggður þessi réttur á pappírnum, heldur er mönnum tryggður styrkur, ókeypis húsnæði og annað, sem þarf til þess að geta lifað á meðan verið er í skóla, svo að fátækum nemendum á Íslandi, sem verða að hætta við skólanám af efnaleysi eða af því, að þeir fá ekki inngöngu, myndi þykja munur, ef þeim væri hér tryggður réttur til að mennta sig, svo að hver maður fengi inntöku og jafnframt styrk til að geta lifað á meðan hann stundaði skólanám.

Ég veit ekki, hvort hv. þm. Snæf. vill, að ég haldi áfram að telja upp þau réttindi, sem verkamenn hafa í Rússlandi, en ég get bætt því við, að þar hafa menn ókeypis læknishjálp, lyf og ennfremur ókeypis vist á hvíldarheimilum og spítölum. Ætli verkamönnum, sem verða að borga í sjúkrasamlagið eða fá hjálp hjá bænum vegna veikinda, myndi ekki þykja munur að fá alla læknishjálp ókeypis? — Ef hv. þm. vill, að ég haldi áfram, þá má nefna það, að verkamönnum í Reykjavík, sem þurfa að borga ? eða ½ af kaupi sínu í húsnæði, myndi þykja munur, ef það væri ákveðið með l., hvað mikið þeir skyldu greiða í húsnæðisleigu, og það væri ekki yfir 1/10 af launum þeirra, og enn minna af hinum lægstu launum. Hv. flm. þessa frv. til l. um vinnudeilur ætti ekki að vera að vitna í það, hvernig kjör verkalýðsins eru í því landi, þar sem hann ræður sjálfur, því þar verður samanburðurinn herfilegastur fyrir þá stétt, sem ræður hér á landi.

Ef farið er út í launakjör, þá hafa launakjörin í sovétríkjunum ferfaldazt á sama tíma, sem launakjörin hafa staðið í stað hér á landi. Og það er ekkert undarlegt. Orsökin er einmitt sú, að á sama tíma sem kreppan hefir gengið yfir auðvaldsheiminn, sem hv. þm. heldur, að enginn geti ráðið við, þá hefir þessi kreppa ekki verið til í sovétríkjunum. Ef hv. þm. vill bera saman. hvað framleitt er í hinum kapítalistíska heimi 1931 og hvað framleitt var 1929, þá mun hann komast að raun um, að það er svo að segja jafnmikið 8 árum eftir að kreppan skall á. Frá 1929 til 1932 gekk það niður á við, en síðan hefir það gengið upp á við, svo að nú er framleiðslan komin í sama horf og hún var í 1929. En hvernig hefir það verið í sovétríkjunum á meðan kreppan stóð yfir í auðvaldsheiminum? Þar hefir þessi kreppa ekki verið til, og því hefir iðnaðarframleiðslan getað ferfaldazt. Hún er nú fjórum sinnum meiri en hún var 1929, eftir skýrslum Þjóðabandalagsins. Þetta er munurinn á því skipulagi, sem byggt er á sósíalismanum, og því skipulagsleysi, sem ríkjandi er í auðvaldslöndunum.

Hv. þm. var að tala um, hvort ég myndi vilja bera fram frv. til l. um að afnema kreppuna. Það væri hægt, en frv. um það myndu verða yfirgripsmikil. Þau myndu fela í sér stórfelldar breyt. á stjskr. og atvinnuháttum í landinu. En þau myndu geta afnumið kreppuna. Það væri hægt með því að leiða sósíalismann í l. á Íslandi, því með öðru móti er það ekki hægt. Á meðan eignarréttur einstakra auðmanna er viðurkenndur í auðvaldsríkjunum, þá verður kreppan til, vegna þess að þeir, sem eiga framleiðslutækin, reka þau ekki til annars en að græða á þeim. Þar verða því kreppur, atvinnuleysi og hverskonar vandræði.

Ég vona, að hv. þm. Snæf. fari ekki oftar á Alþ. að tala um, að í landi sósíalismans hafi verkalýðurinn ekki hin einföldustu mannréttindi. Það eru hvergi til fullkomnari mannréttindi en þau, sem verkalýðurinn hefir þar. Í okkar lýðræðislandi, sem er þó það skársta, sem til er í auðvaldsskipulagi, eru þau í raun og veru ekki meiri en það, að verkalýðurinn getur barizt fyrir sínum hagsmunum, og það eru þau réttindi, sem verkalýðurinn er að vernda, þegar hann er að berjast á móti frv. til l. um vinnudeilur. Það er enginn réttur í þessu þjóðfélagi, sem tryggir verkalýðnum atvinnu eða brauð eða hvíld eða lækningu við sjúkdómum.

Hv. þm. talaði um tók eftir mann að nafni André Gide, sem hefði verið í Rússlandi. Hann talaði um, að hann væri hagfræðingur, en hann er nú skáld og rithöfundur.

Ég skal lána hv. þm. bók eftir hagfræðing, sem ekki er kommúnisti, og er þar að auki þekktur fyrir óhlutdrægar og nákvæmar rannsóknir á þjóðfélagsmálum í Evrópu, en það er Sidney Webb. Þau Webbhjónin eru bæði meðal hinna elztu og þekktustu forvigismanna Alþfl. í Englandi. Þau fóru til Rússlands og kynntu sér fyrirkomulagið, sem verkalýðurinn á við að búa þar. Þau skrifuðu bók um ástandið í Rússlandi, og er sú bók skrifuð af hinni vísindalegustu nákvæmni. Það væri mjög gott fyrir hv. þm. að kynna sér þessa bók og það, sem hún segir um ástandið í Rússlandi. Það eru ekki ferðaáhrif, sem móttækilegt skáld hefir skrifað, heldur er bókin byggð á rannsókn vísindamanna, sem eru sérfræðingar á þessu sviði.

Hv. flm. lauk ræðu sinni með því, að hann vonaðist eftir, að þetta frv. kæmist í gegn, því það væri að miklu gagni. En spurningin er, að gagni fyrir hverja? Það, sem hv. flm. er að berjast fyrir, er að koma á löggjöf, sem sé að gagni fyrir fámenna stétt, atvinnurekendur á Íslandi, en til bölvunar fyrir verkalýðinn á Íslandi. Þess vegna berjumst við á móti því, og þess vegna stendur verkalýður Íslands sem heild á móti því. Ég veit líka, að bændurnir á Íslandi standa ekki með þvingunarlögunum á móti verkalýðnum. Þeir vita of vel, hvaðan hættan stafar fyrir þeirra eigin frelsisbaráttu. Þeir vita, hverjir ráða í samvinnuhreyfingu þeirra. Þeir muna árásir heildsala og stórkaupmanna undanfarin ár og þær tilraunir, sem gerðar hafa verið til að hnekkja þeim. Þeir vita, að það er sami óvinurinn, sem verkamenn og bændur verða að stríða á móti, og að þessar tvær stéttir þurfa að koma sér saman, svo þær fái notið arðsins af vinnu sinni og haldið samtökum sínum óskertum til þess að berjast móti óvinum sínum. Þess vegna standa þessar stéttir saman.