26.10.1937
Neðri deild: 11. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í C-deild Alþingistíðinda. (1878)

41. mál, teiknistofa landbúnaðarins

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Þetta frv., sem hér liggur fyrir er í raun og veru aðeins nánari fyrirmæli um, hvernig starfrækja skuli teiknistofu þá, sem Búnaðarbankinn nú starfrækir. Þessi teiknistofa hefir, eins og kunnugt er, starfað hin síðustu ár að því að teikna þau hús og byggingar, sem þeir sjóðir hafa lánað til, sem heyra undir stjórn bankans og nefndir eru í þessu frv. Teiknistofan hefir starfað að því að bæta úr vandræðum þeim, sem stafa af því, að í sveitunum er völ á færri fagmönnum í þessum greinum en í kaupstöðunum, og auka öryggi fyrir þá sjóði, sem lánin veita til bygginganna. Ef þetta frv. gengur ekki fram, þá væri ráðh. heimilt, í samráði við bankastjóra Búnaðarbankans, að gefa út reglugerð um fyrirkomulag teiknistofnunar, sem færi í þá átt, sem frv. gerir ráð fyrir.

Ég álít, að það eigi ekki að ganga svo frá þessu frv., að farið verði að blanda saman við starfsemi teiknistofu Búnaðarbankans teikningum á öðrum byggingum en þeim, sem sjóðir þeir, er nefndir eru í frv., lána fé til. Ef þær stofnanir, sem lána fé til bygginga í kaupstöðum, vilja taka upp svipað fyrirkomulag, þá er þeim það heimilt, en ég býst ekki við, að þær lánsstofnanir kæri sig um það; a. m. k. mundi þurfa að leita álits allra slíkra lánsstofnana um, hvort þær vildu kosta sameiginlega teiknistofu. Teikning húsa fyrir sveitirnar er sérstakt verkefni út af fyrir sig, og því eðlilegt, að því verði haldið sérstöku út af fyrir sig, eins og undanfarið. Ég álit það misskilning, að eigi að áfrýja úrskurði teiknistofunnar til ráðh., af því að einmitt þær lánsstofnanir, sem lána fé til bygginganna, ættu að hafa úrskurðarvald þar um, eins og nú er gert, þar sem teikningarnar eru gerðar í samráði við bankastjóra Búnaðarbankans, sem lánar féð til bygginganna. Um byggingar í kaupstöðum er öðru máli að gegna. Þar er yfirleitt meiri völ á byggingarfróðum mönnum, og þær byggingar, sem telja má hliðstæðar þeim, sem um ræðir í þessu frv., eru verkamannabústaðirnir, og teikningarnar að þeim fá verkamenn sér að kostnaðarlausu, og líka eftirlitsmann, sem sér um, að húsin séu vel gerð. Hér kemur það sama til greina og við húsbyggingar í sveitum. Ríkið sér ástæðu til, þar sem af þess hálfu er svo mikið fé lagt fram, að hafi eftirlitsmann við byggingarnar og sjá verkamönnunum fyrir ókeypis teikningum. Þess vegna gildir raunverulega það sama fyrir verkamannabústaði og hér er ætlazt til um byggingar í sveitum, sem lán er veitt til úr þessum sjóðum. Um þær byggingar, sem ekki fá fé þaðan, gilda almennar reglur, og sama er að segja um byggingar þær í kaupstöðum landsins, sem ekki fá fé úr byggingarsjóðum verkamanna. Það er rétt, sem hv. flm. sagði, að þetta mál er hreint landbúnaðarmál og á því að fara til landbn. Ég tel, að það megi segja, að nú þegar sé búið að athuga þetta mál svo mikið og reyna það svo í framkvæmd, að tæplega komi til mála, að farið verði að blanda þessari teiknistofu saman við aðra, sem aðrir sjóðir vilja e. t. v. koma upp fyrir kaupstaðina. Teiknistofan hefir nú þegar nóg að gera og mun verða að bæta við starfskröftum eftir því, sem byggingar aukast í sveitunum, og yrði því enginn sparnaður að því, þótt önnur teiknistofa yrði sett upp í sambandi við þá, sem frv. fjallar um.