29.10.1937
Efri deild: 14. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í B-deild Alþingistíðinda. (198)

3. mál, kosningar til Alþingis

*Frsm. (Magnús Guðmundsson) :

Hæstv. forsrh. finnst till. n. athugaverð. Hann segir, að sú leið hafi verið athuguð í stjórnarráðinu, en ekki fundið náð fyrir þess augum. Ég tók það fram áðan, að á till. okkar væri sá galli, að fyrir gæti komið, að á frambjóðenda féllu nokkur atkvæði kjósenda, sem hefðu ekki viljað kjósa hann. Það er því ekkert nýtt komið fram, þó að hæstv. forsrh. bendi á þann galla. En þetta er líka eini galli þess fyrirkomulags. (Forsrh.: En hann er líka nokkuð stór).

Jæja, við skulum nú athuga gallana á hinni till. Hún gerir ráð fyrir, að öll atkv., sem búið er að greiða fyrir viðkomandi kjördæmi utan kjörstaðar, falli ógild. Segjum sem svo, að frambjóðandi félli frá 8–9 dögum fyrir kjördag og að það væri vika til stefnu fyrir hinn nýja frambjóðanda. Þá væru eftir 1–2 dagar til kosninga. Þetta þýðir, að útilokaðir eru svo að segja allir frá því að greiða atkv. utan kjörstaðar. Og eins og það er orðið mikið um það nú, þá sjá allir, að þetta er mjög rangt gagnvart öllum þeim fjölda kjósenda, sem þar gætu átt hlut að máll, því af þessum mönnum er beinlínis tekinn kosningarréttur. Það er þetta, sem var aðalatriðið fyrir nefndinni, að henni fannst ákaflega varhugavert, undir vissum kringumstæðum, að taka beinlínis kosningarréttinn af svo mörgum mönnum, sem nota þessa aðferð, að kjósa utan kjörstaðar. Ég held, að þegar vegnir eru gallar þessara till. beggja, þá séu ólíkt minni gallar á till. n. en till. stj. Og þó það sé svo, að það geti komið fyrir, að menn vilji ekki, að atkv. sitt falli á hinn nýja frambjóðanda, þá verða allir þeir, sem kunnugir eru kosningum hér á landi, að viðurkenna, að það er ekki nema í undantekningartilfellum. Það er svo venjulegt, að menn kjósi eftir flokkum, og menn eiga það á hættu, að fleiri verði gert rangt til í hinu tilfellinu, þegar kosningarrétturinn er beinlínis tekinn af fjölda manns.

Ég vænti því, að till. n. verði samþ., því hún er sammála um hana.

Út af ummælum hæstv. ráðh. skal ég taka það fram, að mér er kunnugt um, að þetta mál var einmitt umrætt í þeirri n., sem undirbjó kosningalögin. Og til þess að vita, hvort ég myndi þetta ekki rétt, hefi ég spurt hv. þm. N.-Ísf., sem líka var í undirbúningsnefndinni, hvort hann myndi ekki eftir þessu, og hann kvað já við því. Hann sagði, að þegar hann frétti um þessi bráðabirgðalög, hefði hann álitið og talað um það á fundi í sinni kosningabaráttu, að hann teldi réttara að hafa þessa aðferð, sem hér er stungið upp á. Ég er ekki að halda því fram, að það hafi svo mikið að segja, að hann líti svo á, þótt hann hafi verið í þeirri nefnd, sem undirbjó kosningalögin, en ég get ekki neitað, að þeir sem það gerðu, eru enn kunnugri þeim anda, sem hefir gengið í gegnum kosningalögin, en hinir, sem ekki voru í þeirri nefnd.

Það er vitanlega rétt, að það getur komið fyrir, að menn nái kosningu með atkv., sem kjósendurnir í raun og veru vilja ekki láta hlutaðeigandi fá. En það sama getur alveg eins komið fyrir af því, að tekinn er kosningarrétturinn af þeim mönnum, sem myndu hafa fylgt þeim frambjóðanda, sem fær lítið eitt færri atkv. en andstæðingurinn. Þetta atriði getur því komið fyrir í báðum tilfellunum. Og það eina, sem menn geta sagt sér fyrirfram, er þetta, að það er miklu færri gert rangt til með till. n. en till. stj.