17.11.1937
Neðri deild: 29. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í C-deild Alþingistíðinda. (1989)

80. mál, jarðræktarlög

Thor Thors:

Hv. þm. Mýr., sem af andstæðingunum helzt ræddi málið með rökum, vildi ekki viðurkenna, að hér væri nein deila um sósialisma í sambandi við þetta mál. En þegar hann aðgætir það, að jarðræktarstyrkurinn, sem numið hefir um 500 þús. kr. árlega, verður eftir 20 ár, ef ákvæðið helzt óbreytt, 10 millj. kr. í jarðeignum bænda, þá verður hann að viðurkenna, að hér er um verulega takmörkun að ræða á eignum þeirra. Jarðræktarstyrkurinn hefir fram til þessa verið hrein verðlaun, en nú er hann orðinn takmörkun á eignarréttinum. Ég þarf ekki að svara hv. þm. viðvíkjandi því, að samskonar ákvæði sé komið áður í gildandi löggjöf. Það eru aðrir hv. þm. búnir að gera, en mér þótti einkennileg rökfærslan hjá hv. þm., þegar hann vildi réttlæta þetta ákvæði 17. gr. með því, að fyrir handvömm þm. sjálfra skyldi svipað ákvæði vera komið inn í nýbýlalögin; m. ö. o., hv. þm. vildi réttlæta þetta með annari vitleysu sem þingið hafði framkvæmt.

Ég skal ekki fara langt út í svar hv. 1. þm. Rang. Ræða hans var, eins og ég bjóst við, aðallega persónuleg illkvittni. Hann talaði mjög mikið um þá ógurlegu hættu, sem yfir landbúnaðinum vofði vegna verðhækkunar á jörðunum. Reynslan á undanförnum árum bendir ekki á hættu á verðhækkun jarðanna. Fyrir tilstilli þessa hv. þm. m. a. er svo komið, að jarðarverðið hefir farið fallandi, vegna þess að jarðarverð er, eins og önnur verðmæti þjóðfélagsins, háð lögmálinu um framboð og eftirspurn, og jarðarverðið byggist fyrst og fremst á því, hvort hægt er að ávaxta fé í landbúnaðinum, en nú er svo komið, að búskapurinn hefir ekki borgað sig, og þess vegna hafa jarðirnar ekki hækkað í verði, eins og hv. þm. var að útmála, að væri svo hættulegt, heldur hafa þær fallið, og það er leit á mönnum, sem vilja leggja fé í jarðakaup. En ef slík hætta er á ferðum fyrir landbúnaðinn, því þá ekki að koma með eitthvað stærra heldur en þetta ákvæði? Því ekki að koma með hámarksverð á jarðirnar, ef það er nauðsynlegt? Því minnist þessi hv. þm. ekki annara verðmæta, sem í landbúnaðinum standa og látin eru ganga frá manni til manns, skepnanna? Því minnist hann ekki kúnna, þessi sérstaki kúavinur, sem kosinn var fyrir umhyggju sína í garð kúnna í Rangárvallasýslu? Því kemur hann ekki með það að setja hámarksverð á kýrnar? Ef það er hættulegt fyrir þróun landbúnaðarins, að jarðirnar hækki í verði, þá er eins hættulegt, að önnur verðmæti í landbúnaðinum hækki í verði. Hvers vegna er þessi verðhækkun hættuleg aðeins á sviði landbúnaðarins? Er hættan ekki á öðrum sviðum? Byggist þetta tal hv. þm. ekki á því, að hann getur ekki hugsað sér, að nein verðmæti í einkaeign fari vaxandi? Er það ekki sósíalistinn, sem þarna kemur fram hjá honum? Það var einkennilegt, þegar hv. þm. var að halda því fram, að allar þær jarðir, sem mest væri búið að gera við, hefðu fallið í hendur ríkisins. Ef þetta er rétt, þá sýnir það, að fé er ekki leggjandi í landbúnað; það sýnir, eins og annað, að þeir, sem hafa tekið að sér öðrum fremur að vernda hagsmuni bændanna, hafa búið þannig að landbúnaðinum, að það er ekki hægt að leggja fé honum til framkvæmda. Þegar hv. þm. beitir þessum rökum, þá er hann að gefa sjálfum sér og sínum flokki eftirminnilegan kinnhest. Hv. þm. minntist á jörð, sem faðir minn á hér í Mosfellssveit, og það átti að vera höfuðröksemdin gegn mér, að faðir minn ætti jörð, sem ekki borgar sig. Faðir minn hefir drýgt þá höfuðsynd að vera manna bjartsýnastur á framtíð íslenzks landbúnaðar. Hann hefir lagt hundruð þúsunda króna til þess. Hv. þm. talaði um, að hann hefði fengið 48 þús. kr. í jarðræktarstyrk. Það kann vel að vera. Hann hefir ekki sótt um það sérstaklega, og jarðræktarlögin voru ekki sett til þess að styrkja hann. Þeim var breytt aðeins vegna þess, að honum hlotnaðist nokkur styrkur til sinnar ræktunar. Það er komið svo einmitt vegna löggjafans, að það eru erfiðleikar á því að reka þenna búskap, sem byggðist sérstaklega á persónulegum dugnaði, sem hægt var að koma við í þágu þessa búrekstrar áður en löggjöfin hindraði það, og það mætti hv. 1. þm. Rang. vita. Það þarf ekki að vera ásökunarefni, þó að þessi jörð hafi verið boðin hanka til sölu. Það voru sérstök atvik, sem lágu til þess. Það eru sérstakar aðstæður í okkar þjóðfélagi nú fyrir aðgerðir ríkisvaldsins, sem valda því, að þessa jörð er betur hægt að hagnýta af hinu opinbera. Þá væri hægt að viðurkenna þau sérstöku atvik, sem nauðsynlegt er, til þess að þessi búskapur fái notið sín.

Ég skal ekki fara frekar í atkvæðatölurnar, sem hv. þm. talaði um. Þetta eru tölur starfsmanna Búnaðarfélagsins, sem ég tek miklu frekar trúanlegar en það, sem þessi hv. þm. les upp úr einhverjum pésa, sem hv. 2. þm. Skagf. fær honum. Hv. þm. var að tala um uppskeru úr kosningunum. Hann getur fagnað því, að hann slampaðist á þing, vegna þess að sósíalistar kenndu í brjósti um hann og sáu aumur á honum eftir að hann hafði tvisvar fallið í þessu kjördæmi, en aðalniðurstaða kosninganna var þannig, að fylgi Sjálfstfl. kom mjög glæsilega í ljós. Hann fékk 24500 atkv., þó að hann fengi ekki nema 17 þm., en Framsfl. fékk 14500 atkv., enda þótt hann fengi 19 þm. Þetta sýnir aðeins, að lýðræðið nýtur sín ekki fullkomlega í okkar þjóðfélagi, en ég sé ekki, að nein ástæða sé fyrir framsóknarmenn að fagna sérstaklega yfir því. Hv. þm. var að tala um, hverjir hefðu legið undir í kosningunum nú í vor. Ég vil spyrja, hverjir það eru, sem hafa legið undir í íslenzkum stjórnmálum undanfarin 10 ár. Eru það ekki framsóknarmenn, sem hafa verið undirlægjur sósíalista mörg undanfarin ár? Og í Nýja dagblaðinu í dag er einmitt vísir til áframhalds í sömu átt. En ef hv. þm. finnst þetta svo sérlega gott, þá hann um það, en ég hélt, að hann mundi ekki vilja hæla sér af útreið þeirri, sem framsóknarmenn hafa fengið hin síðustu ár.

Og hann þykist víst hafa veitt okkur makleg málagjöld, sem höfum tekið málstað bænda í þessu máli. Hann má grobba eins og hann vill af sínum afskiptum af þessu máli og öðrum, sem bændum viðkoma, en röksemdir hans sanna aðeins það, sem hann annars hefir reynt að leyna, að hér er hreinræktaður sósíalisti á ferðinni. Það sýnir öll hans stjórnmálabarátta. Okkur er ánægja að því, að hann láti það sem oftast í ljós í opinberum umr.

Ég veit ekki, hvort ég tek aftur til máls við þessa umr., en ég veit, að hvort sem jarðræktarstyrkurinn verður nú veittur sem verðlaun til bændanna, eða hann leggur kvöð á þá, að baráttunni um það mun haldið áfram þar til bændur hafa fengið fullan sigur í sínu máli.