15.11.1937
Neðri deild: 27. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í C-deild Alþingistíðinda. (2007)

82. mál, verklegar framkvæmdir í Vestmannaeyjum

Flm. (Ísleifur Högnason):

Herra forseti! Eins og kunnugt er, hafa Vestmannaeyjar þá sérstöðu, að þær eru ekki í sambandi við vegakerfi landsins, en samgöngur við Vestmannaeyjar eru að vísu sæmilegar, því að með því tillagi, sem veitt hefir verið árlega í fjárlögum til strandferða, má segja, að Vestmannaeyjar hafi ekki alveg verið undanskildar framlögum úr ríkissjóði til samgöngumála. En þó er við það að athuga, að meiri hluta ársins, a. m. k. á sumrin og einnig oft að vetrarlagi, er farrýmið oft svo upptekið á skipum, sem fara á milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja, að Vestmannaeyingar verða venjulega að hírast á þilfari að næturlagi, og að sjálfsögðu er það ekki nema brot af öllum flutningi milli Vestmannaeyja og meginlandsins, sem ríkisskipin annast. .Á fjárlögum fyrir árið 1938 er gert ráð fyrir röskri 1½ millj. kr. alls til vegamála. Þessu fé er varið til vegagerða og brúargerða víðsvegar um landið, en Vestmannaeyjar eru elnar undanskildar. Það gefur að skilja, að það er afarmikill styrkur fyrir þær sýslur og bæjarfélög, þar sem vegagerð og brúargerð er framkvæmd, að fá slíka atvinnubótavinnu fyrir verkamenn þá, sem þar eiga heima. Þessar atvinnubætur fer verkalýðurinn í Vestmannaeyjum algerlega á mis við, svo að það er engin furða, þó að afkoma verkamanna í Vestmannaeyjum sé rýr, þar sem svo mikill hluti af þessu fé fer alveg framhjá þessum bæ. Það er dálítið einkennilegt, að í jafnmiklu aflaplássi og í Vestmannaeyjum skuli meðaltekjur manna vera lægri árin 1929–1932 þar samkv. skýrslu launamálanefndar heldur en í öllum öðrum kaupstöðum landsins, og þó er þetta tímabil stöðugt uppgangstímabil í sjávarútveginum og veltiár. Tvö síðustu ár hafa verið mjög erfið í Vestmannaeyjum. Það hefir verið aflalítið og mikið atvinnuleysi, og ef nú væri tekin skýrsla um meðaltekjur manna þar, þá kæmi í ljós, að þær væru miklu lægri en nokkursstaðar í öðrum kaupstað á landinu. Þetta kemur líka til meðfram af því, að atvinnutímabilið er mjög stutt. Vertiðin er þar ekki nema 2–3 mánuðir, og önnur vinna er af mjög skornum skammti. Fiskþurrkun hefir minnkað mjög mikið, og ástandið meðal verkalýðsins í Vestmannaeyjum er í stuttu máli sagt að verða óþolandi, enda flytja þaðan margar fjölskyldur á ári til annara landshluta. Ég efast ekki um það, eins og ég tók fram, að það á sinn þátt í þessu, að Vestmannaeyingar hafa verið alveg afskiptir að því er snertir framlög úr ríkissjóði til vegagerða, því að það munaði ekki litlu, ef hægt væri að stofna til slíkrar atvinnu í Vestmannaeyjum að tiltölu við aðra landshluta. Það mundi áreiðanlega muna því, að meðaltekjur verkamanna yrðu 200–300 kr. hærri á ári en nú. Þegar ofan á þetta bætist svo, að í ríkissjóð rennur árlega sem skattur af byggingarlóðum í Vestmannaeyjum milli 20 og 30 þús. kr., auk þess sem ég hefi áður nefnt, þá má segja, að ríkissjóður fari með Vestmannaeyjar eins og nýlendu. Vestmannaeyjar hafa þá sérstöðu, að af hverri 240 m2 lóð verður að borga 30 kr. ársleigu í eftirgjald, sem rennur til ríkissjóðs.

Ég vona, að hv. þm. taki þessi mál til alvarlegrar yfirvegunar, því að það er enginn vafi á því, að ástandið í Vestmannaeyjum er verst af öllum kaupstöðum landsins, og ég tel, að m. a. sé það ein aðalástæðan, hvernig ríkissjóður fer með þessa sýslu umfram aðrar sýslur eins og nýlenda væri.