03.12.1937
Neðri deild: 41. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í C-deild Alþingistíðinda. (2035)

114. mál, Háskóli Íslands

*Flm. (Sveinbjörn Högnason):

Frv. það, sem hér liggur fyrir og flutt er að tilhlutun Framsfl., þarf ekki mikilla skýringa við fyrir hv. þdm. Þetta frv. er þegar mikið rætt og umtalað, bæði í blöðum og annarsstaðar og er auk þess ákaflega einfalt og auðskilið að formi og efni, þeim sem hafa lesið það.

Ég verð að segja það, að mig undrar, hversu sumir skýrendur þessa frv. hafa getað fengið mikið út úr því, frekar en þar standa efni til og fyrir okkur flm. hefir vakað.

Innihald frv. er í fáum dráttum í raun og veru tvennt. Í fyrsta lagi, að heimilt sé, eftir ósk nemenda í vissri háskóladeild, að láta fráfarandi kennara kenna og prófa stúdenta við embættispróf, ef ástæður og möguleikar eru fyrir hendi. Það ætti að vera öllum skiljanlegt, hversu sjálfsagt slíkt er, þegar því verður við komið, eins og oft gelur verið.

Tilefnið til þessa nú er, eins og kunnugt er, það, að séra Björn Magnússon var fyrirvaralaust látinn fara frá embætti sinu við háskólann, sem er bæði nemendum hans mjög bagalegt og töluvert harkalegt fyrir hann sjálfan, eins og á stóð. Það virðist alveg óþarfi að baka mönnum slík óþægindi og þessi, hvað sem segja má um önnur ágreiningsatriði þessarar embættisveitingar.

Þá er það hitt atriðið, sem er megintilgangur frv., að það myndist leið í l. háskólans til þess, að vissir hæfileikamenn geti kennt við hann og hann þannig styrkzt betur og meir að starfskröftum en nú er, því eins og kunnugt er, er að lagast með húsnæði fyrir skólann. Það hefir verið komið upp atvinnudeild, og það hafa á allan hátt skapazt betri skilyrði fyrir aukna starfskrafta. Slíkt ætti að geta verið í mörgum tilfellum alveg kostnaðarlaust fyrir þjóðfélagið. Það má hugsa sér, að sumum embættum hér í bænum fylgdi sú kvöð, að hlutaðeigandi yrði að kenna vissan stundafjölda við háskólann, ef hann teldi það æskilegt.

Í öðru tilfelli er hægt að hugsa sér menn, sem hefðu þá sérstöku aðstöðu, að geta starfað í nokkurskonar þegnskyldu við háskólann, eins og allmargir myndu vilja gera. Slíkt gæti vafalaust verið mjög heppilegt í mörgum tilfellum. M. ö. o., með þessu frv. er beinlínis stefnt að því að skapa ný starfsskilyrði fyrir háskólann og að starfskraftar hans megi aukast með hinn góða húsrúmi, sem hann á í vændum að fá. Frv. miðar eingöngu að því, að auka hag skólans, að það verði betri skilyrði til að fá fyllri starfskrafta að honum. Og eins og hver maður getur séð, þá er það mjög æskilegt, þar sem skólinn er nú skipaður fáum og fábrotnum starfskröftum, að hægt sé að bæta úr þessu.

Ég vil svo óska þess, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og menntmn.