03.12.1937
Neðri deild: 41. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í C-deild Alþingistíðinda. (2039)

114. mál, Háskóli Íslands

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) :

Það eru nokkur atriði í ræðu hv. þm. V.-Sk. sem ég get ekki látið ósvarað og vil einnig fá nánari skýringu um.

Hv. þm. sagði, og það var meginatriðið í ræðu hans, að háskólinn hafi óskorað veitingarvald um öll þau kennaraembætti, sem undir hann heyra, þó að hann aftur viðurkenndi, að það heyrði að forminu til undir ráðh. eða konung. Ég hirði ekki að fara út í þetta mál nú, en vil benda þeim, sem þetta vilja athuga, á skýrslu kennslumálaráðuneytisins um þetta efni, sem gefin var út á síðasta ári í sambandi við prófessorsembættið í lagadeild, þar sem sérstaklega var vikið að þessum fullyrðingum, sem bornar voru fram af háskólaráði og mörgum prófessorunum. Hitt er enginn vafi, að l. samkv. heyrir veitingarvaldið óskorað undir ráðh.

Nú verða menn líka að vera þess minnugir, þegar um þetta mál er rætt, að próf það, er fram fór, og viðræður þær, er fram fóru milli kennara guðfræðideildar og mín sem ráðh., fóru fram um sama leyti og skipunin í það fyrra prófessorsembætti fór fram. Þá var prófessorunum það skiljanlega ríkt í huga að halda fast við þann ímyndaða rétt háskólans, að hafa veitingarvaldið í sinum höndum. Hv. þm. játaði þó, að þær undantekningar gætu verið til, að ástæða væri fyrir ráðh. að virða ekki rétt háskólans í þessu efni, en sagði jafnframt, að í því tilfelli, sem hér er um að ræða, hafi ekki slíkar ástæður verið fyrir hendi, vegna þess að enginn hafi látið sér detta í hug, að sú dómnefnd, sem skipuð var til þess að dæma um keppendurna. hafi verið hlutdræg.

Í sambandi við þetta kemst ég ekki hjá að segja, að mín skoðun er sú, — og ég er sennilega þessu máli kunnugastur, að undanskildum kennurum skólans, — að á því er enginn minnsti vafi, að á einum keppandanum, Sigurði Einarssyni, hefir verið níðzt af dómurunum, en hvort það hefir verið gert sjáandi eða blindandi, skal ég ekki dæma um. En það er svo gersamlega óhugsandi, að tvo fræðimenn greini svo á um fræðileg atriði, et eingöngu er dæmt frá því sjónarmiði, sem þeir prófessorar Mosbech og Nygren gera í dómi sínum um úrlausn Sigurðar Einarssonar. Annar maðurinn, Mosbech, segir, og það gerir dómnefndin öll að orðum sínum, að kunnátta hans og þekking sé svo lítil, að hún sé langt undir því lágmarki, sem vænta mætti af mönnum, sem leyfðu sér að sækja um slíka stöðu, og hann sé langlakastur af öllum umsækjendunum. Hinn maðurinn, sem enga minnstu ástæðu gæti haft til að líta öðrum augum á málið en hreinum fræðimannsaugum, kemst að þeirri niðurstöðu, að Sigurður Einarsson skari fram úr, en hinir séu fyrir neðan þá markalinn, sem vera beri, þar sem vísindalegir verðleikar eru vegnir hver á móti öðrum. Það er gersamlega óhugsandi, að tveim fræðimönnum, sem líta eingöngu fræðimannsaugum á málið, geti borið svona á milli í dómum sinum. Ég get vel skilið, að menn greini á um, hvort Sigurður Einarsson sé meira eða minna hæfur eða hvort Björn Magnússon sé meira eða minna hæfur, en að þeim ber svo mjög á milli sem þeim gerir, getur mér fyllstu ástæðu til að ætla, að önnur sjónarmið en fræðimannsins hafi verið lögð til grundvallar, þegar dómnefndin kvað upp sinn dóm.

Ég kemst ekki hjá að inna hv. þm. V.-Sk. eftir því, hvað hann hafi meint með dylgjum sínum um, að ráðh. hafi strax frá upphafi verið ákveðinn í að fá aðra niðurstöðu, önnur úrslit, annan dóm, og til þess að fá sér betri dóm snúið sér til flokksmanns síns í Svíþjóð. Hvað meinar hann, þegar hann segir, og ég hafi, með það fyrir augum að fá betri dóm, snúið mér til þessa manns? Er það ætlun hans, að ég hafi pantað ákveðna niðurstöðu, og hvernig átti ég að fara að því? Eða svo að ég sé ekki myrkur í máli: Er hann að gefa í skyn, að ég með einhverjum sérstökum fríðindum hafi reynt að fá nafnfrægan erlendan vísindamann til þess að gefa rangan úrskurð í því máli, sem til hans er skotið, og kennslumálaráðh. Svía, sem hann segir, að sé pólitískur kunningi kunningja míns, hafi gerzt milligöngumaður í þessu máli? Er þetta meining hans, og ef hann meinar það ekki, hvað meinar hann þá? Ég tel, að slíkar dylgjur séu ósæmilegar í þessari d., og ég vona, að honum sé það líka fullkomlega ósæmilegt.

Hv. þm. segir, að það sé eftirtektarvert um þá skýrslu, sem kennslumálaráðuneytið gaf út um þetta mál, að ég vilji koma henni yfir á ráðuneytið. Það er misskilningur, að ég vilji reyna að draga úr því, að skýrslan sé frá kennslumálaráðuneytinu, en í sambandi við þau orð, sem hann lét einnig falla, að skýrslan væri svo stórorð, vil ég segja, að það er ekki mér eða þeim, sem rituðu skýrsluna, að kenna, þó að í henni þyki vera nokkuð hvöss orð, heldur er það af því, að sannleikurinn er stundum nokkuð harðyrtur, ef hann á að vera sagður, og því verður háskólinn og þessi hv. þm. að una.

Hv. þm. ber sig mjög undan því, að með þessum málavöxtum öllum sé háskólinn svívirtur af þeim, sem sé yfirmaður þessarar æðstu stofnunar þjóðarinnar. Þessu vil ég algerlega mótmæla. Ég hefi enga svívirðu gert háskólanum, en ég tel mig ekki við það bundinn að þegja um þær ávirðingar, sem starfsmenn og stjórnendur háskólans hafa í frammi, og láta þær óátaldar. Mér finnst það skjóta skökku við, ef þeir eru dæmdir sýknir saka, sem ávirðingarnar hafa í frammi, en áfellisdómur kveðinn upp yfir þeim, sem átelur ávirðingarnar. Það er beinlínis skylda kennslumálaráðh. að líta eftir, að stofnanir, sem undir hann heyra, starfi á þann hátt, sem þeim ber og er heppilegast fyrir þjóðarheill og hag.

Þá segir hv. þm., að ekki sé nóg að líta á fræðimennskuna eina saman, þegar velja skuli kennara við guðfræðideild háskólans. Ég vil í því sambandi benda honum á, að dómendur og háskólaráð virðast í öllu sínu máli líta svo á, að það sé sú vísindalega hæfni, sem eigi að ráða. A. m. k. er svo að orði kveðið, þó að virðast megi, að einhverjar aðrar ástæður hafi ráðið um álit þeirra á umsækjendunum.

Hv. þm. segir, að kennarar við guðfræðideildina eigi ekki aðeins að iðka sína fræðigrein sem vísindi, heldur eigi þeir einnig að undirbúa boðendur orðsins undir starf sitt hjá þjóðinni, og fullyrðir, að Sigurður Einarsson sé óhæfur til þess starfs, hvað sem annars megi segja um hans vísindalegu hæfni. Ég vil í þessu sambandi upplýsa hv. þm. um það, ef hann veit það ekki áður, að Sigurður Einarsson hefir af biskupi landsins verið til þess vígður að boða orðið kristnum íslenzkum söfnuði. Og fyrst honum hefir verið trúað til slíks og verið til þess vígður af æðsta manni kirkjunnar, þá er undarlegt, að hann skuli ekki vera boðlegur til að kenna sína fræðigrein við guðfræðideild háskólans.

Um grein Sigurðar Einarssonar um hinar fornu dyggðir, sem mjög hefir verið vitnað í, skal ég ekki vera fjölorður. Ég hygg, að et farið væri aftur í tímann, mætti finna marga af stríðsmönnum guðs kristni, sem hafa samið rit um guðfræðileg efni, rit, sem hafa vakið ákaflega miklar deilur og mikinn storm um það leyti, sem þau komu út. Ég veit ekki betur en að mjög mikið hafi t. d. verið deilt á Harald Níelsson fyrir rit hans, þegar þau komu fyrst út, einkum framan af. Ég hygg líka, að ef ætti að velja kennara við guðfræðideildina eftir frúarskoðunum, þá yrði ekki gott að finna mann, sem allir yrðu ánægðir með. Ef ætti að fara þá leið, þá væri komið út á þá braut, sem erfitt yrði að fóta sig á.

Hv. þm. talaði um, að stúdentar í guðfræðideild hefðu andmælt skipun hins nýja dósents og óskað að fá að halda sínum fyrri kennara. En þó hefir farið svo, að fullur helmingur nemenda deildarinnar kýs að sækja tíma til hins nýskipaða dósents. Mér er kunnugt um, að skoðanir stúdenta á þessu máli skiptast nokkuð jafnt á hvorn veg. En um þetta má lengi deila, og sé ég ekki ástæðu til að orðlengja um það nú.