06.12.1937
Neðri deild: 43. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í C-deild Alþingistíðinda. (2076)

129. mál, hæstiréttur

*Garðar Þorsteinsson:

Það hefir farið í taugarnar á hv. þm. Mýr. og hv. þm. Barð., að ég komst þannig að orði í dag, að ég þekkti varla svo heimskan mann, sem gæti innritazt í lagadeild háskólans, að hann gæti ekki náð lélegasta prófi í lögfræði. Ég get sagt það við hv. þm. Barð., að ég hafði hann nú ekkert sérstaklega í huga. En hann þekkir þetta jafnvel og ég. En ég sagði þetta til að sýna, hve mikil fjarstæða það er, sem kemur fram í ræðu hv. þm. Mýr., að hann vill hafa þessi réttindi, sem hér um ræðir, alveg óbundin við einkunnir við próf úr lagadeild háskólans. Till. hans í þessu efni í frv. er fjarstæða, vegna þess að samkv. þeirri till. gæti maður með lélegasta prófi í lögfræði komið til greina til þess að verða dómari í hæstarétti. Og þó að hann vildi draga úr ákvæðum frv. á þann hátt, sem hann gat um, þá verður sá hv. þm. að gæta að því, að allir hæstaréttarmálaflm. eru einnig varadómarar í hæstarétti samkvæmt lögum.

Ég vil svo aðeins benda á reglugerð um framhaldsnám kandidata í læknisfræði til að geta öðlazt ótakmarkað lækningaleyfi og um sérmenntun lækna til að geta öðlazt sérfræðingaleyfi (nr. 15 20. febr. 1936). Í 2. gr. þessarar reglugerðar er það sett sem hreint skilyrði til þess að ná þessum réttindum, sérfræðingaleyfi, að viðkomandi læknir hafi lokið kandidatsprófi í læknisfræði með 1. einkunn. En svo eru undantekningarákvæði um 2. einkunnar menn (4. gr.), ef þeir hafa sýnt einhverja sérstaka þekkingu á sinni fræðigrein. Alveg sama gildir um lögfræðinga. Þetta finnst mér rétt.

Þó að hv. þm. tali hér um prófanir þær við flutning mála í hæstarétti, sem þeir verða að ganga undir, sem ætla að verða hæstaréttarmflm., þá er þess að gæta, að þær prófanir byggjast á fyrri ræðu málfærslumanns, og hún er ætíð skrifuð. Það þarf því ekki að vera, að maður valdi því efni, sem hann talar um, þó hann geti haldið góða ræðu um það, sem er skrifuð, og hann þá e. t. v. hefir fengið aðstoð við að semja.