18.11.1937
Sameinað þing: 7. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (2214)

79. mál, héraðsskólar

*Flm. (Jónas Jónsson):

Þessi till. okkar gerir ráð fyrir því, að ríkisstj. láti athuga fyrir næsta þing nokkrar breytingar á héraðsskólal., að því er verklegu kennslunni viðvíkur. Málið er skýrt nánar í grg., og hafa margir hv. þm. tekið líklega í það, og þarf ég því ekki að vera margorður. Í stuttu máli er gert ráð fyrir, að vinnukennslan við héraðsskólana verði aukin mjög að piltum verði kenndar allskonar smíðar, en stúlkum matreiðsla, vefnaður, saumur og prjón.

Ástæðurnar til þessara breytinga eru þær, að land okkar er lítt numið, og þurfa flestir að byggja yfir sig og fá sér húsgögn, sem fyrir marga eru ófáanleg, af því að þau eru svo dýr. Ef ekki er hægt að breyta verklegri þekkingu þjóðarinnar á þessu sviði, hlýtur það að standa stórlega í vegi fyrir eðlilegum störfum, er vinna þarf í landinu. Á hina hliðina ber og að líta á, að héraðsskólarnir gætu með þessu móti betur fullnægt þörf landsmanna en nú er. Mönnum er ekki nógu ljóst, að einhliða bókleg kennsla og íþróttakennsla er ekki heppileg. Þetta var ef til vill heppilegra fyrir 30 árum, en eins og nú er komið atvinnurekstri og fjárhagsafkomu þjóðarinnar, er nauðsynlegt að búa ungt fólk undir praktísk störf meira en verið hefir. Við skólann að Laugum í Þingeyjarsýslu hefir t. d. verið vel hæfur smíðakennari. Er hann listmálari og ágætur smiður. Í þessum skóla, sem hefir haft marga góða kennara og hefir m. a. miðstöðvarhitun, hafa flestir nemendur viljað vera í smíðakennslu, fleiri en hægt hefir verið að koma að. Er því ekki vafi á, að þessari breytingu yrði yfirleitt vel tekið af nemendum héraðsskólanna. — Það má segja, að þetta myndi hafa aukinn kostnað í för með sér, en ég held ekki, að það yrði teljandi. Þar sem héraðsskólar flestir, nema skólinn á Núpi, eru hitaðir með hveragufu, væri hægt að koma upp góðum verkstæðum til þessarar kennslu í ódýrum skálum. Upphitun þessara skála yrði því miklu ódýrari en t. d. hér í Reykjavík.

Að öðru leyti vísa ég til grg.