16.12.1937
Neðri deild: 52. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í D-deild Alþingistíðinda. (2233)

137. mál, Háskóli Íslands

*Forseti (JörB):

Frá hæstv. atvmrh. kom á sínum tíma fram ósk um það, að útvarpsumræður færu fram um þetta mál. Ég leitaði svo til flokka þingsins um það, hvort þeir gætu fallizt á þessa málaleitun, og fékk ég þau svör frá þingflokkunum, að þeir gætu fallizt á þá ósk. En þar sem þessi þáltill. kom ekki fram fyrr en þannig hafði skipazt hjá útvarpinu, að allir dagar í þessari viku voru uppteknir, en hinsvegar mun það ætlunin, að störfum þessa þings verði lokið upp úr næstu helgi sem fyrst. þá sýnist mér allt benda til þess, að ekki verði unnt að taka málið fyrir fyrr en eftir helgina þannig, að útvarp um það geti átt sér stað. Eigi þess vegna að ræða málið, þá þykir mér óhjákvæmilegt, að það komi til umr. einmitt nú, og ef til vill í síðasta lagi í dag, því eins og hv. þm. er kunnugt, þá er það tilætlunin, að umr. fari fram um fjárl. á morgun og á laugardag. Ég hefi þess vegna tekið málið á dagskrá nú og tek það fyrir.