16.12.1937
Neðri deild: 52. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í D-deild Alþingistíðinda. (2237)

137. mál, Háskóli Íslands

*Forseti (JörB):

Út af þeim ummælum, sem fallið hafa, og þá fyrst og fremst frá hv. þm. V.-Sk., vil ég taka það fram, að þær ástæður, sem ég færði fyrir því að taka málið fyrir nú, en fresta ekki frekari umr. um það, eru alveg réttar. Ég kenndi engu öðru um en því, að málið kom ekki fyrr inn í d. en sá tími var liðinn, sem mögulegt var að taka það fyrir til umr. í útvarpi. ríkisútvarpið hafði lofazt til að flytja jólakveðjur frá Danmörku til Grænlands með samþykki Alþ., svo fram til föstudags er það upptekið dag hvern í þessu skyni. En föstudag og laugardag var fyrirfram ákveðið, að fram skyldu fara útvarpsumr. frá Alþ. um fjárl., eða svokallaðar eldhúsumr. Hv. þm. V.-Sk. veit líka, að hvað mig áhrærir, þá gerði ég ráðstafanir til þess, að útvarpsumr. gætu farið fram á sínum tíma. En málið varð síðbúið af hálfu menntmn., eða meiri hl. n.

Ég vil geta þess út af orðum hv. þm. V.-Sk. um það, að hann óskaði eftir, að útvarpsumr. færu fram um málið á laugardag, að því er þar til að svara, að ég treysti mér ekki til að sjá svo fyrir, hvað liður störfum þessarar d., að það geti orðið mögulegt. Ég vil því ekki tefla á tæpasta vaðið um það, að þetta mál fái afgreiðslu úr þessari d., og mun þess vegna taka málið til umr. nú.