21.12.1937
Sameinað þing: 18. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í D-deild Alþingistíðinda. (2292)

130. mál, hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulag á atvinnurekstri

Thor Thors:

Þessi till. er flutt af 1. varaþm. Reykv., Jóhanni G. Möller, sem nú er horfinn af þingi, og mér. Hún fer fram á, að Alþingi skipi 5 manna n. til þess að athuga, á hvern veg og hversu víða megi koma á hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulagi í atvinnurekstri landsmanna og hvernig Alþingi geti stuðlað að því að efla slíkt fyrirkomulag.

Þetta er nokkurt nýmæli hér á landi, en þetta skipulag, sem till. fjallar um, hefir verið reynt mjög viða erlendis, einkanlega í stórum fyrirtækjum, og hefir gefizt þar með ágætum. Það er um tvennt að ræða. Í fyrsta lagi að gefa verkamönnunum nokkurn hluta af arði fyrirtækjanna, sem þeir vinna við, og í öðru lagi að gefa þeim nokkra íhlutun um stjórn fyrirtækjanna.

Það er orðið svo áliðið þingtímans, að ekki er hægt að fylgja þessu máli svo úr hlaði sem það verðskuldar, en ég vil leyfa mér að vænta þess, að þar sem hér er um mál að ræða, sem getur haft þann eina tilgang og þá einu afleiðingu, að tengja saman báða aðilja í atvinnulífinu, verkamenn og vinnuveitendur, og skapa meiri frið á þessu sviði, þá mæti það velvild allra hv. þm.